Sigrún Júlíusdóttir
Sigrún Júlíusdóttir | |
---|---|
Störf | Prófessor emeritus í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og rekur meðferðarþjónustuna Tengsl |
Sigrún Júlíusdóttir er fyrrum prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og rekur meðferðarþjónustuna Tengsl[1] sem veitir sérhæfða hjóna-og fjölskyldumeðferð. .
Náms- og starfsferill
[breyta | breyta frumkóða]Sigrún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1965, Socionomexamen (félagsráðgjafarpróf) frá háskólanum í Lundi árið 1970, fil. kand. prófi í félagsfræði frá félagsvísindadeild Háskólans í Stokkhólmi 1972 og meistaraprófi í klínískri félagsráðgjöf 1978 frá University of Michigan, USA. Hún lauk námi í handleiðslu á vegum geðdeildar Landspítalans og Institut i familjeterapi í Gautaborg 1985 og hlaut löggilt meðferðarréttindi 1989 frá Socialstyrelsen í Svíþjóð að loknu námi við sálfræðideild Gautaborgarháskóla. Þá lauk hún doktorsprófi í fjölskyldurannsóknum frá Félagsráðgjafardeild Háskólans í Gautaborg 1993.
Sigrún var yfirfélagsráðgjafi Geðdeildar Landspítalans 1976-1990[2] og árið 1982 stofnaði hún ásamt fleirum meðferðarþjónustuna Tengsl.[3] Hún var lektor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands frá 1991, dósent 1994 og prófessor frá 1999 þar til hún fór á eftirlaun árið 2014. Hún vinnur nú að rannsóknum og leiðsögn meistaranema við Háskóla Íslands.[2]
Rannsóknir
[breyta | breyta frumkóða]Helstu rannsóknarsvið Sigrúnar[4] varða fjölskylduþróun og náin samskipti, barna- og fjölskylduvernd og rannsóknir og fagþróun í félagsráðgjöf ásamt faghandleiðslu.[5] Sigrún hefur meðal annars kannað þætti er varða seiglu og starfhæfni í parsambandi; foreldrafærni, verndandi og ógnandi þætti í uppeldisskilyrðum barna; stöðu barna sem aðstandenda við áfall, skilnað eða andlát foreldris.[6]
Sigrún hefur skrifað fjölmargar skýrslur, greinar og bókarkafla, bæði í íslenskum ritum og erlendum. Auk greina í fræðiritum hefur hún tekið þátt í umræðu samfélagsins og miðlað þekkingu til almennings, bæði með greinaskrifum í blöðum og tímaritum og einnig með þátttöku í ljósvakamiðlun.[5]
Ýmis störf og verkefni
[breyta | breyta frumkóða]Sigrún hefur gegnt ýmsum nefndar- og þróunarstörfum á vegum Háskóla Íslands og ráðuneyta og á Norðurlöndunum. Hún var m.a.formaður stjórnar Rannsóknastofnunar í barna- og fjölskylduvernd (RBF); fastafulltrúi háskólaráðs í dómnefnd á sviði félagsvísinda; fulltrúi í starfshópi rektors um fjölskyldumálefni stúdenta; og í starfshópi um málefni/starfslok prófessora við HÍ.[2]
Sigrún var í stjórn Nordic Campbell Center við Dansk Socialforskingsinstitut í Danmörku, 2002-´08 (Norræn miðstöð um mat og þróun rannsókna á félags- og menntavísindasviði, og systursamtök við International Campbell Collaboration). Árið 2000 hafði hún umsjón með menningarverkefni Háskóla Íslands, Borgarfjölskyldan þar sem fjallað var um líf borgarfjölskyldunnar frá ýmsum sjónarhornum.[7] Þá var hún skipuð af forsætisráðherra í nefnd um starfsemi vistheimila (2007-´12) samkvæmt lögum nr. 26/2007 („Breiðavíkurnefnd“).
