Fara í innihald

Silfrastaðir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Silfrastaðir og Silfrastaðakirkja.
Silfrastaðir í kringum 1900.

Silfrastaðir er bær og kirkjustaður í mynni Norðurárdals í Skagafirði.[1]

Land jarðarinnar er mjög víðáttumikið, nær frá Bóluá í Blönduhlíð fram að Kotá í Norðurárdal, og er mestur hluti þess fjalllendi, Silfrastaðafjall. Það hefur nú að mestu verið skipulagt sem skógræktarland. Áður tilheyrði öll Silfrastaðaafrétt jörðinni en hún var seld sveitarfélaginu 1896 ásamt hjáleigunum Hálfdanartungum og Krókárgerði í Norðurárdal, sem komnar voru í eyði og hafa ekki byggst aftur. Skilarétt hreppsins, Silfrastaðarétt, er á eyrinni fyrir neðan bæinn.[2]

Torfkirkja sem áður var á Silfrastöðum, byggð 1842, er nú í Árbæjarsafni í Reykjavík. Kirkjan sem þar er núna er áttstrend að lögun, byggð árið 1896 (vígð 12. júlí).[3]

Inni í Norðurárdal, skammt frá brúnni yfir Norðurá, gengur höfði fram á eyrarnar sem heitir Skeljungshöfði og á honum er allstór steinn sem kallast Skeljungssteinn. Í gegnum hann eru tvö göt og segir þjóðsagan að draugurinn Skeljungur hafi verið bundinn við steininn en þetta munu reyndar vera för eftir trjáboli sem hraun hefur runnið yfir. Steinninn er friðaður. Bólu-Hjálmar skráði þjóðsöguna um Skeljung og Grím Skeljungsbana. Í Sturlungu er talað um að Eyjólfur ofsi Þorsteinsson og menn hans hafi komið við í Skeljungsskála á leið sinni til Flugumýrarbrennu og er ekki ólíklegt að þar hafi þá verið bær.[4]

  1. „Silfrastaðakirkja - NAT ferðavísir“. 19. júlí 2020. Sótt 16. september 2024.
  2. „ÚRSKURÐUR ÓBYGGÐANEFNDAR“ (PDF). júní 2009.
  3. „Silfrastaðakirkja“. web.archive.org. 6. mars 2016. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. mars 2016. Sótt 16. september 2024.
  4. Guðmundur St. Sigurðarson; Bryndís Zoëga (2008). „Fornleifaskráning í Akrahreppi Silfrastaði“ (PDF). Byggðasafn Skagfirðinga.