Fara í innihald

Slotið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Slotið í Kaupmannahöfn, mynd frá 1698 eftir Carl Otto.

Slotið í Kaupmannahöfn eða Kaupinhafnarslot var konungshöllin í Kaupmannahöfn frá því Kristófer af Bæjaralandi ákvað að gera borgina að höfuðborg þar til það var rifið 1731 til að rýma fyrir Kristjánsborgarhöll. Slotið var reist á Slotshóminum eða Hallarhólminum þar sem Virki Absalóns hafði áður staðið, en það var brotið niður að undirlagi Hansasambandsins árið 1369 eftir friðarsamninga sem gerðir höfðu verið. Undirstöður Slotsins eru undir aðalálmu Kristjánsborgarhallar, og voru grafnar upp, þegar Kristjánsborg var endurbyggð í byrjun 20. aldar. Rústirnar eru til sýnis fyrir ferðamenn.

Saga Slotsins

[breyta | breyta frumkóða]

Ekki er vitað með vissu hvenær Slotið var byggt, en þess er getið skömmu eftir að gamla virkið var brotið niður. Það varð aðsetur konungs þegar Kristófer af Bayern fluttist til Kaupmannahafnar árið 1443. Þá hófust menn handa við að breyta og bæta við, til þess að fá meira pláss, en Slotið var þó lengi innan við gamla, hringlaga virkisvegginn, sem hafði verið umhverfis virki Absalóns, og var um 50 m í þvermál. Utan við vegginn var síki, eða skurður. Á þessum bletti bjó kóngurinn með fjölskyldu sinni og hirð, en með tímanum bættust við byggingar utan múranna, svo sem varðturn og tollbúð.

Smám saman var Slotinu breytt með viðbyggingum, svalagöngum, turnum og öðru. Kristján 1. lét reisa samkomusal sem kallaður var Riddarasalurinn eða Danssalurinn, en var þó ekki fullgerður fyrr en 1503, af Jóhanni eða Hans Danakonungi. Fyrsta umtalsverða breytingin var gerð í tíð Kristjáns 3., sem lét reisa nokkrar byggingar utan við virkisskurðinn. Þá var reist kirkja á hólminum, stjórnarbyggingar, brú og hafnarmannvirki fyrir flotann.

Þegar Kristján 4. var krýndur 1596, hélt hann upp á það með því að hækka turninn við innganginn og setja á hann spíru. Þessi turn var kallaður Bláturn, og er best þekktur sem fangelsi. Annars var Slotinu ekki breytt mikið á þessu tímabili. Það átti hins vegar frekar við um umhverfi þess, þar sem ráðist var í miklar landfyllingar, hólmarnir tengdir saman og ýmsar byggingar reistar. Frá þeim tíma eru Kristjánshöfn, Kauphöllin eða Börsinn og Týhúsið. Friðrik 3. hélt þessu starfi áfram, og lét reisa hesthús og konunglegt bókasafn.

Kaupinhafnarslot um 1730, eftir endurbyggingu Friðriks 4.

Um 1700 lét Friðrik 4. endurbyggja Slotið. Virkisskurðurinn var fylltur og jafnaður, og nýr grunnur Slotsins, sem hafði verið með ótal skotum og útbyggingum, var lagður í reglulegan fimmhyrning. Síðan voru álmurnar byggðar umhverfis Slotsgarðinn, sem varð við þetta leiðinlega dimmur og skuggsæll. Brátt kom í ljós að undirstöðurnar voru ekki nógu vandaðar, og fóru þær að síga og sprungur að koma í veggina. Eftirmaður Friðriks, Kristján 6., ákvað um 1730 að rífa Slotið til grunna og byggja alveg nýja höll, hina fyrstu Kristjánsborgarhöll.

Heimildir og tenglar

[breyta | breyta frumkóða]