Policarpa Salavarrieta
Policarpa Salavarrieta | |
---|---|
Fædd | 26. janúar 1795 |
Dáin | 14. nóvember 1817 (22 ára) |
Störf | Saumakona, njósnari |
Trú | Kaþólsk |
Foreldrar | Joaquín Salavarrieta Mariana de Ríos |
Policarpa Salavarrieta Ríos (26. janúar 1795 – 14. nóvember 1817), einnig þekkt undir nafninu La Pola, var nýgranadísk saumakona sem njósnaði fyrir ameríska byltingarmenn um hersveitir spænska heimsveldisins á 19. öld. Spænskir konungssinnar handsömuðu hana að lokum og létu taka hana af lífi fyrir landráð. Hún er í dag talin meðal sjálfstæðishetja Kólumbíu og kólumbíski konudagurinn er tileinkaður henni.
Þar sem fæðingarvottorð hennar hefur aldrei fundist er óvíst hvert skírnarnafn hennar var. Faðir hennar kallaði hana Apoloniu í erfðaskrá sinni og presturinn Salvador Contreras, sem lögfesti hana þann 13. desember 1802, staðfesti þá nafngift.[1] Nánasti ættingi hennar var bróðir hennar, Bibiano, þar sem hún hafði tekið hann í gæslu sína eftir að foreldrar þeirra létust. Þegar hersveitir í Guaduas fóru að leita að henni tók hún upp viðurnefnið Policarpa.
Í fölsuðu vegabréfi sem Policarpa notaði til þess að komast inn og út úr Bogotá árið 1817 notaði hún nafnið „Gregoria Apolinaria“. Andrea Ricaurte de Lozano, sem Policarpa bjó með og vann fyrir í Bogotá, og skæruliðaforinginn Ambrosio Almeyda, kölluðu hana einnig þessu nafni. Samtímamenn hennar kölluðu hana einfaldlega La Pola, en hún er þekktust í dag undir nafninu Policarpa Salavarrieta.
Fæðingardagur og -staður
[breyta | breyta frumkóða]Þar sem engar skriflegar heimildir eru til um fæðingardag og -stað La Pola er margt á huldu um uppruna hennar. Útbreiddasta útgáfan af sögu hennar er sú að hún hafi fæðst í Guaduas í fylkinu Cundinamarca á milli 1790 og 1796. Skáldið Rafael Pombo hélt því hins vegar fram að hún hefði fæðst í Mariquite og José Caicedo Rojas hélt því fram að hún hefði fæðst í Bogotá.
Hægt er að geta sér til um hvar og hvenær hún fæddist út frá heimildum um fæðingu systkina hennar, sem hafa varðveist. Systkini hennar voru:
- María Ignacia Clara, fædd í sókninni San Miguel í Guaduas þann 12. ágúst á árabilinu 1789 til 1802.
- José María de los Ángeles, skírður í Guaduas þann 12. ágúst árið 1790, sem síðar varð ábóti í Ágústínusarreglunni.
- Catarina, fædd í Guaduas árið 1791.
- Eduardo, fæddur í Guaduas þann 3. nóvember 1792 – 1802
- Manuel, fæddur í Guaduas þann 26. maí 1796, sem einnig varð ábóti í Ágústínusarreglunni.
- Francisco Antonio, fæddur í sókninni Santa Bárbara í Bogotá þann 26. september 1798.
- Ramón, fermdur í Bogotá árið 1800
- Bibiano, skírður í Bogotá, 1801.[2]
Miðað við þessar ættarskrár og þá vitneskju að Policarpa fæddist á milli ábótanna tveggja úr systkinahópnum má slá því föstu að hún hafi fæðst á milli 1791 og 1796. Heimildirnar benda einnig til þess að Salavarrieta-ættin hafi búið í Guaduas og flutt til Bogotá eftir að Manuel fæddist árið 1796.
Til þess að breiða yfir misræmin milli frásagnanna úrskurðaði Sagnfræðiakademía Kólumbíu opinberlega þann 10. september árið 1991 að La Pola hefði fæðst í Guaduas.[3]
Æska og uppvöxtur
[breyta | breyta frumkóða]Fjölskylda Policörpu virðist hafa verið virt og sæmilega efnuð þrátt fyrir að hafa ekki verið öðluð. Þetta má ráða af æskuheimili Policörpu í Guaduas, sem er í dag notað sem safn. Salavarrieta Ríos-fjölskyldan flutti til Bogotá á milli 1796 og 1798 og bjó þar í litlu húsi í hverfinu Santa Bárbara.
