Sogæðakerfið
Sogæðakerfið | |
---|---|
Auðkenni | |
MeSH | D008208 |
TA98 | A13.0.00.000 |
TA2 | 5149 |
FMA | 7162 74594, 7162 |
Líffærafræðileg hugtök |
Sogæðakerfið, vessakerfið eða eitlakerfið er eitlar á hálsi, í handarkrikum og nára og inni í brjóstholi og kviðarholi, milta og sogæðar sem tengja eitlastöðvar saman. Eitilvefur er einnig í maga og görnum, lifur, beinmerg og húð.
Sogæðar eða vessaæðar eru grannar rásir sem mynda sérstakt æðakerfi um allan líkamann. Vessaæðar eru um allan líkamann nema í æðavef, í miðtaugakerfi og rauðum beinmerg. Á vessaæðum eru eitlar með reglulegu millibili. Eitlarnir sía vessann og fjarlægja úr honum óhreinindi.
Hlutverk vessakerfisins er þríþætt, í fyrsta lagi að safna umfram millifrumuvökva í vefjum og koma honum og prótínum aftur inn í blóðrás, í öðru lagi taka vessaæðar þarmanna við fituefnum og koma þeim í blóðrásina og í þriðja lagi verja eitlar líkamann fyrir framandi ögnum.
Vessaæðar eru lokaðar í annan endann. Upptök þeirra eru í þeim vefjum þar sem vessi myndast og vessinn berst svo í burtu með fínum vessaæðum í stærri æðar og sameinast svo í tvær stórar æðar. Önnur þeirra nefnist hægri vessagangur og tekur við vessa frá efri hluta hægri hluta líkamans. Hin nefnist brjóstgangur og tekur við vessa frá öllum neðri hluta líkamans og frá efri hluta vinstri hluta líkamans. Úr stóru vessaæðunum fer vessinn út í blóðrásina. Ef vessi kemst ekki aftur út í blóðrás þá safnast hann fyrir í vefjum og verður að bjúgi.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]