Fara í innihald

Ricardískur sósíalismi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ríkardískir sósíalistar voru hópur breskra hugsuða og hagfræðinga á fyrri hluta 19. aldar sem sameinuðu kenningar David Ricardo við sósíalísk sjónarmið. Þeir gagnrýndu kapítalískt hagkerfi út frá vinnugildiskenningu Ricardo og lögðu til margslungnar félagslegar umbætur sem þeir trúðu að myndi tryggja réttláta dreifingu auðs.[1]

Bakgrunnur  

[breyta | breyta frumkóða]

Á fyrstu áratugum 19. aldar upplifði Bretland miklar samfélagslegar breytingar í kjölfar iðnbyltingarinnar. Vaxandi ójöfnuður og erfiðar aðstæður verkafólks leiddu til aukinnar gagnrýni á ríkjandi efnahagskerfi. Ríkardískir sósíalistar sóttu allir innblástur í kenningar David Ricardo, sérstaklega vinnugildiskenningu hans, sem segir að verðmæti vöru ráðist nær eingöngu af vinnunni sem fer í framleiðslu hennar, en hver þeirra um sig hafði sína eigin skoðun á hvernig best sé að passa upp á réttláta dreifingu tekna.[2]

Helstu fulltrúar

[breyta | breyta frumkóða]

Thomas Hodgskin

[breyta | breyta frumkóða]

Thomas Hodgskin (1787–1869) fæddist í Chatham á Englandi og gekk ungur til liðs við sjóherinn. Eftir að hafa yfirgefið herinn árið 1812 varð hann þekktur sem blaðamaður og rithöfundur. Í ritum sínum, þar á meðal ''Popular Political Economy'' (1827), gagnrýndi hann kapítalísk kerfi fyrir að leyfa eigendum fjármagns að hagnast á kostnað verkamanna. Hann gerði greinarmun á náttúrulegu verði sem hann skilgreindi sem raunvirði orkunnar og tímans sem fór í framleiðsluna, og samfélagslegu verði, sem er það verð sem varan sé seld á, þar innifalin öll renta og hagnaður. Honum fannst skýrt mál að söluverð ætti að vera í takt við náttúrulegt verð og að verkamennirnir ættu að fá allan, eða svo gott sem allan peninginn í sínar hendur fyrir vinnuna.[3]

John Francis Bray

[breyta | breyta frumkóða]

John Francis Bray (1809–1897) fæddist í Washington, D.C., en fluttist til Englands í æsku. Hann starfaði sem prentari í Leeds og tók virkan þátt í verkalýðshreyfingunni. Í bók sinni ''Labour's Wrongs and Labour's Remedy'' (1839) setti hann fram hugmyndir um samvinnufélög og lýðræðislegt hagkerfi þar sem verkamenn stjórnuðu framleiðslunni og nutu ávaxta vinnu sinnar. Hjá honum var sameign lykilatriði, því þá væri minni hvati og geta hjá kapítalistum og landeigendum til að skapa rentu og hagnað.[4]

Aðrir fulltrúar

[breyta | breyta frumkóða]

Meðal annara merkilegra Ríkardískra sósíalista voru Piercy Ravenstone, einnig þekktur sem Richard Pullen, sem gagnrýndi auðvaldskerfið fyrir að valda ónáttúrulegri fátækt, og William Thompson, sem lagði áherslu á samvinnu og jafnrétti í efnahagslífinu. [5]

Kenningar og hugmyndir

[breyta | breyta frumkóða]

Ríkardískir sósíalistar byggðu á vinnugildiskenningu Ricardo til að sýna fram á að verðmæti vöru væri skapað af vinnu verkamanna, ekki vegna fjármagns eða lands. Þeir héldu því fram að hagnaður og renta væru óverðskuldaðar tekjur sem væru teknar frá verkamönnum, og lagt á þá í formi verðlags, leiðandi til ójafnrar skiptingu auðs. [1]

Þeir gagnrýndu einkaeign á framleiðslutækjum og sögðu hana leiða til arðráns og ójöfnuðar. Lausnir þeirra fólust meðal annars í stofnun samvinnufélaga, þar sem verkamenn myndu eiga saman framleiðsluþættina, og stjórna framleiðslu sjálfir til að tryggja sanngjarna dreifingu auðs.

Áhrif og arfleifð

[breyta | breyta frumkóða]

Þrátt fyrir að ríkardísku sósíalistarnir hafi ekki náð gríðarlegum pólitískum áhrifum á sínum tíma, hafa hugmyndir þeirra haft mikil áhrif á síðari hugsuði. Karl Marx og Friedrich Engels tóku upp vinnugildiskenninguna og þróuðu hana í sinni gagnrýni á kapítalískt hagkerfi. Ríkardísku sósíalistarnir lögðu þannig grunn að hagfræðilegri gagnrýni á kapítalisma sem byggði á rökfræði fremur en siðferðilegum álitamálum.[6]

Hugmyndir þeirra um samvinnu og sanngjarna skiptingu auðs hafa einnig haft varanleg áhrif á verkalýðshreyfingar og þróun sósíalískra hugmynda um efnahagslíf.

  1. 1,0 1,1 Alessandro Roncaglia (2005). The Wealth of Ideas; A History of Economic Thought. Cambridge Universiy Press. bls. 208. ISBN 978-0-511-11348-2.
  2. Warren J. Samuels; Jeff E. Biddle; John B. Davis (2003). A Companion to the History of Economic Thought. Blackwell Publishing. bls. 184-185.
  3. Alessandro Roncaglia (2005). The Wealth of Ideas; A History of Economic thought. Cambridge University Press. bls. 223-224. ISBN 978-0-511-11348-2.
  4. Alessandro Roncaglia (2005). The Wealth of Ideas; A History of Economic Thought. Cambridge University Press. bls. 224. ISBN 978-0-511-11348-2.
  5. Alessandro Roncaglia (2005). The Wealth of Ideas; A History of Economics Thought. Cambridge University Press. bls. 223-225. ISBN 978-0-511-11348-2.
  6. Alessandro Roncaglia (2005). The Wealth of Ideas; A History of Economic Thought. Cambridge University Press. bls. 244. ISBN 978-0-511-11348-2.