Fara í innihald

Robert Fico

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Robert Fico
Fico árið 2024.
Forsætisráðherra Slóvakíu
Núverandi
Tók við embætti
25. október 2023
ForsetiZuzana Čaputová
Peter Pellegrini
ForveriĽudovít Ódor
Í embætti
4. apríl 2012 – 22. mars 2018
ForsetiIvan Gašparovič
Andrej Kiska
ForveriIveta Radičová
EftirmaðurPeter Pellegrini
Í embætti
4. júlí 2006 – 8. júlí 2010
ForsetiIvan Gašparovič
ForveriMikuláš Dzurinda
EftirmaðurIveta Radičová
Persónulegar upplýsingar
Fæddur15. september 1964 (1964-09-15) (59 ára)
Topoľčany, Tékkóslóvakíu
ÞjóðerniSlóvakískur
StjórnmálaflokkurStefna – sósíaldemókratar (1999–)
MakiSvetlana Svobodová (g. 1986)
Börn1
Undirskrift

Robert Fico (f. 15. september 1964) er slóvakískur stjórnmálamaður. Hann hefur verið forsætisráðherra Slóvakíu frá 2023 og gegndi embættinu áður frá 2006 til 2010 og frá 2012 til 2018. Fico stofnaði stjórnmálaflokkinn Stefnu – sósíaldemókrata (Smer–SD) árið 1999 og hefur verið leiðtogi flokksins frá upphafi. Fico var kjörinn á þing í fyrsta sinn árið 1992 (þá í Tékkóslóvakíu) og myndaði fyrstu ríkisstjórn sína eftir sigur Smer–SD árið 2006. Alls hefur Fico verið forsætisráðherra Slóvakíu í rúman áratug og er því þaulsætnasti forsætisráðherra í sögu landsins. Stjórnmálastefnur Ficos eru gjarnan taldar popúlískar.

Robert Fico fæddist árið 1964 í Tékkóslóvakíu. Hann var meðlimur í kommúnistaflokki landsins og gekk eftir skiptingu Tékkóslóvakíu árið 1993 í Lýðræðislega vinstriflokkinn (SDL), arftaka kommúnistaflokksins. Fico sagði sig úr SDL eftir að flokkurinn sniðgekk hann árið 1999 og stofnaði eigin flokk, Stefnu – sósíaldemókrata (Smer–SD).[1]

Fico myndaði fyrstu stjórn sína árið 2006 eftir sigur Smer–SD í þingkosningum. Í fyrstu stjórnartíð Ficos var evra tekin upp sem gjaldmiðill í Slóvakíu. Fico tókst ekki að mynda nýja stjórn eftir þingkosningar árið 2010 og fór því aftur í stjórnarandstöðu. Hann komst hins vegar aftur til valda tveimur árum síðar eftir að hægristjórn landsins sprakk.[2]

Á tíma evrópska flóttamannavandans árið 2015 tók Fico harða aftöðu gegn innflytjendum og sagðist ekki vilja rýma fyrir stofnun „sérstaks samfélags múslima í Slóvakíu“. Hann lét jafnframt leggja niður flóttamannakvóta Evrópusambandsins í landinu. Árið 2016 gaf Fico kost á sér í forsetakosningum landsins en náði ekki kjöri. Hann hélt engu að síður áfram sem forsætisráðherra.[2]

Fico hrökklaðist frá völdum árið 2018 í kjölfar fjöldamótmæla sem brutust út eftir að rannsóknarblaðamaðurinn Ján Kuciak var myrtur ásamt unnustu sinni á heimili þeirra. Stuttu fyrir dauða sinn hafði Kuciak skrifað grein þar sem hann fjallaði um tengsl Ficos við ítölsku mafíuna.[2]

Smer–SD vann sigur á ný í þingkosningum árið 2023 og Fico varð því forsætiráðherra í þriðja skipti. Í kosningabaráttunni hafði Fico lagt áherslu á bætt samband við Rússland og á að stjórn hans myndi hætta hernaðaraðstoð Slóvakíu við Úkraínu í yfirstandandi innrás Rússa í landið.[3] Fico tilkynnti stuttu eftir embættistöku sína að landið myndi hætta stuðningi við Úkraínu og hætta þátttöku í viðskiptabanni gegn Rússlandi.[4]

Þann 15. maí árið 2024 særðist Fico lífshættulega eftir banatilræði þar sem hann varð fyrir nokkrum byssuskotum. Fico var lagður inn á gjörgæslu og varð að gangast undir skurðaðgerð. Rúmlega sjötugur karlmaður var handtekinn fyrir árásina og ákærður fyrir morðtilraun. Robert Kaliňák, varnarmálaráðherra og varaforsætisráðherra, sagði tilræðið hafa verið af pólitískum toga.[5]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Jón Þór Stefánsson (16. maí 2024). „Hver er Robert Fico?“. Vísir. Sótt 16. maí 2024.
  2. 2,0 2,1 2,2 „Robert Fico: Umdeildur forsætisráðherra“. mbl.is. 15. maí 2024. Sótt 16. maí 2024.
  3. Samúel Karl Ólason (1. október 2023). „Um­deild­ur fyrr­ver­and­i for­sæt­is­ráð­herr­a í góðr­i stöð­u“. Vísir. Sótt 16. maí 2024.
  4. Rafn Ágúst Ragnarsson (26. október 2023). „Slóvakía hættir hernaðar­að­stoð við Úkraínu“. Vísir. Sótt 16. maí 2024.
  5. Hallgrímur Indriðason (16. maí 2024). „Ástand Fico stöðugt en alvarlegt - árásarmaðurinn kærður fyrir morðtilraun“. RÚV. Sótt 16. maí 2024.