Panique en Atlantique

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Panique en Atlantique (Íslenska Uppnám á Atlantshafi) er sjötta bókin í ritröðinni Sérstakt ævintýri um Sval... (franska Série Le Spirou de…) þar sem ýmsir listamenn fá að spreyta sig á að semja ævintýri um Sval og Val, sem þó teljast ekki hluti hinnar opinberu ritraðar. Bókin kom út árið 2010. Höfundur sögunnar er Frakkinn Lewis Trondheim en Fabrice Parme teiknaði. Bókin hefur enn ekki komið út á íslensku.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Sagan hefst á Moustic-hótelinu þar sem vikapilturinn Svalur lendir í klandri vegna Pésa. Honum býðst þó starf á skemmtiferðaskipi og hyggst skilja gæluíkornann eftir heima hjá blaðasnápnum Val. Pési smyglar sér þó um borð og það sama gerir Valur, sem er á höttunum eftir frétt um fræga kvikmyndastjörnu.

Um borð hitta þeir Sveppagreifann sem falið hefur verið að rannsaka hvers vegna annað farþegaskip sama skipafélags hafi horfið sporlaust viku fyrr, með uppfinningamanninn Prófessor Sprtschk innanborðs.

Sveppagreifinn sýnir Sval nýjustu uppfinningu Sprtschk, sem er varnarbúnaður gegn árekstrum. Fái notandi búnaðarins á sig minnsta högg verður hann þegar umlukinn höggheldri kúlu. Bæði farþegaskipin eru búin slíkum búnaði til að verjast ísjökum,. Félagarnir uppgötva að kúlan flýtur ekki á vatni og uppgötva hitt skipið hljóti að hafa sokkið eins og stein. Áður en þeir ná að slökkva á búnaðinum siglir skip þeirra inn í Þanghafið og sekkur til botns.

Upplausnarástand verður um borð í skipinu þar sem skipsstjórnendur berjast um völdin og farþegar hamstra matvæli. Svalur og Valur uppgötva að hitt farþegaskipið er nálægt og með uppfinningu Sveppagreifans að vopni, byssu sem breytir vökva í ís, tekst þeim að bjarga öllum úr því skipi yfir í sína kúlu.

Prófessor Sprtschk og Sveppagreifinn brjóta ákaft heilann um mögulega lausn á vandanum á meðan upplausnin um borð eykst jafnt og þétt. Að lokum nær Svalur með hjálp ísbyssunnar að koma báðum skipum upp á yfirborðið og sögunni lýkur.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Lewis Trondheim einsetti sér að fanga anda elstu sagna Franquins um Sval. Söguþráðurinn og framvindan er ærslafengin og fléttan ekki raunsæisleg.
  • Prófessor Sprtschk kom við sögu í bókinni Le voyageur du Mésozoïque. Þar var persona hans étin af risaeðlu eftir að hafa varið öllum sínum tíma í að upphugsa gerð kjarnorkusprengju. Í sögunni er vísað til þessa þar sem prófessorinn eyðir tímanum í að þróa kjarnasprengjur í stað þess að finna leiðir til bjargar.