Fara í innihald

Sigrún Aðalbjarnardóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sigrún Aðalbjarnardóttir
StörfPrófessor emerítus við Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Sigrún Aðalbjarnardóttir er prófessor emerítus við Menntavísindasvið Háskóla Íslands (frá 1. ágúst 2019). Rannsóknir hennar beinast að margvíslegum þroska barna og ungmenna, líðan þeirra, námsgengi og áhættuhegðun. Jafnframt beinast þær að því hvernig hlúa megi að þroska og velferð barna og ungmenna heima og heiman.[1]

Sigrún lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1969 og stúdentsprófi frá sama skóla ári síðar. Hún lauk BA-prófi í uppeldisfræði frá Háskóla Íslands 1983 og bæði meistaraprófi 1984 og doktorsprófi 1988 frá Harvard University í Bandaríkjunum, Graduate School of Education í deildinni Human Development and Psychology.[2][3]

Árin 1970-1976 var Sigrún grunnskólakennari við Breiðholtsskóla í Reykjavík og árið 1976 -1977 við Hamarsskóla í Vestmannaeyjum. Hún var námskrár- og námsefnishöfundur í samfélagsfræðum á vegum menntamálaráðuneytisins, skólarannsóknardeildar árin 1973-1983.[4] Sigrún varð lektor í uppeldisfræði 1989 við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands[5] og dósent sama ár.[6] Hún hefur verið prófessor í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands frá 1. janúar 1994.[7]

Sigrún hefur verið gistivísindamaður mörg misseri við Harvard University, Graduate School of Education og Fulbright gistivísindamaður þar í eitt ár. Þá hefur hún verið gestaprófessor við University of Fribourg, Sviss.[8]

Kennsla Sigrúnar hefur aðallega verið á sviði þroskasálfræði, áhættuhegðunar og seiglu ungs fólks auk borgaravitundar þess í lýðræðisþjóðfélagi.[9] Hún hefur jafnframt verið leiðbeinandi í fjölmörgum lokaverkefnum nemenda á háskólastigi í grunnnámi, framhaldsnámi og doktorsnámi og átt sæti í doktorsnefndum.[10]

Rannsóknir

[breyta | breyta frumkóða]

Rannsóknir Sigrúnar spanna vítt svið innan uppeldis- og menntunarfræði og þroskasálfræði.[11] Þær miða að því að auka þekkingu og skilning á þroska og velferð barna og ungmenna og hvernig megi styrkja þau bæði heima fyrir og í skóla- og frístundastarfi. Rannsóknir hennar hafa einkum skipst í fjóra þætti sem skarast.

Fyrstu rannsóknir Sigrúnar beindust að félagsþroska og samskiptahæfni grunnskólabarna og hvernig sú hæfni þróast með aldri (grunnrannsókn). Í framhaldi kannaði hún hvort í skólastarfi mætti efla félagsþroska og samskiptahæfni nemenda með markvissu starfi kennara (hagnýt rannsókn). Þetta skólaþróunarverkefni: Hlúð að félags- og tilfinningaþroska nemenda fólst í námskeiðahaldi á ársgrundvelli fyrir kennara, námsefnisgerð fyrir nemendur og kennara[12] og mati á starfinu.

Annað rannsóknarverkefni Sigrúnar „Uppeldis- og menntasýn kennara og skólastjórnenda“ spratt upp úr skólaþróunarverkefninu. Í því skyni að efla kennara í starfi skoðaði hún starfsþróun kennaranna sem tóku þátt í verkefninu og ígrunduðu starf sitt markvisst. Með lífssögunálgun dró hún fram sýn þeirra á uppeldi og menntun og beindi athyglinni að gildum þeirra, markmiðum og kennsluaðferðum. Í bókinni Virðing og umhyggja – Ákall 21. aldar[13] greinir Sigrún frá þessum rannsóknum og skólaþróunarverkefnum sem hafa staðið um árabil.

