Fara í innihald

Nauthóll

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bærinn Nauthóll stór rétt fyrir ofan Nauthólsvík

Nauthóll var kotbær og þurrabúð í landi jarðarinnar Skildinganess við Reykjavík. Um 1870 voru sex byggð kot í landi Skildinganess en það voru Margrétarkot, Harðarkot, Austurkot, Nauthóll, Þormóðsstaðir og Lambhóll. Bærinn Nauthóll stóð skammt fyrir norðan samnefnda vík Nauthólsvík og við vegarslóða meðfram sjónum frá Fossvogsdal yfir í Skildinganes. Aðfaranótt 1. október 1902 var bærinn brenndur. Síðan hefur ekki verið búið þar. Á stríðsárunum 1940-1945 setti setuliðið upp mastur með steypti undirstöðu þar sem aðalbæjarhúsin á Nauthóli höfðu staðið. [1][2]

Í blaðinu Reykjavík frá 11. október 1902 er frétt um brunann á Nauthól: Nauthóll brendur aðfaranóttina 1. þ. brendu þeir Ingjaldur á Lambastöðum Sigurðsson og Guðmundur í Nýabæ Olafsson Nauthól. Var bærinn orðinn fornfálegur, og þótti þeim ekki svara kostnaði að gera við hann. Maður sá er leigði þar átti þar nokkra muni, fluttu þeir þá að Skildingarnesi, en eitthvað hafði þó brunnið t. d. mór.[3] Sigurður Briem póstmálastjóri varð eigandi stórs hluta af Skildinganesi um aldamótin 1900 og hafði í huga að reisa hafskipabryggju í landi Skildinganess við Skerjafjörð og stofnaði ásamt öðrum árið 1907 hlutafélagið Höfn með það í huga og að frá hafskipabryggjunni yrði sporbraut um land Reykjavíkur niður í miðbæ.[4]

Í æviminningum Sigurðar Briem kemur fram að Sigurður Briem lét kveikja í kotinu Nauthóll vegna þess að ábúandinn vildi ekki fara þaðan um fardaga að vori.

Kvæðið Nauthóll sem birtist í Nýja Ísland 1. janúar 1906 fjallar um brunann á Nauthól og tengir það við hafnarframkvæmdir, athafnalíf og landakaup í Reykjavík á þessum tíma.[5]

Spákonurnar Guðný Eyjólfsdóttir og Jósefína Eyjólfsdóttir ólust upp á Nauthól. Guðný var niðursetningur á öðrum bæ þegar kveikt var í bænum. Eyjólfur faðir þeirra var þá út á sjó. Jósefína var þá 11 ára og mun hafa tryllst og hlaupið upp í Öskjuhlíð. Áður en eldur var lagður að kotinu hafði hreppsnefnd Seltjarnarness samþykkt að leysa upp heimilið og var húsfreyjan Helga og börnin flutt burt og sett niður á bæjum í hreppnum. Jósefína er fyrirmynd að sögupersónunni Karólínu spákonu í Eyjabókum Einars Kárasonar (Þar sem djöflaeyjan rís, Gulleyjan og Fyrirheitna landið). Þær sögur hafa verið kvikmyndaðar.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Helga Maureen Gylfadóttir, Anna Lísa Guðmundsdóttir og Guðný Gerður Gunnarsdóttir, Vatnsmýri – Seljamýri – Öskjuhlíð Byggðakönnun Fornleifaskrá og húsakönnun, Reykjavík. 2013. Minjasafn Reykjavíkur. Skýrsla nr. 161“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 13. september 2022. Sótt 13. september 2022.
  2. „Anna Lísa Guðmundsdóttir, Drífa Kristín Þrastardóttir og Margrét Björk Magnúsdóttir, Nauthólsvík og Nauthólsvíkurvegur, Fornleifaskrá og húsakönnun Reykjavík 2019, Borgarsögusafn Reykjavíkur, Skýrsla nr. 200“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 13. september 2022. Sótt 13. september 2022.
  3. Nauthóll brenndur, Reykjavík 40 tbl. 11.10.1902
  4. Hafnlaus höfuðstaður, Sagnir - 1. tölublað (01.04.1984)
  5. Nauthóll, Nýja Ísland - 1. Tölublað (01.01.1906)