Níðstöng
Níðstöng er stöng sem notuð er í heiðnum sið til að leggja bölvun á óvini sína.
Söguágrip og notkun
[breyta | breyta frumkóða]Níðstöng samanstendur af langri tréstöng með nýlega afskornum hrosshausi á toppnum og stundum með hrossaskinni lögðu yfir stöngina.[1] Níðstöngin á að snúa að þeim sem bölvunin beinist gegn. Bölvunin er rist í rúnum á stöngina.
Ritaðar heimildir
[breyta | breyta frumkóða]Níðstöng bregður fyrir í Egils sögu:
Og er þeir Egill komu til Herðlu, þá runnu þeir þegar upp til bæjar með alvæpni; en er það sá Þórir og hans heimamenn, þá runnu þeir þegar af bænum og forðuðu sér allir, þeir er ganga máttu, karlar og konur. Þeir Egill rændu þar öllu fé, því er þeir máttu höndum á koma; fóru síðan út til skips; var þá og eigi langt að bíða, að byr rann á af landi; búast þeir til að sigla, og er þeir voru seglbúnir, gekk Egill upp í eyna.
Hann tók í hönd sér heslistöng og gekk á bergsnös nokkura, þá er vissi til lands inn; þá tók hann hrosshöfuð og setti upp á stöngina. Síðan veitti hann formála og mælti svo: „Hér set eg upp níðstöng, og sný eg þessu níði á hönd Eiríki konungi og Gunnhildi drottningu“ - hann sneri hrosshöfðinu inn á land - „sný eg þessu níði á landvættir þær, er land þetta byggja, svo að allar fari þær villar vega, engi hendi né hitti sitt inni, fyrr en þær reka Eirík konung og Gunnhildi úr landi.“
Síðan skýtur hann stönginni niður í bjargrifu og lét þar standa; hann sneri og höfðinu inn á land, en hann reist rúnar á stönginni, og segja þær formála þenna allan.[2]
Í Vatnsdælu er sagt frá því að þegar Finnbogi hinn rammi mætir ekki til hólmgöngu gegn Jökli reisir Jökull níðstöng til að refsa Finnboga fyrir heigulshátt sinn. Hann sker út mannshöfuð á enda stangarinnar, ristir galdrarúnir á hana, drepur meri og stingur stönginni í brjóst hennar og lætur hana snúa í átt að bæ Finnboga:
Þeir bræður biðu til nóns og er svo var komið þá fóru þeir Jökull og Faxa-Brandur til sauðahúss Finnboga er þar var hjá garðinum og tóku súlu eina og báru undir garðinn. Þar voru og hross er þangað höfðu farið til skjóls í hríðinni. Jökull skar karlshöfuð á súluendanum og reist á rúnar með öllum þeim formála sem fyrr var sagður. Síðan drap Jökull meri eina og opnuðu hana hjá brjóstinu og færðu á súluna og létu horfa heim á Borg, fóru síðan heimleiðis og voru að Faxa-Brands um nóttina, voru nú kátir mjög um kveldið.[3]
Nútímanotkun
[breyta | breyta frumkóða]Á Íslandi eru níðstangir enn reistar stöku sinnum. Talið er að um sé að ræða órofna hefð frá landnámi Íslands.[heimild vantar] Árið 2006 reisti Þorvaldur Stefánsson bóndi í Otradal níðstöng þar sem kallað var til landvætta til að „reka Óskar Björnsson úr landi eða ganga að honum dauðum“. Tilefnið var að Óskar hafði fyrir slysni ekið á hvolp í eigu Þorvalds. Þorvaldur var fyrir vikið kærður til lögreglu fyrir morðhótun.[4]
Árið 2006 reisti norskur stjórnmálamaður nokkrar níðstangir með sauðshöfðum til þess að mótmæla héraðskosningu.[5]
Meðlimir í heiðnum trúarhreyfingum hafa stundum notað níðstangir til að leggja bölvanir á nýnasista og aðra rasista sem þeir telja hafa misnotað myndmál heiðninnar í nafni kynþáttahyggju.[6] Aftur á móti hafa sumir meðlimir í heiðnum kynþáttahreyfingum reist níðstangir til að ráðast gegn heiðnum hreyfingum sem gagnrýna „þjóðlegri“ heiðna söfnuði.[7]
Egill Egilsson, rithöfundur, reisti í nóvember 2009 Landsvirkjun níðstöng með hrosshaus í mótmælum gegn Hvammsvirkjun. [8]
Þann 4. apríl árið 2016 voru níðstangir með þorskhausum reistar í mótmælum gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra Íslands.[9]
Þann 3. apríl árið 2020 var níðstöng með tveimur sviðakjömmum efst reist fyrir framan Alþingi. Á skilti við stöngina stóð að ríkisstjórnin hefði níðst á kvennastéttum, meðal annars með því að lækka laun hjúkrunarfræðinga í miðjum kórónaveirufaraldrinum, og að með stönginni skyldi níðinu snúið aftur til þingsins.[10]
Þann 29. apríl árið 2022 fannst níðstöng með hrosshöfði sem hafði verið reist við Sólsetrið undir Esjurótum.[11] Atburðurinn átti sér stað skömmu eftir að viðburðarhaldarar þar voru gagnrýndir fyrir að hvetja fólk til að hafa börnin sín með á erótískan viðburð þar sem ofskynjunarlyfja yrði neytt.[12]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Mallet, Paul Henri (1847), Northern Antiquities: or, An Historical Account of the Manners, Customs, and Laws, Maritime Expeditions and Discoveries, Language and Literature, of the Ancient Scandinavians, Þýðing eftir Percy, Thomas, London: George Woodfall & Son, bls. 155–157
- ↑ „Egils saga“. Snerpa. Sótt 1. maí 2020.
- ↑ „Vatnsdæla saga“. Snerpa. Sótt 1. maí 2020.
- ↑ „Níðstöng veldur vandræðum“. Vísir. 21. desember 2006. Sótt 1. maí 2020.
- ↑ Hugo Charles Hansen (12. desember 2006). „Aksjonerte med sauehoder“. Rana Blad. Sótt 1. maí 2020.
- ↑ Fredrik Gregorius, Modern Asatro - Att konstruera etnisk och kulturell identitet, 2008, bls. 105-106.
- ↑ „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. ágúst 2011. Sótt 1. maí 2020.
- ↑ Tímarit.is DV, 18.11 2009. Reistu Landsvirkjun níðstöng
- ↑ „Tusener demonstrerte mot Islands statsminister: - Galskap at han ikke går av“ (norska). Aftenposten. 4. apríl 2016. Sótt 1. maí 2020.
- ↑ „Níðstöng reist gegn Alþingi“. mbl.is. 3. apríl 2020. Sótt 1. maí 2020.
- ↑ „Níðstöng reist við Sólsetrið undir Esjurótum“. DV. 04 2022.
- ↑ DV (04 2022). „Samkoma við Esjurætur tilkynnt til lögreglu – Erótík og ofskynjunarlyf en börn velkomin – „Ekkert gerðist sem er ekki fjölskylduvænt"“.