Orrustan við Fehrbellin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Orrustan við Fehrbellin

Orrustan við Fehrbellin var orrusta háð 28. júní 1675 milli herja Svía, undir stjórn Wolmars Wrangel, og Brandenborgara, undir stjórn Friðriks Vilhjálms kjörfursta af Brandenborg og Georgs von Derfflinger hermarskálks. Orrustan fór fram við bæinn Fehrbellin 50 km norðvestur af Berlín. Nokkrum vikum áður höfðu Svíar nýtt sér herför síns gamla bandamanns, Friðriks, til Frakklands og lögðu undir sig stóra hluta furstadæmisins frá Sænsku Pommern og rændu og rupluðu. Friðrik Vilhjálmur sneri þá aftur með her sinn á aðeins tveimur vikum og tókst að leggja víggirta bæinn Rathenau undir sig. Svíar voru þá komnir í slæma stöðu og neyddust til að heyja orrustu við eyðilagða brú yfir ána Rhin meðan verkfræðingar þeirra reyndu að gera við hana.

Brandenborgara höfðu yfirhöndina frá upphafi en Svíum tókst að gera við brúna og koma herliðinu burtu fyrir kvöldið. Mannfall var svipað í báðum liðum, en almennt var samt litið á orrustuna sem sigur Brandenborgara á hinum „ósigrandi“ Svíum. Friðrik Vilhjálmur var eftir þetta kallaður kjörfurstinn mikli og herinn sem hann og Derfflinger leiddu til sigurs varð kjarninn í prússneska hernum. Dagurinn 28. júní var haldinn hátíðlegur í Þýskalandi eftir þetta allt til upphafs Fyrri heimsstyrjaldar. Ósigur Svía varð til þess að hrikta tók í stórveldi þeirra við Eystrasaltið; Brandenborgarar gerðu bandalag við Dani og Hollendinga gegn Svíum og saman lögðu þeir Sænsku Pommern og hertogadæmið Bremen undir sig, Danir gerðu innrás í Skán árið eftir (Skánska stríðið) og Brandenborgarar lögðu síðan undir sig öll yfirráðasvæði Svía á meginlandinu næstu ár; Stettin, Stralsund og Greifswald.