Sírenur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ódysseifur og sírenurnar á vasa frá því u.þ.b. 480-470 f.Kr., British Museum
Ódysseifur og sírenurnar. Málverk frá 1891 eftir John William Waterhouse.

Sírenur voru vængjaðir sjávarvættir í grískri goðafræði, raddfagrar söngmeyjar í fuglslíki, er seiða menn til bana með söng sínum.

Sumar sagnir töldu þær hafa verið leiksystur Persefónu. En er Hades rændi henni, hafi þær ekki komið gyðjunni til hjálpar, og Demeter þá refsað þeim með því að bregða þeim í fuglsham. Enn aðrir töldu þær hafa hætt sér í sönglistarkeppni við menntagyðjurnar og hlotið refsingu fyrir það.

Kunnastar eru Sírenurnar úr Ódysseifskviðu. Á hrakningum sínum átti Ódysseifur leið fram hjá ey þeirri, er þær höfðust við á. En með því hann var við öllu búinn, hafði hann drepið vaxi í eyru förunauta sinna og látið binda sig við siglutréð. Eða eins og segir í tólftu bók Ódysseifskviðu:

Úr Ódysseifskviðu[breyta | breyta frumkóða]

Gæsalappir

Meðan ég var að tjá og telja hvað eina fyrir förunautum mínum, þá bar hið traustsmíðaða skip skjótlega að ey beggja Sírena, því hægur byr var á eftir. Þá tók snögglega af allan byr og gerði blæjalogn, því einhver guð hafði svæft bárurnar; stóðu félagar mínir þá upp, tóku saman seglin og lögðu niður í skipið, settust síðan við árar og létu sjóinn hvítna fyrir hinum tegldu furuárum. Þá tók ég stóra vaxköku og skar í smátt með beittu eirsaxi og hnoðaði milli minna sterku handa, hitnaði vaxið fljótt, því mitt mikla afl og skin hins máttuga Helíoss Hýperíons knúði það. Síðan drap ég því í eyru á öllum skipverjum, en þeir bundu mig innanborðs á höndum og fótum uppréttan við siglufótinn og festu reipsendana við siglutréð, settust síðan niður og lustu árum hinn gráa sæ. Nú vorum vér komnir svo nærri að mál mátti nema, því vér rerum hart; þá urðu þær varar við að hið örskreiða skip renndi þar hjá og hófu upp snjallan söng: „Kom hingað, lofsæli Ódysseifur, prýðimaður Akkea! Legg hér að skipi þínu svo þú megir heyra sönghljóð okkar beggja; því enn hefur enginn farið hér svo framhjá á svörtu skipi, að hann hafi ekki fyrst hlýtt á hina sætthljómandi rödd af munnum vorum, enda fer sá svo á burt að hann hefur skemmt sér og er margs fróðari. Því vér vitum allar þær þrautir er Argverjar og Trójumenn áttu í hinu víða Trójulandi eftir ráðstöfun guðanna; vér vitum og allt hvað viðber á hinni margfrjóu jörð“. Svo mæltu þær og létu til sín heyra fagra rödd; langaði hjarta mitt þá til að hlýða á og bandaði ég förunautum mínum með augnabrúnunum og bað þá leysa mig, en þeir lutu áfram og reru; en Perímedes og Evrýlokkos stóðu þegar upp og bundu mig enn fleiri böndum og reyrðu mig fastar. En er þeir voru komnir framhjá Sírenunum og vér ekki heyrðum lengur róm þeirra eða söng, þá tóku mínir félagar burt vaxið er ég hafði drepið í eyru þeim og leystu mig aftur úr böndunum.“

— Hómer.