Fara í innihald

Spanish Fork

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ráðhúsið í Spanish Fork.

Spanish Fork er bær í Utah-fylki í Bandaríkjunum. Við manntal 2020 voru íbúar um 42.600.[1] Samkvæmt bandarísku hagstofunni er Spanish Fork 20. stærsta borg Utah.[2]

Byggðin í Spanish Fork varð til þegar mormónalandnemar settust þar að árið 1850. Nafnið á sér rætur í ferðalagi tveggja munka af spænskum uppruna árið 1776. Þeir töldu landið óbyggilegt og við þeim blasa óræktanleg eyðimörk.

Á árunum frá 1856 til 1862 fluttust 16 íslenskir mormónar til Spanish Fork. Þeir stofnuðu þar fyrsta samfélag Vestur-Íslendinga í Ameríku. Fyrstu landnemarnir voru hjónin Samúel Bjarnason og Margrét Gísladóttir, Sverrir Jónsson og Guðrún Pálsdóttir, ásamt Helgu Jónsdóttur og Guðrúnu Pálsdóttur. Þau voru öll frá Vestmannaeyjum nema Guðrún sem var fædd í Melasveit í Borgarfirði. Ferðin tók um tíu mánuði. Seinna fluttist Eiríkur á Brúnum þangað og skrifaði um ferð sína á þessar slóðir og veru sína í Spanish Fork. Saga Eiríks varð Halldóri Laxness innblástur að skáldsögunni Paradísarheimt.

Langflestir þeirra íslensku mormóna sem héldu vestur um haf settust að í Spanish Fork. Skrá yfir alla Íslendinga sem fluttust þangað telur 412 nöfn. Langflest þeirra sem þar eru nefnd lögðu af stað eftir 1870.[3]

Þann 26. júní 2005 endurvígði forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, minnisvarða um landnám Íslendinga í Spanish Fork.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Herald, TIM VANDENACK Special to the Daily. „Lehi, Eagle Mountain, Saratoga Springs and Vineyard motor Utah County's growth“. Daily Herald (enska). Afrit af upprunalegu geymt þann 18 ágúst 2021. Sótt 18 ágúst 2021.
  2. „Spanish Fork, Utah Population 2021 (Demographics, Maps, Graphs)“. Afrit af upprunalegu geymt þann 18 júní 2021.
  3. Woods, Fred E.,; Friðrik Rafn Guðmundsson þýddi (2007). Eldur á ís. Saga hinna íslensku Síðari daga heilögu heima og að heiman. Háskólaútgáfan. bls. 83. ISBN 9979547464.