Sigrún kom að stofnun félagsráðgjafarnáms við Háskóla Íslands 1980, og síðan að skipan og þróun meistara- og doktorsnáms ásamt því að móta nýjar þverfaglegar diplómanámsleiðir (m.a. kynfræði, handleiðslufræði). Hún beitti sér sér fyrir tilurð Rannsóknarstofnunar í barna- og fjölskylduvernd, RBF við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands ásamt útgáfu ritraðar RBF sem hún ritstýrir.[6]
Sigrún var ritstjóri Tímarits félagsráðgjafa 2010-2015.[6][8]
Árið 2012 stofnaði Sigrún rannsóknasjóð í félagsráðgjöf. Markmið sjóðsins er að efla og styrkja rannsóknir í félagsráðgjöf á sviði barna- og fjölskyldumálefna ásamt því að efla doktorsnám og sérfræðiþekkingu í félagsráðgjöf. Frá árinu 2016 heitir sjóðurinn Sigrúnarsjóður og heyrir undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands.[9]
Viðurkenningar
[breyta | breyta frumkóða]- Sigrún hlaut Fálkaorðuna 2003 fyrir fræðistörf á sviði félagsvísinda.[10]
- Heiðursstyrkur Vísindasjóðs Félagsráðgjafarfélags Íslands 2009.[11]
- Viðurkenning Sambands norrænna félagsráðgjafarskóla 2011.
Helstu ritverk
[breyta | breyta frumkóða]- Hremmingar: Viðtöl um nauðgun. Reykjavík: Mál og menning. 1988. (Nauðgun Geymt 23 ágúst 2019 í Wayback Machine. Endurskoðuð útgáfa, Háskólaútgáfan og RBF 2011) .
- Den kapabla familjen i det isländska samhället. En studie om lojalitet, äktenskapsdynamik och psykosocial anpassning. [Doktorsritgerð]. Göteborgs Universitet og Félagsvísindastofnun HÍ. 1993.
- Áfram foreldrar: Rannsókn um sameiginlega forsjá og velferð barna við skilnað foreldra Geymt 23 ágúst 2019 í Wayback Machine. Ásamt Nönnu K. Sigurðardóttur. Reykjavík: Háskólaútgáfan 2000.
- Fjölskyldur við aldahvörf: Náin tengsl og uppeldisskilyrði barna Geymt 23 ágúst 2019 í Wayback Machine. Reykjavík: Háskólaútgáfan 2001.
- Heilbrigði og heildarsýn Geymt 23 ágúst 2019 í Wayback Machine. Ritstjóri ásamt Halldóri Sig. Guðmundssyni. Reykjavík: Háskólaútgáfan/RBF 2006.
- Eftir skilnað: Um foreldrasamstarf og kynslóðasamskipti Geymt 23 ágúst 2019 í Wayback Machine. Ásamt Sólveigu Sigurðardóttur. Reykjavík: Háskólaútgáfan/RBF 2013.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Tengsl. Einstaklings-, hjóna- og fjölskyldumeðferð. Sótt 31. ágúst 2019.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 „Háskóli Íslands. Sigrún Júlíusdóttir. Prófessor emeritus. Ferilskrá“. Sótt 23. ágúst 2019.
- ↑ Félagsráðgjafafélag Íslands. Stofur félagsráðgjafa. Einkareknar meðferða- og ráðgjafastofur á vegum félagsráðgjafa.
- ↑ http://uni.hi.is/sigjul/ Geymt 23 ágúst 2019 í Wayback Machine [Dr. Sigrún Júlíusdóttir]. Sótt 31. ágúst 2019.
- ↑ 5,0 5,1 „Háskóli Íslands. Sigrún Júlíusdóttir. Prófessor emeritus. Ritaskrá“. Sótt 23. ágúst 2019.
- ↑ 6,0 6,1 6,2 „Vísindsvefurinn. (2018). Hvaða rannsóknir hefur Sigrún Júlíusdóttir stundað?“. Sótt 23. ágúst 2019.
- ↑ Mbl.is. (2000, 27. maí). Barnasmiðja opin í Odda. Borgarfjölskyldan í brennidepli í opnum háskóla.
- ↑ Félagsráðgjafafélag Íslands. Tímarit félagsráðgjafa. Sótt 31. ágúst 2019.
- ↑ Háskóli Íslands. Sigrúnarsjóður. Sótt 31. ágúst 2019.
- ↑ Forseti Íslands.Orðuhafaskrá Geymt 26 ágúst 2019 í Wayback Machine.
- ↑ Sveindís A. Jóhannsdóttir. (2010). Um Vísindasjóð: Rannsóknir og þróunarstörf eru mikilvæg[óvirkur tengill]. Tímarit Félagsráðgjafa, 1(4): 56.