Fara í innihald

Sfinx

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Forngrísk sfinx frá Delfí

Sfinx (eða meyljón) (úr grísku: Σφίγξ) er goðsagnavera með líkama ljóns og mannshöfuð. Samkvæmt forngrískri hefð var sfinxin með vængi og höfuð konu. Þar kemur hún fyrir sem svikul og miskunnarlaus. Þá sem ekki geta svarað gátu hennar reif hún í sig. Í Egyptalandi hinu forna voru sfinxar hins vegar oftast karlkyns og góðviljaðir. Þeir voru hliðverðir við hof og grafhýsi. Frægasti egypski sfinxinn er Sfinxinn í Gísa við Keopspýramídann. Grikkir skrifuðu mikið um egypska sfinxa og gáfu þeim nafn sitt. Ekki er vitað hvaða nafn Egyptar notuðu sjálfir um þá. Frá Grikklandi bárust sfinxirnar til Persaveldis og Indlands.

Sfinxir hafa verið vinsælt viðfangsefni í myndlist, skreytilist og arkitektúr í Evrópu og Ameríku frá 16. öld og fram á þá 20.