Fara í innihald

Símon Dalaskáld

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Símon Dalaskáld (2. júlí 18449. mars 1916) var íslenskt skáld og förumaður á 19. og 20. öld. Hann var Bjarnarson en tók sér snemma kenningarnafnið Dalaskáld og kenndi sig við Skagafjarðardali (Vesturdal og Austurdal) þar sem hann átti lengst af heimili þótt hann væri mikið á flakki, en margir halda raunar vegna kenninafnsins að hann hafi verið upprunninn í Dalasýslu.

Hann var fæddur á Höskuldsstöðum í Blönduhlíð í Skagafirði og var elstur af 13 systkinum. Hann fór að heiman fljótlega eftir fermingu og var í vinnumennsku í Skagafjarðardölum, giftist og átti börn sem öll dóu ung nema eitt, var um tíma við búhokur en var þó mest í ferðalögum, fór um allt land og seldi ritverk sín og fleira. Hann var þó ekki umrenningur eða betlari, miklu fremur skemmtikraftur sem ferðaðist um og stytti fólki stundir.

Símon var talinn það sem kallað er talandi skáld og orti oft jafnhratt og aðrir mæla óbundið mál. Talið er að fáir Íslendingar hafi samið jafn margar vísur og Símon, því utan þær rímur sem hann samdi, orti hann vísur um þúsundir manna um land allt. Þótt Símon væri farinn að gefa út kver með rímum sínum og öðrum kveðskap fyrir þrítugt lærði hann ekki að skrifa fyrr en á fimmtugsaldri og varð aldrei vel skrifandi. Þó gaf hann út fjölmarga rímnaflokka, tvær ævisögur - Bólu-Hjálmars sögu og Sögu Eiríks Magnússonar (Mera-Eiríks), og löngu eftir dauða hans kom út skáldsaga sem hann hafði skrifað, Árni á Arnarfelli og dætur hans.