Fara í innihald

Páll Hreinsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Páll Hreinsson (fæddur 20. febrúar 1963) er núverandi forseti EFTA-dómstólsins í Lúxemborg. Hann var áður dómari við Hæstarétt Íslands og prófessor við Háskóla Íslands.[1]

Páll lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1983 og embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands 1988. Hann stundaði framhaldsnám í stjórnsýslurétti og stjórnsýslufræðum við Kaupmannahafnarháskóla 1990-1991 og lauk doktorsprófi (dr. juris) frá Háskóla Íslands 5. febrúar 2005.[2]

Starfsferill

[breyta | breyta frumkóða]

Páll var fulltrúi yfirborgardómarans í Reykjavík árin 1988 til 1991 og aðstoðarmaður umboðsmanns Alþingis frá árinu 1991 til 1998. Páll var skipaður formaður tölvunefndar 1. september 1999, var formaður stjórnar Persónuverndar frá júlí 2001 til ársins 2011 og formaður úrskurðarnefndar um upplýsingamál 2005 til 2007.[3] Árið 1996 var hann skipaður aðjúnkt við lagadeild Háskóla Íslands og í ágúst 1999 var hann ráðinn prófessor við sömu deild. Hann var varaforseti lagadeildarinnar frá 1. júlí 2002 til 30. júní 2005 og forseti hennar 1. júlí 2005 til 1. september 2007, er hann var skipaður hæstaréttardómari. Í desember 2008 var Páll skipaður formaður Rannsóknarnefndar Alþingis samkvæmt lögum nr. 142/2008, um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdum atburðum, og var í leyfi frá störfum hæstaréttardómara meðan nefndin starfaði.[4] Hann tók aftur sæti í Hæstarétti 1. júlí 2010.[5] Hann hefur starfað sem dómari við EFTA-dómstólinn í Lúxemborg frá 15. september 2011. Þann 14. nóvember 2017 var Páll kjörinn forseti EFTA-dómstólsins frá 1. janúar 2018 til 31. desember 2020.[6]

Páll er afkastamikill fræðimaður á sviði lögfræði og eftir hann liggja mörg grundvallarrit í íslenskum rétti. Ber þar hæst doktorsritgerð hans Hæfisreglur stjórnsýslulaga sem er eitt hið viðamesta verk sinnar tegundar sem gefið hefur verið út á Íslandi.[7] Páll hefur skrifað 13 fræðibækur og 43 fræðigreinar á hinum ýmsu sviðum lögfræðinnar, bæði á íslensku og ensku, einkum á sviði stjórnsýslu-, stjórnskipunar- og kröfuréttar.[8]

  1. http://www.eftacourt.int/the-court/members-staff/judges-and-staff/
  2. https://www.stjornarradid.is/media/utanrikisraduneyti-media/media/EES-vefsetrid/Pall-Hreinsson-ferilsskra.pdf
  3. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 14. júní 2018. Sótt 6. júní 2018.
  4. https://www.rna.is/eldri-nefndir/addragandi-og-orsakir-falls-islensku-bankanna-2008/skyrsla-nefndarinnar/english/
  5. https://www.stjornarradid.is/media/utanrikisraduneyti-media/media/EES-vefsetrid/Pall-Hreinsson-ferilsskra.pdf
  6. http://www.eftacourt.int/the-court/members-staff/judges-and-staff/
  7. https://www.stjornarradid.is/media/utanrikisraduneyti-media/media/EES-vefsetrid/Pall-Hreinsson-ferilsskra.pdf
  8. http://www.eftacourt.int/the-court/members-staff/judges-and-staff/