Fara í innihald

Simeon Sachsen-Coburg-Gotha

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Simeon Sachsen-Coburg-Gotha
Símon 2.
Sachsen-Coburg-Gotha árið 2017.
Forsætisráðherra Búlgaríu
Í embætti
24. júlí 2001 – 17. ágúst 2005
ForsetiPetar Stojanov
Georgí Parvanov
ForveriÍvan Kostov
EftirmaðurSergej Stanísjev
Símons 2. Búlgaríukeisara
Keisari Búlgaríu
Í embætti
28. ágúst 1943 – 15. september 1946
ForveriBoris 3.
EftirmaðurEmbætti lagt niður
Persónulegar upplýsingar
Fæddur16. júní 1937 (1937-06-16) (87 ára)
Sófíu, Búlgaríu
ÞjóðerniBúlgarskur
StjórnmálaflokkurÞjóðarhreyfingin Simeon 2. (NDSV)
MakiMargarita Gómez-Acebo y Cejuela (g. 1962)
Börn5
ForeldrarBoris 3. Búlgaríukeisari og Jóhanna af Ítalíu
HáskóliValley Forge Military Academy and College
StarfStjórnmálamaður
Undirskrift

Simeon Borisov von Sachsen-Coburg-Gotha (Simeon Borisov Sakskoburggotski á búlgörsku; f. 16. júní 1937) er búlgarskur stjórnmálamaður og aðalsmaður. Frá 1943 til 1946 ríkti hann barnungur undir nafninu Símon 2. sem síðasti keisari (zar) Búlgaríu. Keisaradæmið var lagt niður eftir þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1946 og Búlgaría varð kommúnískt alþýðulýðveldi. Símon ólst því upp í útlegð frá heimalandinu en sneri heim til Búlgaríu árið 1996 og hóf stjórnmálaferil. Hann var kjörinn forsætisráðherra Búlgaríu árið 2001 og gegndi því embætti í fjögur ár. Á þeim tíma gekk Búlgaría í Atlantshafsbandalagið og grunnur var lagður að inngöngu þess í Evrópusambandið árið 2007.

Simeon er eini eftirlifandi einstaklingurinn sem hefur borið titilinn zar. Hann er jafnframt annar tveggja eftirlifandi þjóðarleiðtoga frá árum seinni heimsstyrjaldarinnar (ásamt Tenzin Gyatso, 14. Dalai Lama) og annar tveggja fyrrum konunga sem hafa seinna komist til valda sem leiðtogar lýðræðislega kjörinnar ríkisstjórnar (ásamt Norodom Sihanouk frá Kambódíu).

Símon fæddist þann 16. júní árið 1937 í Sófíu, höfuðborg Búlgaríu, og var sonur Borisar 3. Búlgaríukeisara og Jóhönnu keisaradrottningar. Árið 1943 fór Boris, sem hafði tekið afstöðu með Öxulveldunum í seinni heimsstyrjöldinni, á fund Adolfs Hitler í Þýskalandi en veiktist þar og var fluttur heim til Búlgaríu, þar sem hann lést þann 28. ágúst. Dauði Borisar þótti dularfullur og marga grunaði að Hitler hefði látið eitra fyrir honum fyrir að neita að lýsa Sovétríkjunum stríð á hendur.[1] Símon varð því keisari aðeins sex ára gamall, en þar sem hann var ólögráða fór ráð ríkisstjóra undir stjórn frænda hans, Kýrils prins, með eiginleg völd í hans nafni.[2]

Eftir ósigur Öxulveldanna í styrjöldinni tóku kommúnistar völdin í Búlgaríu, lögðu niður keisaradæmið og stofnuðu lýðveldi. Kýrill var tekinn af lífi en Jóhanna ekkjudrottning flúði land með Símon og systur hans, Maríu Lovísu. Fjölskyldan hélt fyrst í útlegð til Egyptalands, þar sem hún fékk hæli hjá Farúk konungi.[2] Hún fluttist síðar til Madríd á Spáni, þar sem hún hlaut hæli hjá stjórn Francos.[1] Fjölskyldan var fyrst um sinn fjárhagslega bágstödd en hagur þeirra vænkaðist nokkuð eftir að hún hlaut líftryggingu fyrir móðurafa Símons, fyrrum Ítalíukonunginn Viktor Emmanúel 3., sem lést árið 1947.[2]

