Pýramídaritin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Pýramídarit úr pýramída Tetis 1..

Pýramídaritin eru fornegypsk trúarrit á gamalegypsku frá tímum Gamla ríkisins. Þau voru rituð á veggi grafhýsa og steinkistur í Sakkara. Þau elstu eru frá um 2400-2300 f.Kr. Ólíkt Kisturitunum og Dauðrabókinni voru Pýramídaritin ekki myndskreytt. Ávörpin snúast um varðveislu líkamsleifa faraósins, upprisu hans og himnaför.

Pýramídaritin voru uppgötvuð af Gaston Maspero árið 1881. Það elsta inniheldur 228 ávörp og er úr Únaspýramídanum frá fimmtu konungsættinni.

Uppgötvun[breyta | breyta frumkóða]

Pýramídatextarnir hafa fundist í um ellefu mismunandi pýramídum í Sakkara. Elstu Pýramídatextarnir fundust  í pýramída faraósins Unas af fimmtu konungsætt, sem ríkti á tímabilinu um 2353-2323 f.Kr. Sá texti fannst á níunda áratug nítjándu aldar.[1]

Það var franski fornleifafræðingurinn Gaston Maspero sem fyrst uppgötvaði Pýramídatextana í pýramída Pepis 1. faraós af sjöttu konungsættinni, í Sakkara. Maspero fann síðan annan pýramída í um kílómetra fjarlægð frá pýramída Pepi 1. Sá pýramídi var talinn byggður fyrir Merenre faraó, afkomanda Pepis 1., og í honum mátti finna sömu híeróglýfurnar og ristar höfðu verið á veggi pýramída Pepis 1. Á næstu árum hélt Maspero leiðangri sínum um Sakkara áfram og fann fleiri sambærilega texta í pýramídum faraóanna Unass, Tetis og Pepis 2.[1]

Árið 1894 gaf Maspero út fyrstu þýðinguna á Pýramídaritunum á frönsku undir heitinu Les inscriptions des pyramides de Saqqarah. Á næstu áratugum voru textarnir þýddir á hin ýmsu tungumál, svo sem þýsku og ensku[1]. Það var þó hægara sagt en gert að þýða textana, enda hafði enginn skilið hið dularfulla letur Forn-Egypta fyrr en um 1822 e.Kr. Myndletur Forn-Egypta var notað með dálitlum breytingum í um 3.500 ár, því afar fornt og torskilið mál sem menn eru enn að reyna að ráða í.[2]

Tilgangur[breyta | breyta frumkóða]

Pýramídatextarnir voru eins konar þulur til að forða hinum látna frá drungalegum örlögum í undirheimum.[3] Þeir átt u að hjálpa hinum látnu að komast til handanheima og verða guð eða svokallað akh.[1]

Pýramídatextunum er gjarna skipt í tvo flokka; helgitexta og persónulega  texta.[1]

Helgitextarnir voru þuldir upp af prestum við greftrunarathöfn hins látna. Textarnir voru í annarri persónu og fjölluðu gjarna um fórnir eða gáfu leiðbeiningar fyrir hinn látna.  [1] Þetta eru afar fornir textar og vísbendingar um að þá megi rekja allt til annarrar og þriðju konungsættar Forn-Egypta. Textarnir voru jafnvel til staðar löngu áður en þeir voru fyrst ritaðir niður,[2]

Persónulegu textarnir höfðu það hlutverk að vísa hinum látnu leiðina út úr grafhýsinu og í betra líf. Persónulegu textarnir samanstanda af þremur þáttum; veitingu, umbreytingu og verndun. Veitingartextarnir fjalla um að hinn látni hafi stjórn á eigin fæðu og birgðum og fái að nærast á guðunum. Umbreytingartextarnir fjalla um umbreytingu hins látna í svokallaðan Akh, eða guð. Veitingar- og umbreytingartextarnir eru stór hluti af ritsafni Pýramídatextanna. Verndunartextarnir eru stuttar þulur til að verja lík hins látna og grafhýsi fyrir utanaðkomandi ógnum. Ætla má að verndunartextarnir séu með elstu Pýramídatextunum miðað við rithátt þeirra.[1]

Pýramídatextarnir voru gjarna þuldir upp og oftast ritaðir í fyrstu persónu. Þeir innihéldu oft sagnorð á borð við „fljúga“ og „stökkva“ til að leggja áherslu á ferðalag hins látna til lífsins eftir dauðann. Einnig mátti finna fyrirbæri sem hjálpa áttu hinum látna á ferðalagi sínu, svo sem stiga og rampa. Oft mátti finna upplýsingar um afrek faraóanna í textunum eða framlag þeirra til egypsku þjóðarinnar. Auk þess að leiðbeina hinum látnu til handanheima var pýramídatextunum einnig ætlað að fullvissa eftirlifendur um að hinn látni væri hólpinn á ferðalagi sínu.[1]

Dæmi[breyta | breyta frumkóða]

Pýramídatextarnir hafa að geyma um 759 texta. Ritsafnið er dreift um hina ýmsu pýramída faraóanna, en til að mynda er að finna 283 texta í pýramída Unasar. [1] Hér á eftir eru nokkur dæmi úr Pýramídatextunum.

