Caravaggio
Michelangelo Merisi da Caravaggio, oftast kallaður Caravaggio (29. september 1571 – 18. júlí 1610) var ítalskur listmálari sem hafði gríðarleg áhrif á barokklist 17. aldar. Hann greindi sig frá uppstillingum manierismans og málaði dramatískar myndir sem einkenndust af natúralisma og leikrænni lýsingu með sterkum birtuskilum. Stíll Caravaggios varð vinsæll í nýbyggðum kirkjum gagnsiðbótartímans í Róm þar sem leitast var við að skapa raunsæja kirkjulist sem svar við siðbótinni.
Hann vann í Róm frá 1600 þar sem hann varð frægur að endemum fyrir drykkjuskap, spilafíkn og ólæti. Árið 1606 drap hann ungan mann í slagsmálum á krá og flúði í kjölfarið frá Róm þar sem hann var eftirlýstur. 1608 lenti hann aftur í slagsmálum á Möltu og aftur ári síðar í Napólí. Ári síðar lést hann úr sótthita að því er virðist í Porto Ercole í Toskana þar sem hann var á skipi á leið til Rómar til að fá náðun frá yfirvöldum. Ekki er vitað um afdrif líksins, né nákvæmlega hvernig, hvar og hvenær hann dó.