Bhumibol Adulyadej
| ||||
Bhumibol Adulyadej
ภูมิพลอดุลยเดช | ||||
Ríkisár | 9. júní 1946 – 13. október 2016 | |||
Skírnarnafn | Bhumibol Adulyadej | |||
Fæddur | 5. desember 1927 | |||
Cambridge, Massachusetts, Bandaríkjunum | ||||
Dáinn | 13. október 2016 (88 ára) | |||
Bangkok, Taílandi | ||||
Gröf | Wat Bowonniwet Vihara, Bangkok, Taílandi | |||
Undirskrift | ||||
Konungsfjölskyldan | ||||
Faðir | Mahidol Adulyadej | |||
Móðir | Srinagarindra | |||
Drottning | Sirikit | |||
Börn | Ubolratana, Maha Vajiralongkorn (Rama 10.), Sirindhorn, Chulabhorn |
Bhumibol Adulyadej (taílenska: ภูมิพลอดุลยเดช; 5. desember 1927 – 13. október 2016), kallaður Bhumibol hinn mikli frá árinu 1987 og einnig þekktur undir konungsheitinu Rama 9., var konungur Taílands frá 1946 til 2016. Þegar Bhumibol lést hafði hann verið við völd lengur en nokkur annar konungur í sögu Taílands og hafði skipað 30 forsætisráðherra á ferli sínum.
Frá árinu 2008 til 2013 taldi tímaritið Forbes Bhumibol sem ríkasta konung í heimi og mat eignir hans árið 2011 upp á rúma 30 milljarða Bandaríkjadollara.[1]
Frá árinu 2006 var Bhumibol heilsuveill og þurfti því oft að dvelja á Siriraj-sjúkrahúsinu í Bangkok, þar sem hann lést þann 13. október árið 2016. Bhumibol var mjög vinsæll og virtur meðal Taílendinga, svo mjög að í augum margra var hann nánast goðumlíkur.[2][3] Taílendingar sem gagnrýndu hann eða einveldið voru oft sendir í útlegð eða fangelsi, en þeir hlutu þó gjarnan konunglega náðun eða sakaruppgjöf eftir stutta fangavist.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Bhumibol fæddist árið 1927 í fylkinu Massachusetts í Bandaríkjunum, þar sem faðir hans, taílenski prinsinn Mahidol Adulyadej, var þá við nám í læknisfræði við Harvard-háskóla. Þess má geta að Bhumibol er eini konungurinn sem hefur fæðst í Bandaríkjunum.[4] Móðir hans, prinsessan Srinagarindra, flutti með börn sín heim til Taílands eftir að faðir þeirra lést árið 1929 en ákvað síðan að flytja með þau til Evrópu svo þau gætu hlotið vestræna menntun. Fjölskyldan settist að í Lausanne í Sviss árið 1933 og Bhumibol gekk þar í skólann École nouvelle de la Suisse romande.[2]
Árið 1946 fannst bróðir Bhumibols, konungurinn Ananda Mahidol, skotinn til bana í höll sinni í Bangkok. Dauði hans hefur aldrei verið fyllilega skýrður og ekki hefur verið skorið úr um hvort um hafi verið að ræða morð, sjálfsmorð eða slys. Vegna dauða Ananda var Bhumibol lýstur nýr konungur Taílands þann 9. júní 1946, þá aðeins átján ára gamall.[2] Hann var þó ekki formlega krýndur fyrr en tæpum fjórum árum síðar, þann 5. maí árið 1950. Stuttu fyrir krýningu sína kvæntist Bhumibol Sirikit, dóttur sendiherra Taílands í Frakklandi, sem hann hafði kynnst á árum sínum í Evrópu.
