Áfallið mikla
Áfallið mikla, einnig þekkt sem nakba (arabíska: النكبة, al-Nakbah), er heiti Palestínuaraba á þeim atburðum sem fylgdu stríðinu 1948 sem háð var milli hins nýstofnaða Ísraelsríkis og Palestínumanna. Áfallið mikla snýr þá aðallega að því þegar um 720.000 Palestínuarabar lentu á vergangi og þurftu að leita hælis í nágrannaríkjum sínum. Á þeim tíma var sá fjöldi um helmingur þeirra palestínsku íbúa sem búið höfðu á svæðinu. Stór hluti þessa fólks býr enn í flóttamannabúðum ásamt afkomendum sínum.
Orsök
[breyta | breyta frumkóða]Stríðið 1948 er einnig þekkt sem sjálfstæðisstríðið hjá Ísraelum og markar einmitt stofnun lýðveldis þeirra. Undanfari þess var þegar hinar nýstofnuðu Sameinuðu þjóðir kusu þann 29. nóvember 1947 að skipta Palestínu í tvennt. Annar hlutinn, Palestína, átti að vera ríki fyrir araba en hinn hlutinn, Ísrael, átti að vera fyrir gyðinga. Þar með var stofnun Ísraelsríkis sett á laggirnar. Jerúsalem átti hins vegar að vera alþjóðlegt svæði. Í kosningunni kusu 39 ríki fyrir skiptingunni, 13 gegn henni og 10 sátu hjá. Ísland var meðal þeirra landa sem kaus með skiptingunni og var það sendiherra Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, Thor Thors, sem tók fyrstur til máls á fundinum þennan örlagaríka dag. Eins og skilja má voru ýmsir ekki ánægðir með málalok og voru margir Palestínumenn ófúsir til að gefa upp hluta síns lands svo hægt yrði að stofna Ísraelsríki. Ástandið varð sífellt ótryggara og árið eftir réðust hersveitir Síonista, þjóðernishreyfingu gyðinga, inn í palestínskt þorp, Dayr Yasin, og drápu 115 manns á öllum aldri. Orðið var svo látið berast um að svipað yrði upp á tengingum hjá öðrum Palestínumönnum. Palestínumenn réðust í kjölfarið á bílalest gyðinga og drápu 70 manns. Þann 14. maí sama ár var sjálfstæðisyfirlýsing Ísraela lesin upp og braust þá hið eiginlega stríð út þegar arabaríkin í kring réðust inn í Ísrael. Stríðið stóð í sex mánuði og stóð Ísrael eftir sem sigurvegari. Umráðasvæði Ísraels stækkaði eftir sigurinn og fékk Palestína ekkert land í sinn hlut.[1]
Núverandi ástand
[breyta | breyta frumkóða]Samkvæmt UNRWA (United nations relief and works agency) eru palestínskir flóttamenn þeir sem áttu fasta búsetu í Palestínu á árunum 1946 til 1948 og misstu heimili sitt vegna stríðsins 1948. Afkomendur þessa fólks falla einnig undir þessa skilgreiningu. Í dag eru um fimm milljónir manna sem flokkast sem palestínskir flóttamenn. Einn þriðji þeirra býr í flóttamannabúðum í nágrannaþjóðunum sem sérstaklega eru fyrir Palestínumenn en restin býr á hinum ýmsu svæðum, bæði á Gasaströndinni, Vesturbakkanum sem og í nágrannaríkjunum. Búseta þeirra er þó oft í nálægð við flóttamannabúðir. Samtök eins og UNRWA reka skóla, heilsugæslustöðvar og fleira í þá vegu fyrir fólkið en oft býr það við bág kjör.[2] Á hverju ári er Dagur áfallsins mikla haldinn til að minnast atburðanna sem urðu í kjölfar stríðsins 1948. Dagsetning þessa dags er venjulega 15. maí eða daginn eftir þjóðhátíðardag Ísraela, sem oftast er haldinn 14. maí.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Magnús Þorkell Bernharðsson (2018). Miðaustur-lönd: Fortíð, nútíð og framtíð. Reykjavík: Mál og menning.
- ↑ United nations relief and works agency. Sótt 3. mars 2019.