Áhugi á velferð barna og ungmenna leiddi Sigrúnu að þriðja rannsóknarverkefninu sem gengur undir heitinu: Samskipti, áhættuhegðun og styrkleikar ungs fólks: Langtímarannsókn. Þar beinir hún athyglinni m.a. að því hvernig uppeldisaðferðir foreldra á fyrri hluta unglingsára (14 ára) tengjast ýmsum sviðum þroska þeirra, líðan og hegðun fram á þrítugsaldur (22 ára). Um er að ræða samskiptahæfni þeirra, sjálfstraust, trú á eigin sjálfstjórn og líðan (kvíði, depurð). Einnig námsgengi unga fólksins (námsárangur, brotthvarfi frá námi) og áhættuhegðun, einkum vímuefnaneysla þess.[14][15]

Sigrún hefur einnig með lífssögulegri nálgun dregið fram raddir ungmennanna í langtímarannsókninni um samskipti þeirra við þá sem þeim eru nákomnir (foreldrar, vinir, sambúðarfólk) og um viðhorf þeirra til eigin vímuefnaneyslu og annarra frá því að þau voru unglingar þar til þau eru komin á fertugsaldur. Jafnframt hefur hún dregið fram uppeldissýn unga fólksins og samskipti við börn sín þegar þau eru orðin foreldrar og komin á fertugsaldur. Í bókinni: Lífssögur ungs fólks – Samskipti, áhættuhegðun, styrkleikar[16] greinir Sigrún frá niðurstöðum langtímarannsóknarinnar.[17]

Í fjórða rannsóknarverkefninu sem Sigrún stendur að: Borgaravitund ungs fólks í lýðræðisþjóðfélagi er viðfangsefnið að afla þekkingar og skilnings á borgaravitund ungs fólks í grunn- og framhaldsskóla. Þar er unga fólkinu gefin rödd með því m.a. að leita eftir hugmyndum þess um lýðræði, viðhorfi til mannréttinda, einkum kvenna og innflytjenda og þeim áhrifum sem unga fólkið vill hafa í samfélaginu.[18][19]

Auk bóka hefur Sigrún birt niðurstöður þessara viðamiklu rannsókna í fjölmörgum ritstýrðum innlendum og virtum erlendum vísindatímaritum; einnig í ritum fyrir fagfólk á vettvangi.[20] Hún hefur flutt fyrirlestra um rannsóknir sínar á fjölda innlendra og alþjóðlegra ráðstefna og í boðsfyrirlestrum við erlendar háskólastofnanir.[21]

Sigrún hefur staðið að þessum rannsóknum með samstarfsfólki sínu hér á landi á rannsóknastofunni Lífshættir barna og ungmenna.[22] Einnig með fræðimönnum bæði við Harvard University, Graduate School of Education (HGSE)[23] og í evrópska netsamvinnunetverkefninu: Children's Identity and Citizenship in Europe (CiCe).[24]

Ýmis störf og verkefni

[breyta | breyta frumkóða]

Sigrún hefur gengt ýmsum trúnaðarstörfum innan Háskóla Íslands og utan. Hún hefur m.a. verið formaður vísindanefndar háskólaráðs og formaður vísindanefndar ríkisháskóla.[25] Á vegum Félagsvísindadeildar gegndi hún ýmsum trúnaðarstörfum. Hún sat m.a. í stjórn Félagsvísindastofnunar og var formaður vísindanefndar deildarinnar.[8]

Á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins sat Sigrún í nefnd um frumvarp um opinberan stuðning við vísindarannsóknir. Einnig sat hún í stjórn Rannsóknasjóðs Íslands (Rannís) og þegar Vísinda- og tækniráð Íslands var sett á fót var hún varamaður í ráðinu og í vísindanefnd þess.[8] Einnig sat hún í starfshópi á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins um grunnþætti í menntun þar sem áhersla var lögð á lýðræði og mannréttindi.[26]

Sigrún hefur ásamt samstarfsfólki sínu staðið að uppbyggingu náms í uppeldis- og menntunarfræði, m.a. að fjölbreyttu framhaldsnámi, bæði innan Félagsvísindadeildar og síðar við Menntavísindasvið.[27] Þá hefur hún verið starfað ötullega að símenntun starfandi kennara og haldið fjölmörg námskeið í því skyni.

