Fara í innihald

Prayut Chan-o-cha

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Prayut Chan-o-cha
ประยุทธ์ จันทร์โอชา
Prayut árið 2018.
Forsætisráðherra Taílands
Í embætti
22. maí 2014 – 22. ágúst 2023
ÞjóðhöfðingiBhumibol Adulyadej
Maha Vajiralongkorn
ForveriNiwatthamrong Boonsongpaisan (starfandi)
EftirmaðurSrettha Thavisin
Persónulegar upplýsingar
Fæddur21. mars 1954 (1954-03-21) (70 ára)
Nakhon Ratchasima, Taílandi
StjórnmálaflokkurPalang Pracharat
MakiNaraporn Chan-o-cha
Börn2
HáskóliÞjóðarvarnarháskólinn,
Konunglegi Chulachomklao hernaðarháskólinn
Undirskrift

Prayut Chan-o-cha (taílenska: ประยุทธ์ จันทร์โอชา; f. 21. mars 1954) er taílenskur stjórnmálamaður og fyrrum hershöfðingi í taílenska hernum[1] sem var forsætisráðherra Taílands frá 2014 til 2023 og varnarmálaráðherra frá árinu 2019.[2] Prayut var hæstráðandi taílenska hersins frá 2010 til 2014[3][4] og komst til valda eftir herforingjabyltingu gegn borgaralegum stjórnvöldum Taílands árið 2014. Prayut leiddi herforingjastjórn sem réð yfir Taílandi fyrstu fimm valdaár sín en var síðan kjörinn forsætisráðherra borgaralegrar ríkisstjórnar eftir umdeildar þingkosningar árið 2019.

Prayut Chan-o-cha fæddist þann 21. mars 1954 í héraðinu Nakhon Ratchasima í norðausturhluta Taílands. Faðir hans var ofursti í taílenska hernum og móðir hans var skólakennari. Hann á tvo bræður og eina systur. Annar bróðir hans er hershöfðingi í taílenska hernum og systir hans er hershöfðingi í flugher landsins.[5]

Prayut hlaut grunnnám í Lop Buri og gekk í menntaskóla í Bangkok. Að loknu menntaskólanámi hóf hann undirbúningsnám í hernaðarfræðum árið 1971 og gekk síðan árið 1976 í Konunglega Chulachomklao-hernaðarháskólann. Að loknu námi þar hóf hann hernaðarferil sinn í 21. fótgönguliði hersins, sem gekk undir gælunafninu „drottningarverðirnir“.[5]

Hernaðarferill

[breyta | breyta frumkóða]

Prayut varð síðar aðstoðarforingi 2. fótgönguliðs hersins. Leiðtogar herdeildarinnar mynduðu áhrifamikla hreyfingu innan hersins sem kallaðist Burapha Phayak (ísl. „Austurtígrarnir“) og taldi meðal annars til sín hershöfðingjann Prawit Wongsuwan, sem varð síðar meðlimur í herforingjastjórn Prayuts.[5]

Árið 2003 var Prayut hækkaður í tign og gerður foringi 2. fótgönguliðsins. Tveimur árum síðar var hann gerður foringi fyrstu yfirherdildarinnar, sem telur til sín 2. fótgönguliðið. Að einu ári liðnu hlaut hann síðan foringjastöðu innan hersins í heild sinni. Hann var starfsmannastjóri konunglega taílenska hersins frá 2008 til 2009 og varð síðan hæstráðandi hersins árið 2010. Fjórum árum síðar leiddi Prayut valdarán gegn lýðræðislega kjörinni ríkisstjórn Taílands. Um var að ræða 21. valdaránið í sögu landsins.[5]

Stjórnmálaferill

[breyta | breyta frumkóða]

Valdaránið 2014

[breyta | breyta frumkóða]
Prayut Chan-o-cha, leiðtogi valdaránsins 2014.

Þann 22. maí 2014 leiddi Prayut Chan-o-cha blóðlaust valdarán gegn borgaralegum stjórnvöldum Taílands eftir sjö mánaða tímabil pólitískra óeirða. Í aðdraganda valdaránsins höfðu svokallaðir „gulstakkar“ staðið fyrir fjöldamótmælum í Bangkok gegn lýðræðislega kjörinni ríkisstjórn Yingluck Shinawatra forsætisráðherra.

