Jutta af Saxlandi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Jutta eða Júdit af Saxlandi var drottning Danmerkur frá 1242 til 1250, en þá var maður hennar, Eiríkur plógpeningur, myrtur. Síðar var hún greifafrú í Þýskalandi.

Jutta var dóttir Alberts 1., hertoga af Saxlandi og fyrstu konu hans, Agnesar dóttur Leópolds 6. af Austurríki. Hún giftist Eiríki, elsta syni Valdimars sigursæla Danakonungs, árið 1239 og varð drottning þegar hann tók við ríki eftir föður sinn 1242. Fátt er vitað um ævi hennar en eftir morð Eiríks giftist hún Burchard 8. greifa af Querfurt-Rosenburg.

Jutta og Eiríkur áttu tvo syni sem dóu ungir og fjórar dætur, Soffíu, sem giftist Valdimar Birgissyni Svíakonungi, Ingibjörgu, sem giftist Magnúsi lagabæti Noregskonungi, og Juttu og Agnesi, sem báðar urðu nunnur og síðar abbadísir í klaustri heilagrar Agnetu í Hróarskeldu.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]