Fara í innihald

Scott Morrison

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Scott Morrison
Forsætisráðherra Ástralíu
Í embætti
24. ágúst 2018 – 23. maí 2022
ÞjóðhöfðingiElísabet 2.
LandstjóriSir Peter Cosgrove
David Hurley
ForveriMalcolm Turnbull
EftirmaðurAnthony Albanese
Persónulegar upplýsingar
Fæddur13. maí 1968 (1968-05-13) (56 ára)
Sydney, Nýja Suður-Wales, Ástralíu
ÞjóðerniÁstralskur
StjórnmálaflokkurFrjálslyndi flokkurinn
MakiJenny Warren
Börn2
HáskóliHáskólinn í Nýja Suður-Wales

Scott John Morrison (f. 13. maí 1968) er ástralskur stjórnmálamaður og fyrrverandi forsætisráðherra Ástralíu. Hann er formaður Frjálslynda flokksins og var fjármálaráðherra Ástralíu frá 2015 til 2018.

Morrison fæddist í Sydney og nam efnahagslandafræði við Háskólann í Nýja Suður-Wales. Hann var framkvæmdastjóri ferðamanna- og íþróttaskrifstofu Nýja-Sjálands frá 1998 til 2000 og var síðan framkvæmdastjóri áströlsku ferðamannaskrifstofunnar frá 2004 til 2006. Morrison var jafnframt héraðsformaður Frjálslynda flokksins í Nýja Suður-Wales frá 2000 til 2004.

Morrison var kjörinn á ástralska þingið fyrir Cook-kjördæmi árið 2007. Eftir að bandalag Frjálslynda flokksins vann kosningasigur árið 2013 var Morrison útnefndur ráðherra innflutnings- og landvarnarmála í ríkisstjórn Tony Abbott.[1] Í því embætti bar hann ábyrgð á aðgerðum til að koma í veg fyrir komu ólöglegra innflytjenda til Ástralíu. Þegar stjórnin var stokkuð upp árið 2014 varð Morrison félagsmálaráðherra.[2] Hann varð síðan fjármálaráðherra árið 2015 þegar Malcolm Turnbull varð forsætisráðherra.[3]

Í ágúst árið 2018 skoraði Peter Dutton Turnbull á hólm í formannskjöri Frjálslynda flokksins. Turnbull sigraði Dutton en flokkurinn var áfram klofinn í afstöðu sinni til formennsku hans og því var kallað til annarra formannskosninga síðar sama ár og Turnbull ákvað að bjóða sig ekki fram. Í formannskjörinu sigraði Morrison Dutton og Julie Bishop og var kjörinn formaður Frjálslynda flokksins. Hann tók við embætti sem forsætisráðherra Ástralíu síðar sama dag.[4] Morrison og Frjálslyndi flokkurinn unnu síðan óvæntan sigur gegn stjórnarandstöðunni í þingkosningum árið 2019.[5]

Frjálslyndi flokkurinn tapaði þingkosningum í maí 2022 og Anthony Albanese, leiðtogi Verkamannaflokksins, tók því við af Morrison sem forsætisráðherra.

Eftir að Morrison lét af embætti forsætisráðherra var upplýst um að hann hefði á stjórnartíð sinni útnefnt sjálfan sig ráðherra í fimm ráðuneytum til viðbótar án þess að gera það opinbert. Þannig var Morrison heilbrigðis-, fjármála-, iðnaðar-, vísinda- og orkumálaráðherra samhliða því sem hann gegndi forsætisráðherraembættinu. Ráðherrum þessara ráðuneyta var ekki tilkynnt um að Morrison hefði gert sjálfan sig að meðráðherra þeirra og því töldu þeir sig fara einir fyrir þessum málaflokkum. Morrison sagði þetta hafa verið neyðarúrræði vegna kórónuveirufaraldursins.[6]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Tony Abbott's cabinet and outer ministry“. The Sydney Morning Herald. 16. september 2013. Sótt 20. maí 2019.
  2. „Dutton to immigration in reshuffle“. News.com.au. 21. desember 2014. Afrit af upprunalegu geymt þann 16 október 2015. Sótt 20 maí 2019.
  3. Murphy, Katharine (20. september 2015). „Malcolm Turnbull unveils his ministry“. The Guardian. Sótt 20. september 2015.
  4. „Scott Morrison wins Liberal party leadership spill“. Nine News. 24. ágúst 2018. Sótt 24. ágúst 2018.
  5. Belot, Henry (19. maí 2019). „Federal election result: Scott Morrison says 'I have always believed in miracles' as Coalition retains power“. Australian Broadcasting Corporation.
  6. Hólmfríður Gísladóttir (16. ágúst 2022). „Skipaði sjálfan sig margfaldan ráðherra á bak við tjöldin“. Vísir. Sótt 4. desember 2022.


Fyrirrennari:
Malcolm Turnbull
Forsætisráðherra Ástralíu
(24. ágúst 201823. maí 2022)
Eftirmaður:
Anthony Albanese