Fara í innihald

Salomé Zourabichvili

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Salome Zourabichvili
სალომე ზურაბიშვილი
Salome Zourabichvili árið 2019.
Forseti Georgíu
Núverandi
Tók við embætti
16. desember 2018
Persónulegar upplýsingar
Fædd18. mars 1952 (1952-03-18) (72 ára)
París, Frakklandi
ÞjóðerniGeorgísk (áður frönsk)
StjórnmálaflokkurLeið Georgíu (2006-2011)
MakiNicolas Gorjestani (g. 1981; skilin 1992)
Janri Kashia (g. 1993; d. 2012)
Börn2
HáskóliSciences Po
Columbia-háskóli
StarfErindreki, stjórnmálamaður
Undirskrift

Salome Zourabichvili[1] (f. 18. mars 1952) er georgískur stjórnmálamaður og núverandi forseti Georgíu. Hún er fædd í Frakklandi og vann lengi sem ríkiserindreki og sendiherra fyrir frönsku ríkisstjórnina.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Salome Zourabichvili er fædd í París og foreldrar hennar voru georgískir innflytjendur til Frakklands. Zourabichvili gegndi lengi ýmsum störfum í frönsku utanríkisþjónustunni; meðal annars hjá Sameinuðu þjóðunum, í sendiráði Frakklands í Washington, höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Brussel og hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu.[2]

Zourabichvili kom fyrst til Georgíu árið 1986 sem ferðamaður. Árið 2003 flutti hún til Georgíu eftir að hún var skipuð sendiherra Frakklands í landinu. Árið 2004 veitti Mikheil Saakashvili, þáverandi forseti Georgíu, henni georgískan ríkisborgararétt með sérstakri forsetatilskipun. Saakashvili skipaði Zourabichvili síðan utanríkisráðherra í stjórn sinni. Sem utanríkisráðherra samdi Zourabichvili við Rússa um brottför hermanna þeirra frá Georgíu, sem gekk eftir árið 2005.[2] Sama ár var Zourabichvili rekin úr embætti utanríkisráðherra vegna ágreinings við georgíska þingið.[3]

Zourabichvili ákvað að dvelja áfram í Georgíu og taka þátt í stjórnmálum landsins. Hún stofnaði nýjan stjórnmálaflokk, Leið Georgíu,[4] en flokkurinn hlaut aldrei mikið fylgi þrátt fyrir að Zourabichvili nyti nokkurrar virðingar meðal landsmanna. Zourabichvili var seinna kjörin á georgíska þingið sem óháður þingmaður.[2]

Árið 2018 ákvað Zourabichvili að bjóða sig fram í embætti forseta Georgíu. Í kosningunum var hún að nafninu til óháður frambjóðandi en naut þó stuðnings stjórnarflokksins, Draums Georgíu.[2][5] Hún vann sigur í seinni umferð forsetakosninganna með um sextíu prósentum atkvæða á móti Grigol Vashade.[2] Vashade og stuðningsmenn hans vændu stjórnvöld um kosningasvik í þágu Zourabishvili og neituðu að viðurkenna niðurstöðu kosninganna.[6]

Við innsetningu sína í embætti þann 16. desember lofaði Zourabichvili að vinna að inngöngu Georgíu í NATO og ESB og styrkja samband landsins við Bandaríkin.[5] Zourabichvili er fyrsti kvenforseti Georgíu. Hún verður jafnframt síðasti forseti landsins sem er kjörinn í beinum kosningum, en samkvæmt stjórnarskrárbreytingum verða eftirmenn hennar kjörnir af kjörmannaráði.[2]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Zourabichvili notar franska umritun á nafni sínu úr georgísku letri; ensk umritun er Zurabishvili og umritun á Norðurlandamál Zurabisjvili.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 2,5 Ævar Örn Jósepsson (29. nóvember 2018). „Nýr forseti Georgíu kemur frá Frakklandi“. RÚV. Sótt 17. janúar 2020.
  3. Georgia, Civil. „Civil.Ge - Foreign Minister Zourabichvili Sacked“. www.civil.ge. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. mars 2016. Sótt 17. janúar 2020.
  4. Quentin Peel and Isabel Gorst (31 October 2007), Liberal laboratory at Russia’s door Financial Times.
  5. 5,0 5,1 „Nýr forseti Georgíu vill nánari tengsl við NATO og ESB“. Varðberg. 18. desember 2018. Sótt 17. janúar 2020.
  6. Lovísa Arnardóttir (2. desember 2018). „Þúsundir mót­mæltu niður­stöðum kosninga í Georgíu“. Fréttablaðið. Sótt 17. janúar 2020.


Fyrirrennari:
Giorgi Margvelasjvili
Forseti Georgíu
(16. desember 2018 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti