Fara í innihald

Mario Evaristo

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mario Evaristo árið 1930.

Marino „Mario“ Evaristo (f. 10. desember 1908 - d. 30. apríl 1993) var knattspyrnumaður frá Argentínu. Hann var í landsliði þjóðar sinnar sem lék til úrslita á HM 1930 ásamt eldri bróður sínum, Juan. Þeir voru því fyrstu bræðurnir til að keppa í úrslitaleik á HM.

Ævi og ferill

[breyta | breyta frumkóða]

Marino Evaristo fæddist í Buenos Aires. Hann breytti fornafni sínu í Mario og var kunnur undir því nafni. Hann hóf meistaraflokksferil sinn með Sportivo Palermo en gekk árið 1926 til liðs við stórliðið Boca Juniors þar sem hann lék um fimm ára skeið og varð þrívegis argentínskur meistari.

Hann lék níu landsleiki á árunum 1929 og 1930. Hann varð Suður-Ameríkumeistari með Argentínu árið 1929 og fékk silfurverðlaunin á HM 1930. Hann lék fjóra af fimm leikjum Argentínumanna á mótinu og skoraði einu sinni, lokamarkið í 3:1 sigri á Síle.

Á árunum 1935-39 lék Evaristo í Evrópu, m.a. með Genoa CFC frá Ítalíu og Nice í Frakklandi. Þegar síðari heimsstyrjöldin braust út ákvað hann að leggja skóna á hilluna, hélt aftur til heimalands síns og sneri sér að unglingaþjálfun hjá Boca Juniors ásamt Juan bróður sínum.