Salomé Zourabichvili
Salomé Zourabichvili | |
---|---|
სალომე ზურაბიშვილი | |
Forseti Georgíu | |
Núverandi | |
Tók við embætti 16. desember 2018 | |
Forsætisráðherra | Mamuka Bakhtadze Giorgi Gakharia Irakli Garibashvili Irakli Kobakhidze |
Forveri | Giorgi Margvelashvili |
Persónulegar upplýsingar | |
Fædd | 18. mars 1952 París, Frakklandi |
Þjóðerni | Georgísk (áður frönsk) |
Stjórnmálaflokkur | Leið Georgíu (2006-2011) |
Maki | Nicolas Gorjestani (g. 1981; skilin 1992) Janri Kashia (g. 1993; d. 2012) |
Börn | 2 |
Háskóli | Sciences Po Columbia-háskóli |
Starf | Erindreki, stjórnmálamaður |
Undirskrift |
Salomé Zourabichvili[a] (f. 18. mars 1952) er georgískur stjórnmálamaður og núverandi forseti Georgíu. Hún er fædd í Frakklandi og vann lengi sem ríkiserindreki og sendiherra fyrir frönsku ríkisstjórnina.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Salomé Zourabichvili er fædd í París og foreldrar hennar voru georgískir innflytjendur til Frakklands. Zourabichvili gegndi lengi ýmsum störfum í frönsku utanríkisþjónustunni; meðal annars hjá Sameinuðu þjóðunum, í sendiráði Frakklands í Washington, höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Brussel og hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu.[1]
Zourabichvili kom fyrst til Georgíu árið 1986 sem ferðamaður. Árið 2003 flutti hún til Georgíu eftir að hún var skipuð sendiherra Frakklands í landinu. Árið 2004 veitti Mikheil Saakashvili, þáverandi forseti Georgíu, henni georgískan ríkisborgararétt með sérstakri forsetatilskipun. Saakashvili skipaði Zourabichvili síðan utanríkisráðherra í stjórn sinni. Sem utanríkisráðherra samdi Zourabichvili við Rússa um brottför hermanna þeirra frá Georgíu, sem gekk eftir árið 2005.[1] Sama ár var Zourabichvili rekin úr embætti utanríkisráðherra vegna ágreinings við georgíska þingið.[2]
Zourabichvili ákvað að dvelja áfram í Georgíu og taka þátt í stjórnmálum landsins. Hún stofnaði nýjan stjórnmálaflokk, Leið Georgíu,[3] en flokkurinn hlaut aldrei mikið fylgi þrátt fyrir að Zourabichvili nyti nokkurrar virðingar meðal landsmanna. Zourabichvili var seinna kjörin á georgíska þingið sem óháður þingmaður.[1]
Árið 2018 ákvað Zourabichvili að bjóða sig fram í embætti forseta Georgíu. Í kosningunum var hún að nafninu til óháður frambjóðandi en naut þó stuðnings stjórnarflokksins, Draums Georgíu.[1][4] Hún vann sigur í seinni umferð forsetakosninganna með um sextíu prósentum atkvæða á móti Grigol Vashade.[1] Vashade og stuðningsmenn hans vændu stjórnvöld um kosningasvik í þágu Zourabishvili og neituðu að viðurkenna niðurstöðu kosninganna.[5]
Við innsetningu sína í embætti þann 16. desember lofaði Zourabichvili að vinna að inngöngu Georgíu í NATO og ESB og styrkja samband landsins við Bandaríkin.[4] Zourabichvili er fyrsti kvenforseti Georgíu. Hún verður jafnframt síðasti forseti landsins sem er kjörinn í beinum kosningum, en samkvæmt stjórnarskrárbreytingum verða eftirmenn hennar kjörnir af kjörmannaráði.[1]
Á kjörtímabili sínu hefur Zourabichvili í auknum mæli orðið andstæðingur ríkisstjórnar Draums Georgíu, sem hefur tekið upp íhaldssamari stefnu og fært Georgíu nær Rússlandi í ýmsum málum. Í maí 2024 beitti hún neitunarvaldi gegn samþykkt lagafrumvarps stjórnarinnar sem átti að takmarka „erlend áhrif“ í Georgíu.[6] Í október sama ár neitaði hún að undirrita lög sem takmörkuðu réttindi hinsegin fólks í landinu.[7] Zourabichvili studdi stjórnarandstöðuna í þingkosningum sem fóru fram í október 2024 og hvatti til mótmæla eftir að Draumur Georgíu var lýstur sigurvegari þeirra.[8]
Neðanmálsgreinar
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Zourabichvili notar franska umritun á nafni sínu úr georgísku letri; ensk umritun er Zurabishvili og umritun á Norðurlandamál Zurabisjvili.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 Ævar Örn Jósepsson (29. nóvember 2018). „Nýr forseti Georgíu kemur frá Frakklandi“. RÚV. Sótt 17. janúar 2020.
- ↑ Georgia, Civil. „Civil.Ge - Foreign Minister Zourabichvili Sacked“. www.civil.ge. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. mars 2016. Sótt 17. janúar 2020.
- ↑ Quentin Peel og Isabel Gorst (31. október 2007), Liberal laboratory at Russia’s door Financial Times.
- ↑ 4,0 4,1 „Nýr forseti Georgíu vill nánari tengsl við NATO og ESB“. Varðberg. 18. desember 2018. Sótt 17. janúar 2020.
- ↑ Lovísa Arnardóttir (2. desember 2018). „Þúsundir mótmæltu niðurstöðum kosninga í Georgíu“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. október 2021. Sótt 17. janúar 2020.
- ↑ Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir (18. maí 2024). „Forseti Georgíu beitir neitunarvaldi gegn umdeildum lögum“. RÚV. Sótt 28. október 2024.
- ↑ Hólmfríður Gísladóttir (3. október 2024). „Forsetinn neitar að undirrita lög gegn hinsegin fólki“. Vísir. Sótt 28. október 2024.
- ↑ Brynjólfur Þór Guðmundsson (27. október 2024). „Hvatt til rannsóknar og mótmæla vegna kosningaúrslita í Georgíu“. RÚV. Sótt 28. október 2024.
Fyrirrennari: Giorgi Margvelashvili |
|
Eftirmaður: Enn í embætti |