Fara í innihald

Skildinganesskóli

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Skildinganesskóli var íslenskur grunnskóli sem starfræktur var fyrir börn í Skildinganesi frá árinu 1930 og taldist sjálfstæð skólastofnun frá 1936. Telja má að skólinn sé forveri Melaskóla og var lagður niður við stofnun hans.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Skildinganesþorp tók að byggjast upp árið 1927 eftir að athafnamaðurinn Eggert Claessen hóf að selja þar lóðir. Á næstu tólf árum voru reist 116 hús og íbúafjöldinn rauk upp í samræmi við það. Skildinganes tilheyrði Seltjarnarneshreppi og skyldu börn þar því sækja Mýrarhúsaskóla. Ekki hugnaðist foreldrum í Skildinganesi að senda börn sín svo langa leið og lét hreppsnefndin loks til leiðast og stofnaði útibú í Skildinganesi. Var það fyrst rekið í húsinu Reynifelli við Reykjavíkurveg en síðar í húsi við Baugsveg.

Í ársbyrjun 1932 tóku gildi lög sem færðu jarðirnar Skildinganes og Þormóðsstaði frá Seltjarnarneshreppi og undir lögsögu Reykjavíkurbæjar. Þar með varð Skildinganesskólinn að útibúi frá Miðbæjarskólanum. Þá þegar hófst barátta foreldra í hverfinu fyrir því að reist væri sérstakt skólahús fyrir starfsemina. Munur var jafnframt á aðbúnaði barnanna í Skilidinganesskólanum og Miðbæjarskólanum þar sem þau síðarnefndu nutu matargjafa.

Árið 1936 lagði skólanefnd Miðbæjarskóla til að skólahverfi hans yrði skipt upp á þann hátt að Skildinganes og Grímsstaðaholt mynduðu sérstakt skólahverfi. Þrátt fyrir nokkra andstöðu bæjaryfirvalda féllst Menntamálaráðuneytið á þessa ósk. Tók Skildinganesskóli til starfa þá um haustið með sinn fyrsta skólastjóra, Arngrím Kristjánsson. Töldust nemendur um þær mundir 140.

Mikil þrengsli einkenndu starfið þessi misserin og var kennt í leiguhúsnæði hér og þar í hverfinu. Á sama tíma fjölgaði nemendum hratt með aukinni byggð. Árið 1940 var skólinn færður í bráðabirgðahúsnæði á Grímsstaðaholti í eigu Reykjavíkurbæjar sem stóð við Smyrilsveg og var í daglegu tali nefnt Grimsby eða Grímsbýr af bæjarbúum. Tveimur árum síðar var skólinn allur fluttur upp á holtið. Húsakynnin voru með öllu óviðunandi fyrir skólastarf og fól bæjarstjórnin árið 1942 bæjarverkfræðingi og húsameistara bæjarins að gera tillögu um staðsetningu og útlit nýs barnaskóla fyrir hverfið. Í byrjun október 1946 tók Melaskóli til starfa og varð Arngrímur Kristjánsson skólastjóri hans. Um leið var Skildinganesskólinn lagður niður.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Melaskóli 60 ára, Reykjavík, Skrudda, 2006