Á Spáni hóf Símon feril sem athafnamaður og efnaðist ágætlega. Hann rak auk þess ráðgjafarskrifstofu fyrir Búlgara sem höfðu hrakist í útlegð frá heimalandinu og stýrði ráðstefnum búlgarskra útlaga sem viðurkenndu hann enn sem keisara. Árið 1962 kvæntist hann Margaritu Gómez-Acebo y Cejuela, sem var af spænskum aðalsættum. Hjónin eignuðust fimm börn: Kardam, Kýril, Kúbrat, Konstantínus og Kalínu.[1]

Einræði kommúnista í Búlgaríu leið undir lok árið 1990. Sex árum síðar sneri Símon aftur til heimalandsins og hóf beina þátttöku í búlgörskum stjórnmálum (undir borgaralegu nafni sínu, Simeon Sachsen-Coburg-Gotha). Í fyrstu hugðist hann bjóða sig fram til forseta en mátti það ekki þar sem hann hafði ekki búið nógu lengi í Búlgaríu til að uppfylla kjörgengisskilyrði. Þess í stað stofnaði hann nýjan stjórnmálaflokk, Þjóðarhreyfinguna Símon 2., sem bauð fram á búlgarska þingið í fyrsta skipti árið 2001. Í aðdraganda kosninganna lagði Sachsen-Coburg-Gotha áherslu á markaðsumbætur, baráttu gegn spillingu og að Búlgaría gerðist aðili bæði að Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu. Þjóðarhreyfingin vann stórsigur í kosningunum með um 43 prósentum greiddra atkvæða og fékk 117 sæti á búlgarska þinginu.[3]

Sachsen-Coburg-Gotha tók við völdum sem forsætisráðherra Búlgaríu þann 24. júlí 2001. Búlgarar bundu miklar vonir við fyrrum keisarann, sem lofaði því að þjóðin myndi njóta ávaxtar af stjórn hans á 800 dögum eftir embættistöku hans.[4] Stjórnin þótti hins vegar ekki uppfylla fyrirheit sín á þeim tíma og vinsældir Sachsen-Coburg-Gotha skruppu verulega saman á næstu tveimur árum. Áframhaldandi hátt atvinnuleysishlutfall og lágar meðaltekjur urðu honum ekki til vinsælda og einnig var það umdeilt að á stjórnartíð hans ákváðu búlgörsk stjórnvöld að greiða Símoni og systur hans bætur upp á um 14 milljarða íslenskra króna fyrir eignir keisarafjölskyldunnar sem höfðu verið þjóðnýttar á kommúnistatímanum.[5]

Búlgaría gekk í Atlantshafsbandalagið á stjórnartíð Símons. Í þingkosningum árið 2005 lenti Þjóðarhreyfingin í öðru sæti og gekk í stjórnarsamstarf ásamt búlgarska Sósíalistaflokknum. Í kosningum árið 2009 hlaut flokkurinn aðeins 3,01% atkvæða og vann engin þingsæti. Þetta leiddi til þess að Sachsen-Coburg-Gotha sagði af sér sem flokksleiðtogi og hætti afskiptum af stjórnmálum.[6]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 „Í útlegð en lifir þó í voninni“. Heimilistíminn. 10. ágúst. bls. 7.
  2. 2,0 2,1 2,2 „Gleymdur konungur kemur fram á sjónarsviðið“. Sunnudagsblaðið. 16. mars 1958. bls. 148-150.
  3. „Stórsigur flokks fyrrverandi konungs“. Morgunblaðið. 19. júní 2001. bls. 23.
  4. Lilov, Grigor (2013). Най-богатите българи (1. útgáfa). Sofia: "Кайлас" ЕООД. bls. 93. ISBN 978-954-92098-9-1.
  5. „Konunglegt loforð rennur út í Búlgaríu“. Morgunblaðið. 8. október 2003. bls. 17.
  6. „Симеон Сакскобургготски подаде оставка“ (búlgarska). Труд. 6. júlí 2009. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. júlí 2009. Sótt 29. júní 2020.


Fyrirrennari:
Boris 3.
Keisari Búlgaríu
(28. ágúst 194315. september 1946)
Eftirmaður:
Embætti lagt niður
Fyrirrennari:
Ívan Kostov
Forsætisráðherra Búlgaríu
(24. júlí 200117. ágúst 2005)
Eftirmaður:
Sergej Stanísjev