Viðurkenningar

[breyta | breyta frumkóða]

Sigrún hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir vísindastörf sín, meðal annars frá Háskóla Íslands fyrir „lofsvert framlag til rannsókna” árið 2004.[28] Einnig fyrir „vel unnin fræðistörf og gagnlegar rannsóknir í þágu foreldra og barna” árið 2005 frá „Saman hópnum“, sem eru samtök fjölmargra aðila, félaga og stofnana sem vinna að velferð barna og ungmenna.[29] Þá hlaut hún „Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu uppeldisvísinda og menntunar“ árið 2012.[30]

Foreldrar Sigrúnar eru Guðrún Benediktsdóttir kennari og bóndi og Aðalbjörn Benediktsson héraðsráðunautur og bóndi. Sigrún er gift Þórólfi Ólafssyni tannlækni. Þau eiga tvo syni Aðalbjörn og Þórólf Rúnar og þrjú barnabörn.[31]

Nokkur helstu ritverk

[breyta | breyta frumkóða]
  • Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2019). Lífssögur ungs fólks – Samskipti, áhættuhegðun, styrkleikar. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
  • Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2007). Virðing og umhyggja – Ákall 21. aldar Geymt 20 september 2019 í Wayback Machine. Reykjavík: Heimskringla, Háskólaforlag Máls og menningar.
  • Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2011). Borgaravitund ungs fólks í lýðræðisþjóðfélagi. Reykjavík: Rannsóknasetrið Lífshættir barna og ungmenna - Félagsvísindastofnun og Menntavísindastofnun Háskóla Íslands.
  • Sigrún Aðalbjarnardóttir, Andrea G. Dorfadóttir, Þórólfur R. Þórólfsson og Kristín L. Garðarsdóttir. (2003). Vímuefnaneysla og viðhorf – Ungu fólki í Reykjavík fylgt eftir frá 14 ára til 22 ára aldurs. Reykjavík: Félagsvísindastofnun og Háskólaútgáfan.

