Progreso

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Club Atlético Progreso
Fullt nafn Club Atlético Progreso
Gælunafn/nöfn Gauchos del Pantanoso, Gauchos, Los de La Teja
Stytt nafn Progreso
Stofnað 1917
Leikvöllur Parque Abraham Paladino, Montevideo
Stærð 8 000
Stjórnarformaður Fabián Canobbio
Knattspyrnustjóri Álvaro Fuerte
Deild Úrvalsdeild
2023 2. sæti (2. deild)
Heimabúningur
Útibúningur


Progreso, fullu nafni Club Atlético Progreso er úrúgvæskt knattspyrnulið frá Montevídeó, stofnað þann 30. apríl árið 1917. Það hefur lengi staðið í skugga stærri og öflugri knattspyrnuliða í landinu en naut allnokkurrar velgengni undir lok níunda áratugarins þegar það vann sinn fyrsta og eina meistaratitil.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Progreso var stofnað árið 1917 í Balero-borgarhlutanum í Montevideo. Stofnendurnir komu margir hverjir úr röðum iðn- og verkamanna í grjótnámi. Hreyfing anarkista var öflug í borgarhlutanum og vísaði nafnið í slagorð og hugtakanotkun anarkista, auk þess sem svartur var einkennislitur þess í fyrstu. Núverandi gul- og rauðröndótti búningurinn var tekinn upp árið 1927 og vísar til fána Katalóníu á Spáni til að sýna lýðveldissinnum í spænsku borgarastyrjöldinni samstöðu sína.

Liðið lék eitt tímabil í efstu deild árið 1946 en féll beina leið niður aftur. Það var ekki fyrr en 1980 sem það komst aftur í hóp hinna bestu og við tók gullaldarskeiðið í sögu félagsins. Það má rekja til þess að Tabaré Vázquez, síðar forseti Úrúgvæ, tók við stjórnarformennsku árið 1979. Heimavöllur félagsins var endurbyggður á árunum 1981-83.

Árið 1986 náði Progreso öðru sæti í úrúgvæsku deildinni á eftir Peñarol sem gaf keppnisrétt í Suður-Ameríkukeppninni Copa Libertadores árið eftir. Félagið varð úrúgvæskur meistari í fyrsta og eina sinn árið 1989, en keppnisfyrirkomulagið var mjög óvenjulegt það árið þar sem leikin var einföld umferð í fjórtán liða deild. Progreso vann níu leiki, gerði tvö jafntefli og tapaði aðeins einu sinni.

Eftir þetta sigurár tók að halla undan fæti hjá Progreso sem féll úr efstu deild árið 1995. Upp frá því hefur liðið flakkað milli efstu og næstefstu deildar og mest náð fjórum árum samfleytt í deild þeirra bestu.

Titlar[breyta | breyta frumkóða]

Úrúgvæskur meistari (1): 1989