Sæskrímsli
Sæskrímsli eru verur úr þjóðsögum sem taldar eru búa í sjónum og eru þær oft gríðarlega stórar. Skrímslin eru af mörgum tegundum, þar á meðal sjávardrekar, sjóormar eða í hvalalíki. Þeir geta verið slímugir og hreistróttir og oft sést á myndum þegar þeir ógna skipum eða sprauta vatnsstrókum. Sennilega hafa mörg þessara skrímsla verið stórir hvalir eins og búrhvalir eða risakolkrabbar.
Sjóskrímslasögur finnast í nánast öllum þjóðfélögum sem hafa búið við höf eða vötn. Trú á sæskrímsli hefur verið almenn miðað við tíðni þeirra í eldri frásögnum allt frá Skyllu og sírenum Ódysseifskviðu, og sögunum af dýrlingunum Brendan og Kólumkilla, Konungsskuggsjá og víðar. Í lengri gerð fornaldarsögunnar um Örvar-Odd koma fyrir tvö sjóskrímsli og er þeim lýst svo:
„Nú mun ek segja þér, at þetta eru sjóskrímsl tvau. Heitir annat hafgufa, en annat lyngbakr. Er hann mestr allra hvala í heiminum, en hafgufa er mest skrímsl skapat í sjónum. Er þat hennar náttúra, at hún gleypir bæði menn ok skip ok hvali ok allt þat hún náir.” [1]
Sæskrímsli við Íslandsstrendur
[breyta | breyta frumkóða]Fjöldi skrímsla hefur sést við Íslandsstrendur í gegn um aldirnar og síðustu tvöhundruð ár hafa þau verið algengust í kring um Vestfirði. Fjögur höfuðskrímsli eru þekktust frá Vestfjörðum og hafa þau öll sést í Arnarfirði. Þetta eru Fjörulalli, Faxi, Skeljaskrímsli og Hafmaður.[1]
Daninn Peder Hansen Resen nefnir bæði vatnaskrímsli í Íslandslýsingu sinni (1684-1687) og sjávarferlíki. Í upptalningu á ýmsum dýrategundum birtist skyndilega hrosshvalur:
„kallaður svo af eins konar hrossmakka sem þekur mikinn hluta baks þeirra. Hann er mjög sólginn í mannakjöt, stingur hausnum upp úr sjónum, lætur augnlokin síga svo að augun lokast og hann sér ekkert” [2].
Í bókinni Bréf til Láru telur Þórbergur Þórðarson upp margar tegundir sæskrímsla sem þekkt voru í Suðursveit og lýsingar á þeim:
„Rauðkembingurinn elti skip og færði í kaf. Í fylgd með honum var Náhvalurinn. Hann át allt sem félagi hans sökkti. Lyngbakurinn var allur lyngi vaxinn á hryggnum. ... Katthvelið morraði í hálfu kafi undir sjávarskorpunni, nuddaði sér upp við skipin og mjálmaði eins og köttur. Léttir flaug í loftinu og grandaði skipum með því að slöngva sér upp í þau. Hnúðurbakurinn hafði hnúð eða kryppu upp úr hryggnum og tortímdi öllu sem hann kom auga á. ... Baulhvelið öskraði eins og graðungur. ... Sveifarfiskurinn hafði risavaxið bægsli eða blöðku upp úr bakinu. Blöðkunni lamdi hann sitt á hvað, þegar vígamóður var í honum, svo að sjórinn gusaðist alla vegu út frá honum. Hann grandaði skipum með þeim hætti, að hann sviflaði blöðkunni inn yfir borðstokinn. Síðan svelgdi hann alla áhöfnina.“[3]
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Eru sjávarskrímsli til?; grein á Vísindavef
- Jón Árnason, Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, þriðja bindi. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1954.
- Jón Baldur Hlíðberg og Sigurður Ægisson. Íslenskar kynjaskepnur. Reykjavík: JPV útgáfa, 2008.
- Þorvaldur Friðriksson, 2023. Skrímsli í sjó og vötnum á Íslandi. Söguútgáfan, ISBN 9789935312099
- Nokkur furðudýr fornaldar; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1961
- Sæslangan er meinlaus fiskur; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1951