Fara í innihald

Plóma

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Plómur)
Plóma

Vísindaleg flokkun
Ríki: Plantae
Fylking: Dulfrævingar
Flokkur: Tvíkímblöðungar
Ættbálkur: Rósabálkur
Ætt: Rósaætt
Ættkvísl: Prunus
Undirættkvísl: Amygdalus
Tegund:
P. prunus

Tvínefni
Prunus prunus
(L.) Batsch
Kirsuberjaplómur eru þessar týpísku plómur í íslenskum matvöruverslunum
Kirsuberjaplómur eru þessar týpísku plómur í íslenskum matvöruverslunum

Plóma (fræðiheiti Prunus prunus) eru fremur lítil aldin af ferskjuætt (Prunus). Þær eru upprunnar í Asíu og er talið að þær hafi verið ræktaðar í Hengigörðunum frægu í Babýlon. Þær bárust snemma vestur á bóginn um Sýrland til Grikklands og Rómaveldis. Forngríska nafnið proumnon er líklega komið úr einhverju austrænu tungumáli og úr því urðu til heiti eins og sveskja (e. prune) og önnur skyld en í germönskum málum breyttist pr-hljóðið í pl- (plum, pflaume) og raunar í bl- í dönsku (blomme). Á íslensku hefur ávöxturinn verið nefndur plóma.

Til eru mörg og ólík afbrigði, sum oftast borðuð eins og þau koma fyrir, önnur oftast höfð í grauta og bökur eða til sultugerðar. Damson eru t.d. dökkar, evrópskar plómur, yfirleitt fremur litlar og ílangar, kenndar við borgina Damaskus í Sýrlandi, sem yfirleitt eru ekki borðaðar hráar en henta hins vegar mjög vel í sultu. Annars má borða flest plómuafbrigði fersk. Grænar plómur (greengages) eru sætar og ljúffengar og eru borðaðar ferskar eða hafðar í sultur og bökur. Mirabelle er lítil, gul plóma sem er notuð í grauta og sultur, svo og í líkjör. Quetsche er dökk, ílöng og safarík plóma, ættuð frá Elsass; nafnið er skylt orðinu sveskja. Hún er einkum notuð í bökur, sultur og áfenga drykki. Sloe er lítil og dökk, mjög beisk og aldrei borðuð hrá, heldur notuð til sultugerðar og til að bragðbæta gin. Bullace eru svipaðar damson-plómum en ekki eins súrar. Tvær síðastnefndu tegundirnar eru einkum tíndar villtar.

Fullþroskaðar plómur eru mjúkar viðkomu en þó þéttar og best er að þær hafi á sér gráleita slikju (blóma). Ekki ætti að kaupa plómur sem eru linkulegar eða hrukkaðar. Ef á að sjóða þær þurfa þær ekki að vera alveg fullþroskaðar. Ef steinarnir eru soðnir eða bakaðir með plómunum gefa þeir frá sér möndlubragð. Plómur fást einnig niðursoðnar, svo og þurrkaðar (sveskjur). Austurlenskar, saltaðar plómur (umeboshi, pickled plums) eru í rauninni alls ekki plómur.

Margir undrast að enskur plum pudding (jólabúðingur) og plum cake skuli ekki innihalda neinar plómur, ekki einu sinni sveskjur, en svo var þó áður. Á sextándu og sautjándu öld var farið að nota rúsínur í auknum mæli í staðinn fyrir sveskjur og smám saman hurfu þær úr kökum og búðingum en nöfnin héldu sér.

Plómur innihalda A-vítamín, trefjar og ýmis steinefni en hitaeiningainnihald þeirra er afar misjafnt eftir tegundum.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.