Sigríður Ásdís Snævarr
Sigríður Ásdís Snævarr (f. 23. júní 1952) er íslenskur sendiherra. Sigríður er fyrsta íslenska konan sem skipuð var sendiherra í íslensku utanríkisþjónustunni. Hún var skipuð sendiherra Íslands í Svíþjóð þann 1. febrúar 1991.
Ævi
[breyta | breyta frumkóða]Sigríður er fædd og uppalin í Reykjavík og foreldrar hennar eru Valborg Sigurðardóttir (1922-2012) uppeldisfræðingur og skólastjóri Fósturskóla Íslands og Gunnsteinn Ármann Snævarr (1919-2010) prófessor, háskólarektor og hæstaréttardómari. Sigríður er elst fimm systkina. Eiginmaður hennar er Kjartan Gunnarsson (f. 1951) lögfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins.[1] Þau eiga einn son fæddan árið 2007. Sigríður er talin vera elsta íslenska konan til að ala barn svo vitað sé.[2]
Menntun og starfsferill
[breyta | breyta frumkóða]Sigríður lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1972. Hún lauk diplomanámi í ítölsku frá Università per gli Stranieri í Perugia á Ítalíu og stundaði nám í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands um skeið.[3] Hún lauk B.Sc. Econ prófi frá London School of Economics árið 1977 og hélt þaðan til Bandaríkjanna þaðan sem hún lauk MA-námi í Fletcher School of Law and Diplomacy árið 1978.
Hún var leiðsögumaður erlendra ferðamanna á Íslandi 1970-1977 og íslenskra ferðamanna á Ítalíu 1973 og 1974. Árið 1978 var í fyrsta skipti auglýst eftir embættismönnum til starfa í íslensku utanríkisþjónustunni.[3] Sigríður var meðal umsækjenda og hóf störf í utanríkisþjónustunni sama ár. Hún var fulltrúi í utanríkisþjónustunni frá 1978-1979, sendiráðsritari í Moskvu 1979-1980, fulltrúi í utanríkisráðuneytinu árið 1980, varafastafulltrúi hjá Evrópuráðinu í Strasbourg 1982-1983, blaðafulltrúi utanríkisráðuneytisins árið 1983-1986, sendiráðunautur frá 1984, í sendiráði Íslands í Bonn í Þýskalandi frá 1987 og sendifulltrúi þar frá 1988-1991.[1]
Árið 1991 var Sigríður skipuð sendiherra fyrst íslenskra kvenna. Hún var sendiherra Íslands í Svíþjóð og Finnlandi með aðsetur í sendiráði Íslands í Stokkhólmi frá 1991-1996, prótókollsstjóri utanríkisráðuneytisins og jafnframt sendiherra í Namibíu, Suður-Afríku og Mósambik frá 1996-1999. Frá 1999-2004 var hún sendiherra Íslands í Frakklandi, Spáni, Ítalíu, Portúgal og Andorra og jafnframt fastafulltrúi Íslands hjá OECD í París, FAO í Róm og UNESCO í París, með aðsetur í sendiráði Íslands í París. Hún starfaði í utanríkisráðuneytinu frá 2004-2007 og um skeið frá 2008-2012.[1][4] Frá árinu 2017 hefur Sigríður veitt deild heimasendiherra í utanríkisráðuneytinu forstöðu en auk þess er hún sendiherra Íslands gagnvart Páfagarði, Singapúr og Ástralíu.[5]
Árið 2008 stofnaði Sigríður ásamt Maríu Björk Óskarsdóttur hvatningar- og stuðningsverkefnið Nýttu kraftinn til að aðstoða fólk í atvinnuleit. Þær héldu fjölmörg námskeið og fyrirlestra og gáfu jafnframt út bókina Nýttu kraftinn sem kom út árið 2013.[4]
Sigríður var formaður sendinefndar Íslands á Kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Nairobi í Kenía árið 1985, var ritari nefndar um samskipti Íslands og Vestur-Íslendinga 1983-1986 og í stjórn Listvinafélags Hallgrímskirkju frá 1983-1986. Hún var frumkvöðull að stofnun Félags kvenna í embættisstörfum í Stjórnarráðinu. Hún sat í nefnd um aðkomu ríkisins að skipulagi og fjármögnun ferðaþjónustu árið 2008, var um tíma í stjórn Alliance Francaise og var varaformaður stjórnar Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum frá 2006-2010.[4]
Viðurkenningar
[breyta | breyta frumkóða]Sigríður var sæmd riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1988. Hún hefur hlotið finnsku Ljónsorðuna, þýsku Verdientsorðuna og hina spænsku Orðu Isabellu hinnar kaþólsku.[1] Árið 2019 var hún sæmd þakkarviðurkenningu Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA).[5]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 Pétur Ástvaldsson, Samtíðarmenn J-Ö bls. 797-798, (Reykjavík, 2003)
- ↑ Visir.is, „Fimmtíu og fimm ára gömul íslensk kona ól barn í gærkvöldi“ (skoðað 1. febrúar 2021)
- ↑ 3,0 3,1 Visir.is, „Það var við múrinn sem hugmyndin vaknaði“ (skoðað 1. febrúar 2021)
- ↑ 4,0 4,1 4,2 „Bjartsýn baráttukona“, Morgunblaðið, 23. júní 2012, (skoðað 1. febrúar 2021)
- ↑ 5,0 5,1 Stjornarradid.is, „Sigríður Snævarr sæmd þakkarviðurkenningu FKA“ (skoðað 1. febrúar 2021)