Bæn til konungsins um að rísa upp[breyta | breyta frumkóða]

Pýramídatexti nr. 373 Þessi texti fannst í pýramída Teti faraós. Efni textans var að leiða hinn látna út úr grafhýsinu og til handanheima[1] Hér er ljóðinu snarað lauslega yfir á íslensku:

Óó! Óó!
          Rís upp, Ó Teti konungur,
Taktu aftur höfuð þitt,
           Safna saman beinum þínum,
Náðu í limi þína,
           hristu jörðina úr holdi þér;
Fáðu fæðu þína sem ei úldnar,
           drykk þinn sem ei súrnar.
Þú skalt standa við hliðið sem heldur frá hinum dauðlegu,
           Og Khentymenutef skal koma til þín,
Taka í hönd þína
           og fara með þig til himins, til Geb, föður þíns.
Og Geb mun fagna komu þinni,
og hann mun rétta arma sina mót þér,
Og  kyssa þig,
           og faðma þig,
Og hann mun setja þig fremstan umbreyttra anda,
           og óafmáanlegra stjarna,
                     og úr leyndum sætum sínum munu þau lofsama þig.
Hinn Mikli kvað þau þjóna þér,
           vernarguðirnir standa vörð,
Bygg er mulið,
           og hveiti uppskorið fyrir þig,
Borið fram í mánaðarlegum veislum þínum,
           borið fram í miðmánaðar veislum þínum –
Allt að skipun föður þíns, Geb.
           Rís upp, Teti konungur! Þú hefur ei dáið!

[2]

Mannætuljóðið[breyta | breyta frumkóða]

Pýramídatexti nr. 273 og 274

Textinn birtist fyrst í pýramída faraósins Unas af fimmtu konungsætt, sem ríkti um 2350 – 2325 f.Kr. Ljóðið hefur fundist í fleiri pýramídum, svo sem pýramída Teti faraós. Síðar fór að bera á Mannætuljóðinu í Líkkisturitunum. Ljóðið fjallar um ferðalag hins látna faraós til handanheima, þar sem hann fær að borða guðina og verður þannig einn af þeim. Ljóðið hefur þótt villimannlegt í hugum margra nútímamanna enda er þar að finna óhugnanlega lýsingu á því hvernig faraó sker og grillar innyfli guðanna.[1] Hér á eftir koma fyrstu tvö erindi ljóðsins í lauslegri þýðingu:

Ský þekja himin, stjörnurnar eru huldar
Hvelfingar himna skjálfa, bein jarðar nötra
Plánetur eru hljóðnaðar
Er þau sjá Unas rísa sem sál
Sem guð er lifir á feðrum sínum, nærist á mæðrum sínum...
Því Unas er eignuð kænska, hvers móðir eigi nafn hans þekkir.
Ættgöfgi Unasar er á himnum, máttur hans er í sjóndeildarhringnum,
Líkt og Atum, faðir hans, verndari hans,
hann feðraði hann, hann er sterkari en hann,
Andar Unasar umkringja hann, kvenandarnir eru undir fótum hans
Guðir hans eru yfir honum, snákar hans á höfuðfati hans,
Aðalsnákur Unasar er á enni hans – sá sem sér inn í sálina, eitraður Uraeus
Háls Unasar er á sínum rétta stað.
Því Unas er naut himins, sem brennur í hjarta sér og lifir á tilveru allra guða,
Sem nærist á innyflum þeirra, er þeir koma með  líkama fulla af töfrum frá Eyju eldsins.[4]

Ferðalag hins látna til himins[breyta | breyta frumkóða]

Pýramídatexti 467

Þessi texti fannst í tveimur pýramídum. Einhverjum hefur þótt textinn óviðeigandi því í pýramída Pepis fannst sambærilegur texti þar sem engisprettunni hafði verið skipt út fyrir sólarguðinn.[3]

Hann flýgur flýgur! Hann flýgur brott frá yður, menn,
Hann er ei lengur á jörðu, hann er á himni,
Þér borgarguð, yðar akh er hjá þér,
Hann þeytist um himininn sem hegri, hann hefir kysst himininn sem fálki, hann hefir stokkið til flugs sem engispretta.[3]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,00 1,01 1,02 1,03 1,04 1,05 1,06 1,07 1,08 1,09 1,10 „Pyramid Texts“, Wikipedia (enska), 7. mars 2020, sótt 29. mars 2020
  2. 2,0 2,1 2,2 Foster, J.L. (2001). Ancient Egyptian literature: an anthology. University of Texas Press.
  3. 3,0 3,1 3,2 Erman, Adolf. (1966). The ancient Egyptians: a sourcebook of their writings. Harper & Row.
  4. Wilkinson, T. (2016). Writings From Ancient Egypt. Penquin.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]