Árið 1802 braust út bólusóttarfaraldur í höfuðborginni og varð þúsundum manna að bana, þar á meðal foreldrum Policörpu og systkinum hennar, Eduardo og Maríu Ignaciu. Eftir harmleikinn sundraðist fjölskyldan: José María og Manuel gengu til liðs við Ágústínusarregluna og Ramón og Francisco Antonio fluttust til Tena, þar sem þeir hófu störf á plantekru. Catarína, elsta eftirlifandi barnið, ákvað að flytjast aftur til Guaduas í kringum 1804 og tók yngri systkinin Policörpu og Bibiano með sér. Þar bjuggu þau í húsi guðmóður sinnar, Margaritu Beltrán, og frænku sinnar, Manuelu, þar til Catarina giftist manni að nafni Domingo García og tók systkini sín með sér á heimili hans.
Fáar heimildir eru til um þetta skeið í lífi Policörpu. Vitað er að hún vann fyrir sér sem saumakona og talið er að hún hafi einnig unnið sem kennari í almenningsskóla. Á þessum tíma var Guaduas mikilvægur áningarstaður á mikilvægasta veginum í gegnum Nýju-Granada, sem lá frá Bogotá til Magdalenufljótsins sem rann út í Karíbahaf og tengdi höfuðborgina við norðurhluta landsins. Hermenn, aðalsfólk, listamenn, bændur, uppreisnarmenn, Spánverjar og Granadamenn af öllum sauðahúsum lögðu leið sína í gegnum Guaduas og því var bærinn bæði verslunar- og upplýsingamiðstöð. Þegar stríð braust út gegn spænskum yfirráðum gekk fjölskylda Policörpu til liðs við uppreisnarmenn. Tengdabróðir hennar, Domingo García, lést í bardaga ásamt Antonio Nariño í herferð sjálfstæðissinna í suðurhluta landsins, þar sem bróðir hennar, Bibiano, barðist einnig.[4]
Eftir að sjálfstæðisstríðið braust út flúðu varakonungurinn Antonio José Amar y Borbón og eiginkona hans, María Francisca Villanová, frá höfuðborginni. Samkvæmt kólumbískri þjóðsögu áðu þau í Guaduas, þar sem sagt er að María Francisca Villanová hafi vitjað Policörpu í húsi hennar og spáð fyrir um framtíð og dauða hennar.
Byltingarferill
[breyta | breyta frumkóða]Policarpa virðist ekki hafa haft afskipti af stjórnmálum fyrr en árið 1810, en þegar hún fluttist aftur til Bogotá árið 1817 var hún orðin virkur þátttakandi í byltingarstarfseminni. Þar sem Bogotá var eitt helsta vígi spænskra konungssinna, sem höfðu endurheimt mikið land í Ameríku eftir að Napóleonsstyrjöldunum lauk í Evrópu, var mjög erfitt að komast inn og út úr borginni. Policarpa komst inn í borgina ásamt Bibiano bróður sínum með fölsuðum skilríkjum og með meðmælabréfum frá byltingarleiðtogunum Ambrosio Almeyda og José Rodríguez. Þeir mæltu með því að Policaroa skyldi setjast að ásamt bróður sínum í húsi Andreu Ricaurte y Lozano og þykjast þar vera vinnufólk hennar. Í rauninni var hús Andreu Ricaurte upplýsinga- og andspyrnumiðstöð í höfuðborginni.
Alkunna var í Guaduas að Policarpa væri byltingarkona en þar sem hún var óþekkt í Bogotá gat hún ferðast um óáreitt og fundað með öðrum sjálfstæðissinnum og njósnurum án þess að vekja grundsemdir. Hún gat einnig brotist inn á heimili konungssinna. Policarpa bauð eiginkonum og dætrum spænskra hermanna þjónustu sína sem saumakona og gat þannig hlerað á trúnaðarsamtöl, stolið kortum og áætlunum, borið kennsl á foringja konungssinnanna og komist á snoðir um hverjir lágu undir grun um að vera byltingarmenn á meðan hún saumaði og þræddi föt á heimilum þeirra.
Policarpa sá einnig um að fá unga menn til liðs við byltinguna með hjálp bróður síns. Saman tókst þeim að auka við mannaflann sem uppreisnin í Cundinamarca sárþarfnaðist.
