Notandi:Sossaof/sandbox
Rauðvín
[breyta | breyta frumkóða]Léttvín eru búin til í víngerðarhúsum þar vínberjaþrúgum er breytt í vín eftir ákveðnum aðferðum. Þegar þrúgurnar koma inn í víngerðarhúsið fara þær í gegnum vél sem hreinsar stilkana frá og rýfur hýðið svo safinn geti flætt út. Þegar rauðvín er gert eru þrúgurnar ekki pressaðar eins og þegar hvítvín er búið til, heldur eru þær settar heilar í stóra tanka eða ámur. Við rauðvínsgerð er eingöngu hægt að nota dökkar þrúgur og er hýði þeirra látið gerjast með safanum og vínið tekur í sig lit úr hýðinu. Því lengri tíma sem hýðið er í snertingu við safann, því dekkra verður vínið. Þegar gerjuninni er lokið er vínlögurinn pressaður og safinn þannig skilinn frá hýðinu.
Víngerðin
[breyta | breyta frumkóða]Á hýði þrúgnanna er náttúrlegur gerill sem setur gerjun vínsins af stað við rétt hitastig og þegar hann kemst í snertingu við þrúgusykur. Sumir víngerðarmenn kjósa þó frekar að nota ræktaða gerla þar sem þeir eru stöðugri en náttúrlegu gerlarnir og því auðveldara að hafa áhrif á bragð vínsins. Hitastig vínblöndunnar er mjög mikilvægur þáttur við víngerð en ef blandan verður of köld er hætta á að gerjun stöðvist og ef hún verður of heit missa vínin ferskleika. Þróaðar hafa verið leiðir til að hafa áhrif á hitastigið við gerjun m.a með því að láta vatn streyma um rör í víntönkunum. Styrkleiki vínsins fer eftir magni þrúgusykurs í þrúgunum og sætleiki vínsins fer eftir því hversu áfengt vínið verður. Vínið þarf alltaf að bíða í nokkra mánuði fyrir átöppun. Fyrst er það sett í stóra tanka þar sem það er geymt við mjög lágt hitastig svo engin hætta sé á að gerjun fari af stað á nýjan leik. Sum víngerðarhús geyma vínið á eikartunnum í nokkra mánuði fyrir átöppun. Það er til þess gert að fá eikarbragð í vínið en margir tengja eikarbragð við betri vín. Eftir geymslu er vín úr mörgum tönkum eða tunnum sett saman í endanlega blöndu. Hún getur verið blanda úr nokkrum tegundum af þrúgum eða þrúgum af mismunandi svæðum vínekrunnar.
Vínið þarf að hreinsa fyrir átöppun og algengasta aðferðin er sú að eggjahvítum er hellt yfir vínið í ámunni. Þær síga til botns og taka með sér óhreinindi úr víninu. Súlfíðum er bætt í flest vín áður þau eru sett á flöskur. Það er gert til að gerjun stöðvist örugglega alveg og til þess að koma í veg fyrir að vínið oxist með tímanum. Flöskunum er ýmist lokað með skrúfuðum tappa eða korki. Þegar vínið er komið á flöskur geymist það best ef flaskan er látin liggja á hliðinni.
Vínþrúgur
[breyta | breyta frumkóða]Vínþrúgur sem notaðar eru í rauðvín eru þessar:
- Cabernet Franc
- Cabernet Sauvignon
- Canaiolo
- Corvina
- Grenache
- Merlot
- Nebbiolo
- Pinotage
- Pinot Noir
- Sangiovese
- Syrah/Shiraz.
- Tempranillo
- Zinfandel
Framleiðslulönd
[breyta | breyta frumkóða]Frægustu og elstu rauðvínshéruð veraldar eru í Frakklandi, Spáni og Ítalíu. Þessi rótgrónu víngerðarlönd Evrópu eru gjarnan kölluð "Gamli heimurinn" en víngerðarsvæði utan Evrópu nefnd "Nýi heimurinn". Mjög mörg lönd út um allan heim hafa á síðustu öldum bæst í hóp landa sem framleiða rauðvín en hér að neðan er getið þeirra helstu.
Helstu rauðvínsframleiðslulönd:
- Frakkland
- Ítalía
- Spánn
- Portúgal
- Þýskaland
- Austurríki
- Bandaríkin
- Kanada
- Suður-Afríka
- Chile
- Argentína
- Ástralía
- Nýja Sjáland
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Steingrímur Sigurgeirsson. 2013. Vín - frá þrúgu í glas. Forlagið, Reykjavík