Fara í innihald

Svefn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kona sem sefur.
Karlar sofa á bekk í Íran.

Svefn er náttúruleg hvíld manna og dýra og felur í sér meðvitundarleysi, algert eða hálfgert, auk þess sem hlé verður á meðvitaðri líkamsstarfsemi. Svefn veitir líkamanum hvíld og endurnærir hann. Öll spendýr og fuglar sofa og einnig sum skriðdýr, froskdýr og fiskar. Fyrir menn og spendýr er svefn lífsnauðsynlegur en þó er ekki fullljóst hvers vegna. Svefn hefur þó verið mikið rannsakaður og margar rannsóknir eru í gangi.

Bæði hjá spendýrum og fuglum eru aðalstig svefns tvö: draumsvefn (e. REM) eða léttur svefn og hvíldarsvefn (e. NREM) eða djúpur svefn. Hvort stig um sig hefur í sér mismunandi lífeðlisfræðilega, taugafræðilega og sálfræðilega þætti. Hvíldarsvefn skiptist líka í fleiri stig: N1, N2 og N3, sem er dýpsta svefnstig. Í svefni skiptast á REM- og NREM-svefntímabil. Heilastarfsemi breytist mjög í svefni. Of lítill svefn getur orsakað þreytu, vanlíðan og streitu og haft áhrif á einbeitingu, minni og rökhugsun. Svefnleysi getur líka haft slæm áhrif á ónæmiskerfið, seinkað því að sár grói og valdið truflunum á framleiðslu vaxtarhormóna og þar með haft áhrif á líkamsvöxt barna.

Það dregur úr svefnþörf með aldrinum. Tímalengd REM-svefns er lengri hjá börnum: kornabörn sofa REM-svefni í um 9 klukkustundir á sólarhring en þegar barnið er um fimm ára gamalt er tímalengd REM-svefns aðeins um það bil tvær klukkustundir á sólarhring.

Aldur og ástand Meðallengd svefns á sólarhring
Kornabörn allt að 18 klst.
1–12 mánaða 14–18 klst.
1–3 ára 12–15 klst.
3–5 ára 11–13 klst.
5–12 ára 9–11 klst.
Unglingar 9–10 klst.
Fullorðnir og aldraðir 7–8 (+) klst.
Barnshafandi konur 8 (+) klst.


Heimildir[breyta | breyta frumkóða]