Handtaka
[breyta | breyta frumkóða]Njósnastarfsemi Policörpu gekk vel þar til Almeyda-bræðurnir voru handteknir með mikilvæg skjöl á leiðinni til uppreisnarmanna fyrir utan Bogotá. Í skjölunum komst upp um að La Pola væri tengd byltingunni. Í þeim var tilgreint að La Pola hefði hjálpað liðhlaupum úr spænska konungshernum að ganga til liðs við byltinguna, flutt vopn, skotfæri og birgðir til byltingarmanna, hjálpað Almeyda-bræðrunum að sleppa úr fangelsi þegar þeir höfðu verið handteknir í september sama ár og fundið skýli handa þeim í Manchetá. Konungssinnarnir grunuðu Policörpu nú um landráð, en höfðu enn engin föst sönnunargögn til að handtaka hana.
Þegar Alejo Sabaraín, kærasti Policörpu, var handtekinn á flótta til Casanare fengu konungssinnarnir ástæðu til að handtaka Policörpu því Sabaraín hafði undir höndum lista yfir konungssinna og sjálfstæðissinna sem Policarpa hafði gefið honum. Liðþjálfanum Iglesias, helsta foringja Spánverja í Bogotá, var falið að finna og handtaka hana. Policarpa Salavarrieta og bróðir hennar voru bæði handtekin á heimili Andreu Ricaurte y Lozano og flutt í varðhald í háskóla borgarinnar, sem hafði verið breytt í fangelsi til bráðabirgða.
Réttarhöld og aftaka
[breyta | breyta frumkóða]Policarpa var tekin fyrir spænsku stríðsnefndina og dæmd til aftöku fyrir framan skotsveit þann 10. nóvember 1817 ásamt Alejo og sex öðrum.[5]
Ákveðið var að aftakan skyldi fara fram morguninn 14. nóvember. La Pola var leidd út í dauðann með hendurnar bundnar af verði og tveimur prestum. Í stað þess að endurtaka bænirnar sem prestarnir þuldu bölvaði hún Spánverjunum í sand og ösku og spáði þeim ósigri í byltingunni. Sagt er að La Pola hafi bölvað Spánverjunum án afláts alla nóttina fyrir aftökuna. Eitt sinn þagnaði hún af þorsta og þreytu og einn vörðurinn bauð henni vínglas. Hún kastaði glasinu aftur að vörðunum og hrópaði: „Ég myndi ekki einu sinni þiggja vatnsglas af óvinum mínum!“.
Þegar La Pola var leidd fram á aftökupallinn var henni gert að snúa við baki eins og svikara sæmdi. Þegar hún var leidd til aftökunnar stappaði hún stáli í hina fangana og hellti sér yfir fangaverðina. Policapa neitaði að krjúpa fyrir skotliðinu og öskraði: „Ég hef nægilega dirfsku til að þola þennan dauða og þúsund í viðbót. Gleymið ekki fordæmi mínu.“ Þegar aftökusveitin hóf skothríð sína sneri La Pola sér við til að horfa framan í böðlana.
Gengið var með lík Alejo og hinna sex fanganna um götur Bogotá líkt og hefð var til þess að hræða hugsanlega uppreisnarmenn. Þar sem La Pola var kona var henni hlíft við þessari svívirðingu. Bræður hennar, ábótarnir José Maria de Los Ángeles og Manuel Salavarrieta, lögðu hald á lík hennar og veittu henni kristna útför í San Agustín-kirkjunni í hverfinu La Candelaria.[6]
Minning
[breyta | breyta frumkóða]Kólumbíski konudagurinn
[breyta | breyta frumkóða]Þann 8. nóvember árið 1967 undirritaði Carlos Lleras Restrepo, forseti Kólumbíu, lagafrumvarp sem lýsti því yfir að 14. nóvember skyldi vera kólumbíski konudagurinn og að dagurinn væri valinn til að heiðra dauða „hetju okkar, Policörpu Salavarrieta“.[7][8]
Kólumbískir gjaldmiðlar
[breyta | breyta frumkóða]Myndir af Policörpu Salavarrieta hafa oft verið á kólumbískum pesum í gegnum árin. Þótt margar kvenímyndir eða goðsagnapersónur hafi lengi verið á seðlunum var Policarpa lengi eina sögulega konan sem birtist á gjaldmiðlinum. Aðrar kvenpersónur sem höfðu birtst voru meðal annars tákngyðja frelsisins, holdgervingur réttlætisins og ónefnd frumbyggjakona sem átti að tákna allar frumbyggjaþjóðir Kólumbíu. Nýlega hefur persónan María úr samnefndri skáldsögu eftir Jorge Isaacs einnig birst ásamt höfundinum. Eini seðillinn með Policörpu sem enn er í notkun er 10.000 pesa seðillinn.