Valdatíð (1946-2016)
[breyta | breyta frumkóða]Þegar Bhumibol settist formlega á konungsstól í Taílandi árið 1950 var landið undir eiginlegri stjórn fasistans Plaek Pibulsonggrams, öðru nafni Phibuns. Phibun og herforingjastjórnin sem hann fór fyrir vildu auka sín eigin völd á kostnað konungsins og því einkenndust fyrstu ríkisár Bhumibols af valdabaráttu milli konungssinna og herforingjanna. Þetta breyttist árið 1957 þegar hermarskálkurinn Sarit Thanarat framdi valdarán gegn óvinsælli stjórn Phibuns og gerðist sjálfur forsætisráðherra. Ólíkt forvera sínum studdi Sarit við konungsveldið og nýtti sér vinsældir Bhumibols til þess að treysta eigin stjórn í sessi. Á valdaárum Sarits breyttist því samband hersins og konungsfjölskyldunnar: Herforingjar urðu nánustu bandamenn konungsins og herforingjastjórnir sem tóku ítrekað völdin í Taílandi gerðu það jafnan með velþóknun Bhumibols.[4]
Árið 1973 hófust fjöldamótmæli gegn herforingjastjórninni í Taílandi. Í fyrstu reyndi Bhumibol að skipa mótmælendunum að hafa sig hæga en eftir að lögreglan gerði árás á fjöldasamkomu mótmælenda fyrir utan konungshöllina í Bangkok breytti konungurinn um stefnu. Hann leysti Thanom Kittikachorn forsætisráðherra, eftirmann Sarits, frá störfum og sendi hann í útlegð til Singapúr.[5] Ótti við útbreiðslu kommúnismans til Taílands leiddi þó til þess að fáar eiginlegar breytingar í átt til lýðræðis voru gerðar næstu árin og árið 1976 bauð herinn loks Thanom að snúa aftur til Taílands með velþóknun Bhumibols. Endurkoma Thanoms vakti mikla reiði meðal taílenskra stúdenta og óeirðirnar leiddu til þess að herinn framdi fjöldamorð í nafni Bhumibols í Thammasat-háskóla þann 6. október 1976. Herforingjastjórn tók að nýju öll völd í sínar hendur og átti eftir að stjórna Taílandi næstu árin.
Árið 1992 átti Bhumibol þátt í því að koma á lýðræðislegri stjórn í Taílandi á ný. Eftir að blóðug átök brutust út milli mótmælenda og lögreglu í Bangkok kallaði Bhumibol forsætisráðherrann Suchinda Kraprayoon og leiðtoga stjórnarandstöðunnar, Chamlong Srimuang, á sinn fund og skipaði þeim að leysa deilur sínar á friðsaman hátt. Fundur þeirra var sýndur í beinni útsendingu á taílenskum sjónvarpsstöðvum svo almenningur gat séð bæði Suchinda og Chamlong krjúpa og bugta sig samkvæmt hirðreglum fyrir framan konunginn. Í kjölfarið sagði Suchinda af sér og kosningar voru haldnar. Þessi úrlausn leiddi þó ekki til langvarandi lýðræðis í Taílandi og á stjórnartíð Bhumibols átti herinn aftur eftir að ræna völdum árin 2006 og 2014.
Bhumibol lést árið 2016 eftir langvarandi veikindi. Hann hafði verið konungur Taílands í um sjötíu ár og hafði ríkt lengur en nokkur annar konungur Taílands og lengst allra þálifandi þjóðhöfðingja í heimi þegar hann dó. Sonur Bhumibols, krónprinsinn Maha Vajiralongkorn, varð nýr konungur Taílands en bað þó um að fá að syrgja föður sinn í eitt ár áður en hann tæki sjálfur við völdum.[6]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Konungurinn sem ríkt hafði lengst allra kveður“. Dagblaðið Vísir. 14. október 2016. Sótt 16. febrúar 2019.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 „Bhumibol konungur og hans slekti“. Dagur. 15. febrúar 1997. Sótt 16. febrúar 2019.
- ↑ „Trúin er snar þáttur í lífi Taílendinga“. Lesbók Morgunblaðsins. 13. mars 1999. Sótt 16. febrúar 2019.
- ↑ 4,0 4,1 Vera Illugadóttir. „Bhumibol Taílandskonungur“. RÚV. Sótt 16. febrúar 2019.
- ↑ Rosario, Prizzia (1985). Thailand in transition: the role of oppositional forces. University of Hawaii Press.
- ↑ „Biðtími krónprinsins teygist á langinn“. Fréttablaðið. 19. október 2016. Sótt 16. febrúar 2019.
Fyrirrennari: Ananda Mahidol |
|
Eftirmaður: Maha Vajiralongkorn |