Fara í innihald

Pólstjarnan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ljósmynd tekin á löngum tíma sem sýnir hvernig Pólstjarnan situr föst á norðurhimninum meðan aðrar stjörnur virðast hverfast um hana

Pólstjarnan eða Norðurstjarnan (latína: Polaris, Bayer-kenni: α Ursae Minoris) er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Litlabirni (Ursa Minor). Hún er mjög nálægt himinskauti norðurhvels jarðar og er því höfð fyrir pólstjörnu á norðurhimninum.

Pólstjarnan er í raun fjölstirni gert úr meginstjörnunni α UMi Aa, tveimur minni stjörnum, α UMi B og α UMi Ab, og tveimur fjarlægari stjörnum α UMi C og α UMi D. α UMi Aa er reginstirni í litrófsflokki F7 með sólmassann 4,5. Hún er talin vera í 325-425 ljósára fjarlægð frá jörðu.

Vegna þess hve Pólstjarnan liggur nærri himinskautinu á norðurhveli jarðar er sýndarstaða hennar nánast stöðug sem gerir hana hentuga sem viðmið (leiðarstjörnu) þegar siglt er eftir stjörnum. Algengt nafn hennar í germönskum málum er því „Leiðarstjarnan“. Eitt nafn hennar á forngrísku er κυνόσουρα kynosúra „skottið á hundinum“ frá þeim tíma þegar Litlibjörn var sýndur sem hundur. Á latínu var hún kölluð stella maris „sæstjarna“. Í klassískri fornöld var himinskautið nær Alfa Draconis en Pólstjörnunni en hún var notuð sem leiðarstjarna að minnsta kosti frá síðfornöld og hún hefur verið réttnefnd pólstjarna frá hámiðöldum.