Sigurður B. Sívertsen
Sigurður B. Sívertsen (f. 2. nóvember 1808 í Seli í Reykjavík, d. 24. maí 1887 á Útskálum í Garði) var prestur á Útskálum.
Hann var sonur hjónanna Brynjólfs Sívertsens (Sigurðssonar) prests á Útskálum (áður dómkirkjuprests í Reykjavík og prests í Holti undir Eyjafjöllum) og Steinunnar Helgadóttur konu hans. Sigurður var vígður aðstoðarprestur föður síns með konungsundanþágu vegna aldurs þann 18. september 1831. Hann bjó á Gufuskálum í Leiru 1833 en tók við Útskálum af föður sínum 1. mars 1837 og var prestur þar til ársins 1886, þá orðinn blindur. Kona hans var Helga Helgadóttir (1809 - 1882) og komust 3 barna þeirra upp. Hálfbróðir Sigurðar var Helgi G. Thordersen biskup, en þeir voru sammæðra.
Séra Sigurður var mikill og góður búmaður og hlaut verðlaun bæði frá Búnaðarfélagi Suðuramts og frá danska landbúnaðarfélaginu. Hann var forgöngumaður um stofnun barnaskóla í Garði, sem hefur starfað þar óslitið frá árinu 1872. Hann varð riddari af Dannebrog árið 1874. Sigurður var ötull og vel metinn og góður kennimaður. Hann stundaði ritstörf alla tíð á meðan hann hélt sjón og eftir að hann varð blindur lét hann skrifa fyrir sig. Eftir hann liggja æviminningar, greinar í blöðum, Suðurnesjaannáll og Bæjaannáll í Útskálaprestakalli auk fleiri rita sem ekki hafa verið gefin út.