Shireen Abu Akleh
Shireen Abu Akleh شيرين أبو عاقلة | |
---|---|
Fædd | 3. apríl 1971 |
Dáin | 11. maí 2022 (51 árs) |
Dánarorsök | Skotin til bana |
Þjóðerni | Palestínsk og bandarísk |
Menntun | Jarmúk-háskóli |
Þekkt fyrir | Fréttaflutning um deilur Ísraels og Palestínu |
Trú | Kristin |
Shireen Abu Akleh (3. apríl 1971 – 11. maí 2022) var palestínsk-bandarísk blaðakona sem vann í 25 ár hjá fréttastofunni Al Jazeera. Hún var þekkt fyrir fréttaflutning sinn af átökum Ísraela og Palestínumanna á hernámssvæðum Ísraela í Palestínu.
Abu Akleh var skotin til bana þann 11. maí 2022 á meðan hún flutti fréttir af áhlaupi ísraelska hersins á Janin-flóttamannabúðirnar á Vesturbakkanum. Blaðamenn Al Jazeera og Agence France-Presse og heilbrigðisráðuneyti Palestínuríkis sökuðu Ísraelsher um að hafa myrt hana. Sjálfstæðar rannsóknir ýmissa annarra stofnana og fjölmiðla hafa komist að sömu niðurstöðu. Ísraelsk stjórnvöld segja hvort tveggja mögulegt að skotið sem banaði Abu Akleh hafi komið frá ísraelskum eða palestínskum hermönnum.
Dráp Shireen Abu Akleh og eftirmálar
[breyta | breyta frumkóða]Þann 11. maí 2022 var Abu Akleh stödd á hernámssvæði Ísraela í Jenin á Vesturbakkanum við Jórdaná. Hún var þar við fréttastörf og klædd í vesti merktu „press“ þegar byssukúla hæfði hana í andlitið og varð henni að bana. Samstarfsmaður hennar, Ali Samoudi, særðist einnig í árásinni á þau.[1] Ísraelski herinn gaf út að líklega hefðu Abu Akleh og Samoudi lent í skothríð á milli ísraelskra hermanna og palestínskra vígamanna.[2]
Heilbrigðisráðuneyti Palestínuríkis lýsti því yfir að ísraelskir hermenn hefðu drepið Abu Akleh[3] en Naftali Bennett, forsætisráðherra Ísraels, hafnaði því í fyrstu að Ísraelsher hefði orðið henni að bana og sagði líklegra að hún hefði verið drepin af palestínskum skæruliðum.[4] Ísraelar drógu síðar nokkuð í land með þá ásökun og sögðu ekki enn ljóst hvernig Abu Akleh hefði dáið.[5]
Al Jazeera og aðrir miðausturlenskir fjölmiðlar vændu Ísraelsher um að hafa myrt Abu Akleh til að þagga niður í henni. Ísraelsk stjórnvöld buðu heimastjórn Palestínu sameiginlega rannsókn á dauða hennar en Mahmúd Abbas, forseti Palestínu, hafnaði því boði á þeim forsendum að Ísraelar bæru ábyrgð á drápinu og væri því ekki treystandi til að hafa umsjá með rannsókninni. Blaðamenn án landamæra fóru fram á að sjálfstæð rannsókn yrði gerð á drápi Abu Akleh.[5] Ríkisstjórn Bandaríkjanna og öryggisráð Sameinuðu þjóðanna lögðu fram sams konar kröfur. Andlát hennar var ekki rannsakað sem sakamál í Ísrael með vísan til þess að Abu Akleh hefði látist „í virku bardagaástandi.“[6]
Þúsundir syrgjenda sóttu útför Shireen Abu Akleh, sem var haldin í Austur-Jerúsalem þann 13. maí. Þegar kista Abu Akleh var borin frá St. Jósefs-sjúkrahúsinu kom til átaka þegar ísraelskir lögreglumenn réðst gegn syrgjendum, sem margir veifuðu palestínskum fánum, sem eru ólöglegir samkvæmt ísraelskum lögum.[7] Lögreglumennirnir vísuðu til þess að syrgjendurnir hefðu sungið þjóðernissinnaðan undirróður, hunsað tilmæli um að hætta og hafi kastað steinum í lögreglumenn. Lögreglan barði syrgjendurna með kylfum, sem leiddi til þess að kistuberarnir misstu kistu Abu Akleh stuttlega.[8]
Þann 21. júní gaf The New York Times út rannsókn á dauða Abu Akleh sem benti til þess að kúlan sem hæfði hana hafi komið frá stað þar sem ísraelsk herbílalest var stödd. Benti rannsóknin jafnframt til þess að ísraelskur sérsveitarmaður hefði skotið hana og að engir vopnaðir Palestínumenn hefðu verið nálægt henni þegar hún var skotin.[9]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Óháðrar rannsóknar krafist á drápi fréttamanns Al Jazeera“. Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu. 12. maí 2022. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. júlí 2022. Sótt 16. júlí 2022.
- ↑ Atli Ísleifsson; Gunnar Reynir Valþórsson (11. maí 2022). „Fréttakona Al Jazeera skotin til bana á Vesturbakkanum“. Vísir. Sótt 16. júlí 2022.
- ↑ Ævar Örn Jósepsson (11. maí 2022). „Ísrael: Hermenn skutu palestínska fréttakonu til bana“. RÚV. Sótt 16. júlí 2022.
- ↑ Sigurjón Björn Torfason (11. maí 2022). „Fréttaritari skotinn til bana á Vesturbakkanum“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. september 2022. Sótt 17. júlí 2022.
- ↑ 5,0 5,1 Ólöf Ragnarsdóttir (12. maí 2022). „Vilja óháða rannsókn á morðinu á Shireen Abu Akleh“. RÚV. Sótt 16. júlí 2022.
- ↑ Sigurjón Björn Torfason (19. maí 2022). „Ísraelar ætla ekki að rannsaka morð á palestínskum fréttaritara“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 1. júlí 2022. Sótt 17. júlí 2022.
- ↑ Ævar Örn Jósepsson (14. maí 2022). „Öryggisráðið fordæmir dráp Abu Akleh og vill rannsókn“. RÚV. Sótt 16. júlí 2022.
- ↑ Kjartan Kjartansson (13. maí 2022). „Lögreglumenn börðu syrgjendur í útför blaðakonu“. Vísir. Sótt 16. júlí 2022.
- ↑ Kjartan Kjartansson (21. júní 2022). „Rekja byssukúluna sem banaði fréttakonu til Ísraela“. Vísir. Sótt 16. júlí 2022.