Soffía Eiríksdóttir af Danmörku

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Soffía drottning; mynd af innsigli hennar.

Soffía Eiríksdóttir (12411286) var dönsk konungsdóttir og drottning Svíþjóðar frá 1260 til 1275, þegar manni hennar var steypt af stóli.

Soffía var dóttir Eiríks plógpenings Danakonungs og Juttu af Saxlandi. Faðir hennar var myrtur 1250 og móðir hennar giftist aftur þýskum greifa. Sagt er að þegar Soffíu var sagt að hún ætti að giftast Valdimar Birgissyni Svíakonungi hafi hún farið í dyngju sína og beðið til Maríu meyjar: „Gefðu að ég verði hamingjusöm með honum og hann með mér.“ Þau giftust 1260. Soffíu er svo lýst að hún hafi verið falleg kona, ör, skapmikil, valdafíkin og orðhvöt. Hún kallaði mága sína „Magnús ketilbæti“ og „Eirík alls-ekki“ (aðrar heimildir segja þó að Eiríkur hafi gefið sjálfum sér það viðurnefni). Hún var líka þekkt fyrir áhuga á skák.

Yngri systir hennar, Jutta, hafði verið í klaustri í Danmörku en yfirgaf það 1272 og fór til systur sinnar í Svíþjóð. Ári síðar eignaðist hún barn með Valdimar mági sínum. „Vei mér ... Vei því að systir mín skyldi nokkurn tíma líta Svíþjóð augum,“ er haft eftir Soffíu. Jutta var aftur send í klaustur og Valdimar látinn fara í pílagrímsferð til Rómar í yfirbótarskyni. Það dugði ekki til og árið 1275 var Valdimar steypt af stóli og Magnús bróðir hans tók við ríkjum. Soffía fór til Danmerkur 1277 og hafði þá gefist upp á framhjáhöldum og frillulifnaði manns síns.

Á meðal barna þeirra voru Ingibjörg, fyrri kona Geirharðs blinda greifa af Holtsetalandi og Ríkissa, kona Przemysl 2., konungs Póllands.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]