Fara í innihald

Sandlóa

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sandlóa
Fullorðinn fugl Söngurⓘ
Fullorðinn fugl
Söngur
Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Fuglar (Aves)
Undirflokkur: Neornithes
Innflokkur: Neognathae
Yfirættbálkur: Neoaves
Ættbálkur: Strandfuglar (Charadriiformes)
Ætt: Lóuætt (Charadriidae)
Ættkvísl: Charadrius
Tegund:
C. hiaticula

Tvínefni
Charadrius hiaticula
Linnaeus, 1758

Sandlóa (fræðiheiti Charadrius hiaticula) er smávaxinn vaðfugl af lóuætt.

Lengd: 18 – 20 cm. | Þyngd: 50 - 60 gr. | Vænghaf: 50 – 55 cm.

Sandlóa (ungur fugl)

Sandlóan er álíka stór og sendlingur og lóuþræll og um margt lík heiðlóu í vaxtarlagi. Hún er þó töluvert minni en heiðlóan, þybbnari, hálsstutt og frekar kubbslega vaxin en með mikið vænghaf miðað við lengd eða rúmlega tvisvar sinnum lengd sína. Flýgur yfirleitt lágt og hratt sem er svipað og með fótaburð hennar en hún er þekkt fyrir snöggan fótaburð, enda skýst hún svo hratt um að varla að hún sjáist. Svo snar stoppar hún og hverfur inn í umhverfi sitt því litarhaft hennar er ágætis felubúningur, sérstaklega í fjörum.

Ljósbrún að ofan, bæði höfði og baki en hvít að neðan. Með svartan og hvítan kraga um hálsinn og hvítt enni og svarta breiða línu á milli augnanna sem einnig eru svört. Hún er með rauðgult nef með svörtum oddi. Fæturnir eru ljósgulir á litinn og stuttir.

Útbreiðsla

[breyta | breyta frumkóða]

Sandlóan finnst um alla norðanverða Evrópu og Asíu. Hún er farfugl á Íslandi og kemur venjulega um miðjan apríl og fer suður á bóginn um miðjan september. Þær sem hér verpa halda sig á veturnar á leirum og sandfjörum, mest á Bretlandseyjum, meðfram vesturströnd Frakklands og Spánar og suður til Marokkó.

Sandlóan leitar sér fæðu á landi og lifir aðallega á smádýrum sem hún nær upp úr jarðveginum, einkum leirum og sandfjörum, með goggi sínum eins og smáar tegundir krabbadýra, snigla og ýmsar tegundir smáorma.

Hreiður Sandlóunnar með tvem eggjum. Hér sést hve einfalt það er, aðeins smá dæld og sprek í kring.

Sandlóan verpir um mest alla norðanverða Evrópu og Asíu og þar á meðal á Íslandi. Einnig á heimskautaeyjum Kanada og á Grænlandi. Á Íslandi verpir um allt land en er algengust í fjörum en utan varptímans dvelur hún mest á leirum og sandströndum. Talið er að um helmingur heimsstofns sandlóa verpi á Íslandi.

Hreiðrið er einfalt aðeins lítil dæld í sandi í fjörum eða sjávargrundum nærri fjörum. Hreiðrið er ekkert falið og aðeins fóðrað með spreki eða smásteinum. Eggin eru oftast fjögur, ljósbrún alsett fjölmörgum doppum. Varptíminn er frá seinnihluta maí til miðs ágúst. Ungarnir koma úr eggjunum eftir þrjár til fjórar vikur og yfirgefa hreiðrið strax og hlaupa um nágrennið með foreldrum sínum og bjarga sér sjálfir með æti.