Fara í innihald

Seldælir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Seldælir voru íslensk höfðingjaætt á Sturlungaöld. Ríki þeirra var á sunnan- og vestanverðum Vestfjörðum en Vatnsfirðingar réðu norður- og austurhluta Vestfjarðakjálkans. Ættin er kennd við bæinn Selárdal í Arnarfirði.

Karllegg ættarinnar má rekja til Geirþjófs Valþjófssonar landnámsmanns í Arnarfirði en ættin er þó oftast talin frá Bárði svarta Atlasyni, bónda í Selárdal. Sonur Bárðar var Sveinbjörn goðorðsmaður og læknir á Eyri og sonur hans Hrafn Sveinbjarnarson læknir á Eyri. Hann átti í deilum við Þorvald Snorrason, leiðtoga Vatnsfirðinga, sem náði Hrafni á sitt vald og lét höggva hann 4. mars 1213. Tveir elstu synir Hrafns, Sveinbjörn og Krákur, voru höggnir eftir Örlygsstaðabardaga 1238 og aðrir tveir höfðu drukknað við Grímsey 1231, svo að ríki Seldæla gekk til Hrafns Oddssonar, dóttursonar Hrafns læknis.