Frímerki
[breyta | breyta frumkóða]Á 100 ára sjálfstæðisafmæli Kólumbíu árið 1910 lét kólumbíska þingið gefa út frímerki með myndum af ýmsum sjálfstæðishetjum Suður-Ameríku, meðal annars Policörpu Salavarrieta, Simón Bolívar, Francisco de Paula Santander, Camilo Torres Tenorio og fleirum.[9] Frá 1903 til 1904 lét fylkið Antioquia prenta blá þriggja pesa frímerki með myndum af Policörpu.
-
1 pesa minningarfrímerki (1910)
-
3 pesa frímerki frá Antioquia (1903–04)
-
La Pola, 1910 eftir Dionisio Cortés Mesa. Bogotá.
Í dægurmenningu
[breyta | breyta frumkóða]- Leikkonan Carolina Ramírez fór með hlutverk Salavarrieta í La Pola, sjónvarpsmynd sem sýnd var árið 2010 til að fagna 200 ára sjálfstæðisafmæli Kólumbíu. Söguþráður myndarinnar er sannsögulegur en skáldað var í eyðurnar á rómantískum köflum myndarinnar. Myndin fékk góðar viðtökur og var talin ein besta kólumbíska eða spænska sjónvarpsmyndin árið 2010.[10][11][12]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Erfðaskrá Joaquin Salavarrieta, til dr. D. Salvador Contreras, ritað af Pedro Joaquín Maldonado, 1802, “Archivo General de la Nación”, möppur 229v. til 231v og 289r til 291v.
- ↑ Bindi XII af “Boletín de Historia y Antigüedades”
- ↑ „Policarpa Salavarrieta“ (spænska). Þjóðminjasafn Kólumbíu. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. september 2007. Sótt 16. júlí 2019.
- ↑ „Salavarrieta, Policarpa“ (spænska). Gran Enciclopedia de Colombia. Sótt 21. nóvember 2019.
- ↑ Arismendi Posada, Ignacio; Gobernantes Colombianos; Interprint Editors Ltd.; Italgraf; Segunda Edición; bls. 51; Bogotá, Colombia; 1983.
- ↑ „Cronología de Policarpa Salavarrieta (Chronology of Policarpa Salavarrieta)“ (spænska). Þjóðminjasafn Kólumbíu. Sótt 17. júlí 2019.
- ↑ (spænska). Guaduas https://web.archive.org/web/20071009170310/http://www.villadeguaduas.gov.co/index.php?m1=noticias&m2=det&m3=211. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. október 2007. Sótt 17. júlí 2019.
{{cite web}}
:|title=
vantar (hjálp) - ↑ „Las Mujeres en el desarrollo de Colombia“ (spænska). Þjóðarfloti Kólumbíu.
- ↑ Lyons, James H. (1914). „Columbian Republic“. The Commemorative Stamps of the World. Boston: The New England stamp company. bls. 47–48. OCLC 4753997. Sótt 14. nóvember 2008.
- ↑ „Mention of the Telenovela“.
- ↑ „La_Pola_entrada - Vídeo Dailymotion“ (enska). Dailymotion. Sótt 17. júlí 2019.
- ↑ „La Pola – Capitulo 98 Final“ (enska). El cartel TV. 13. desember 2017. Sótt 17. júlí 2019.
Ítarefni
[breyta | breyta frumkóða]- Adams, Jerome R. (1995). „8, La Pola“. Notable Latin American Women. Jefferson, North Carolina: McFarland & Company. bls. 75–82. ISBN 978-0-7864-0022-5. OCLC 31328416. Sótt 14. nóvember 2008.
- Simms, William Gilmore. "The Story of the Maid of Bogota." In Southward Ho! A Spell of Sunshine, 36-58. New York: A.C. Armstrong & Son, 1854.
- Henderson, Linda Roddy; Henderson, James (1978). Ten notable women of Latin America.