Bókakaflar

[breyta | breyta frumkóða]
  • Adalbjarnardottir, S. & Hardardóttir, E. (2018). Students‘ attitudes towards immigrants rights: The role of democratic classroom discussions. In H. Hanna Ragnarsdóttir & S. C. Lefever (Eds.), Iceland studies on diversity and social justice in education (pp. 130-155). UK: Cambridge Scholars Publishing.
  • Sigrún Aðalbjarnardóttir (2016). Seigla ungmenna – Þróun og staða þekkingar. Í Guðrún Kristjánsdóttir, Sigrún Aðalbjarnardóttir og Sóley S. Bender (ritstj.), Ungt fólk – Tekist á við tilveruna (bls. 161-184). Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.
  • Ragný Þóra Guðjohnsen og Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2016). Uppeldisaðferðir foreldra og viðhorf ungmenna til virkrar borgaralegrar þátttöku fólks. Í Guðrún Kristjánsdóttir, Sigrún Aðalbjarnardóttir og Sóley S. Bender (ritstj.), Ungt fólk – Tekist á við tilveruna (bls. 265-286). Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.
  • Ross, A., Issa, T, Philippou, S., & Aðalbjarnardóttir, S. (2012). Moving borders, crossing boundaries: young people’s identities in a time of change 3: Constructing identities in European islands: Cyprus and Iceland. In P. Cunningham (Ed.), Creating communities: Local, national, and global (pp. 480-496). London: CiCe publication.
  • Adalbjarnardottir, S. (2010). Passion and purpose: Teacher professional development and student social and civic growth. In T. Lovat, R. Toomey, & N. Clement, (Eds.), International research handbook on values education and student wellbeing (pp. 737-764). New York: Springer.
  • Adalbjarnardottir, S. (2007). Iceland. In J.J. Arnett & R. Silbereisen (Eds.), Routledge International Encyclopedia of Adolescence (pp. 425-441). London: Routledge.
  • Selman, R. L., & Adalbjarnardottir, S. (2003). Lessons from Iceland. In R. L. Selman (author), The promotion of social awareness: Powerful lessons from the partnership of developmental theory and classroom practice (pp. 113-169). N.Y.C., N.Y. Russell Sage.
  1. Háskóli Íslands. Sigrún Aðalbjarnardóttir. Prófessor emeritus Geymt 14 ágúst 2020 í Wayback Machine. Sótt 20. september 2019.
  2. Háskóli Íslands. Sigrún Aðalbjarnardóttir. Ferilskrá. Sótt 19. september 2019.
  3. Morgunblaðið. (2002, 18. október). Nám og störf Sigrúnar. Sótt 19. september 2019.
  4. Loftur Guttormsson (ritstj.) (2013). Sögukennsluskammdegið. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
  5. Árbók Háskóla Íslands. Háskólaárið 1988-1989. Breytingar á starfsliði háskólaárið 1988-1989 samkvæmt gerðabókum háskólaráðs (bls. 195). Sótt 19. september 2019.
  6. Árbók Háskóla Íslands. Háskólaárið 1989-1991. Breytingar á starfsliði háskólaárið 1989-1991 samkvæmt gerðabókum háskólaráðs (bls. 135). Sótt 19. september 2019.
  7. Árbók Háskóla Íslands. Háskólaárið 1991-1994. Breytingar á starfshögum kennara háskólaárin 1991-1994 (bls. 166). Sótt 19. september 2019.
  8. 8,0 8,1 8,2 „Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor í uppeldis- og menntunarfræði. Starfsferill“. Sótt 19. september 2019.
  9. Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor í uppeldis- og menntunarfræði. Námskeið. Sótt 19. september 2019.
  10. Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor í uppeldis- og menntunarfræði. Heim. Sótt 19. september 2019.
  11. Google Scholar. Sigrun Adalbjarnardottir. Sótt 19. september 2019.
  12. Menntamálastofnun. Námsefnið Samvera. Sótt 19. september 2019.
  13. Sjá undir: Nokkur helstu ritverk.
  14. Háskóli Íslands. Seigla ungs fólks. Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor í uppeldis- og menntunarfræði. Sótt 19. september 2019.
  15. Mbl.is. (1998, 13. september). Minni vímuefnaneysla með leiðandi uppeldi. Sótt 19. september 2019.
  16. Háskóli Íslands. (2019). Ákall samtíðar og framtíðar. Velferð ungs fólks. Sótt 19. september 2019.
  17. Háskóli Íslands. (2019). Ný bók um samskipti, áhættuhegðun og styrkleika ungs fólks. Sótt 19. september 2019.
  18. Háskóli Íslands. Ungu fólki gefin rödd. Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor við uppeldis- og menntunarfræðideild. Sótt 19. september 2019.
  19. Háskóli Íslands. Ungu fólki umhugað um tækifæri innflytjenda. Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor við uppeldis- og menntunarfræðideild. Sótt 19. september 2019.
  20. Háskóli Íslands. Ritaskrá Sigrúnar Aðalbjarnardóttur. Sótt 19. september 2019.
  21. Háskóli Íslands. Sigrún Aðalbjarnardóttir. Fyrirlestrar. Sótt 19. september, 2019.
  22. Háskóli Íslands. Rannsóknarstofan Lífshættir barna og ungmenna. Lífshættir barna og ungmenna Geymt 20 september 2019 í Wayback Machine. Sótt 19. september 2019.
  23. Sjá dæmi undir: Nokkur helstu ritverk, Selman, R. L. & Adalbjarnardottir, S. (2003).
  24. Sjá dæmi undir: Nokkur helstu ritverk, Ross, A., Issa, T, Philippou, S., & Aðalbjarnardóttir, S. (2012).
  25. Vísindavefurinn. (2018). Hvað hefur vísindamaðurinn Sigrún Aðalbjarnardóttir rannsakað? Sótt 19. september 2019.
  26. Mennta- og menningarmálaráðuneytið. (2010). Grunnþættir í menntun. Sótt 19. september 2019.
  27. Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2015). Uppeldis- og menntunarfræði 40 ára háskólagrein á Íslandi: Framhaldsnám við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Uppeldi og menntun, 24(2), 135- 146.
  28. Háskóli Íslands. Viðurkenningar til starfsmanna. Yfirlit yfir handhafa viðurkenninga – 2004. Sótt 19. september 2019.
  29. Mbl.is. (2005, 8. júní). Fiktið byrjar oft á sumrin. Sótt 19. september 2019.
  30. RÚV. (2012, 1. janúar). Ellefu sæmdir fálkaorðu. Sótt 19. september 2019.
  31. Mbl.is (2002, 8. desember). Uppeldið skiptir miklu máli. Sótt 19. september 2019.