Eftir valdaránið lofaði herforingjastjórnin nýjum þingkosningum en Prayut útnefndi engu að síður sjálfan sig forsætisráðherra þremur mánuðum síðar, þann 21. ágúst, og hélt embættinu án þess að vera kjörinn í tæp fimm ár. Eftir breytingar á stjórnarskrá landsins árið 2017 var ákveðið að þingkosningar skyldu haldnar þann 24. mars 2019, en að kosningaúrslitin yrðu þó ekki birt fyrr en eftir krýningu Vajiralongkorns Taílandskonungs þann 4. maí. Í aðdraganda kosninganna sagði Prayut af sér hershöfðingjatign og gerðist forsætisráðherraefni nýs stjórnmálaflokks, Palang Pracharat. Nýkjörið þing kom saman í fyrsta sinn þann 24. maí 2019, fimm árum eftir valdaránið.

Kjör til forsætisráðherra

[breyta | breyta frumkóða]

Þann 5. júní 2019 var Prayut formlega kjörinn forsætisráðherra Taílands með meirihluta atkvæða bæði á hinni þjóðkjörnu fulltrúadeild taílenska þingsins og á öldungadeildinni, þar sem þingmennirnir eru útnefndir af hernum.[6][7] Margir af ráðherrum í stjórn Prayuts voru fyrrum hershöfðingjar. Borgaraleg réttindi eru enn mjög takmörkuð í Taílandi undir stjórn hans og grannt er fylgst með stjórnarandstæðingum.[6]

Þann 19. september 2020 áttu sér stað fjöldamótmæli gegn stjórn Prayuts þar sem milljónir Taílendinga kröfðust afsagnar forsætisráðherrans.[8]

Stjórnlagadómstóll Taílands leysti Prayut tímabundið frá störfum þann 24. ágúst 2022 á meðan tekið var til athugunar hvort hann mætti gegna embætti forsætisráðherra lengur samkvæmt stjórnarskrá landsins. Samkvæmt stjórnarskrárbreytingum sem Prayut gerði árið 2017 má forsætisráðherra ekki sitja lengur en átta ár. Andstæðingar hans telja því að Prayut hafi farið yfir þessi tímamörk en Prayut og bandamenn hans telja að miða beri við við upp­töku nú­gildandi stjórnar­skrárinnar árið 2017 eða við kjör Prayuts sem forsætisráðherra borgaralegrar stjórnar árið 2019.[9] Þann 3. október komst stjórnlagadómstóll að þeirri niðurstöðu að Prayut mætti sitja áfram til ársins 2025.[10]

Prayut er jafnframt lagahöfundur og hefur samið átta lög frá því að hann varð leiðtogi Taílands árið 2014.[5]

Prayut er kvæntur Naraporn Chan-o-cha og á tvö börn.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Army chief retires after four turbulent years“. The Nation. 30. september 2014. Afrit af upprunalegu geymt þann 26 desember 2018. Sótt 22. nóvember 2014.
  2. „PM Enters Defence Ministry to Start his Concurrent Position as Defence Minister“. Thai News Agency. 30. júlí 2019. Sótt 3. ágúst 2019.[óvirkur tengill]
  3. Fredrickson, Terry (1. október 2010). „Gen Prayut takes command“. Bangkok Post. Sótt 19. mars 2012.
  4. Corben, Ron (1. október 2010). „Thailand's new army chief takes office“. Deutsche Welle. Afrit af uppruna á 22. maí 2014. Sótt 19. mars 2012.
  5. 5,0 5,1 5,2 5,3 5,4 „Prayut steps from solid ground to shaky one“. Thai PBS. 5. júní 2019. Sótt 4. mars 2021.
  6. 6,0 6,1 „Nouvelle disparition d'un critique du pouvoir thaïlandais en exil“ (franska). Le Monde. 10. júní 2020.
  7. „En Thaïlande, le chef de la junte militaire conserve son poste de premier ministre“. Le Monde. Sótt 4. mars 2021.
  8. „Des dizaines de milliers de manifestants à Bangkok, contre le gouvernement“. lepoint.fr. Le Point. 19. september 2020. Sótt 4. mars 2021.
  9. „For­sætis­ráð­herra Taí­lands settur af“. Fréttablaðið. 25. ágúst 2022. Sótt 17. september 2022.
  10. Atli Ísleifsson (3. október 2022). „Segja for­sætis­ráð­herrann mega sitja á­fram“. Vísir. Sótt 25. október 2022.


Fyrirrennari:
Niwatthamrong Boonsongpaisan
(starfandi)
Forsætisráðherra Taílands
(22. maí 201422. ágúst 2023)
Eftirmaður:
Srettha Thavisin