Ragnar Thorseth
Ragnar Thorseth (f. 17. febrúar 1948) er norskur ævintýramaður, siglingamaður og rithöfundur. Hann fékk ungur áhuga á landkönnun og ævintýrum. Árið 1969 reri hann frá Måløy til Leirvíkur á Hjaltlandseyjum. Næstu ár sigldi hann um Norður-Íshafið og tók þátt í leiðangri á Norðurpólinn 1982. Árið eftir lét hann smíða fyrir sig eftirlíkingu af knerri, Saga Siglar, í Bjørkedalen. Árið 1984 lagði hann upp í hnattsiglingu á skipinu sem tók hann tvö ár.
Árið 1989 stofnaði hann ásamt konu sinni móttöku og upplýsingamiðstöð á Håholmen í Hustadvika í Mæri og Raumsdal og lét smíða annað eintak af knerri, Kvitserk. Árið 1992 fórst Saga Siglar við Spánarstrendur en braki úr bátnum var stillt upp til sýnis í Håholmen.
Árið 2000 sigldi Ragnar Kvitserk til Vestmannaeyja með altari og hellur í stafkirkjuna sem Norðmenn gáfu Íslendingum í tilefni af kristnitökuafmælinu. Á Íslandi keypti Ragnar þrjá íslenska hesta af Sigurbirni Bárðarsyni og flutti með sér til Noregs. Skömmu eftir heimkomuna varð hann fyrir því óhappi að einn hesturinn kastaði honum svo hann lenti með höfuðið á steini. Hann lá í dái vikum saman eftir slysið en hefur náð sér að mestu síðan.