Margrét Lóa Jónsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Margrét Lóa Jónsdóttir (fædd 29. mars 1967) er íslenskt skáld og rithöfundur. Hún lauk stúdentsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík og fór síðan í Háskóla Íslands þar sem hún lagði stund á íslensku og heimspeki. Hún fór í viðbótarnám í heimspeki í háskólanum í San Sebastian á Spáni og lauk B.A. prófi 1996.

Margrét Lóa hefur aðallega skrifað ljóð en fyrsta verk hennar, ljóðabókin Glerúlfar, kom út árið 1985. Hún hefur sjálf gefið út margar af bókum sínum og myndskreytt þær. Auk ljóðabókanna hefur Margrét Lóa samið hljóðlistaverk sem flutt var í Gallerí Hlust og bóklistaverk sem sýnt var í Gallerí Barmi. Hún hefur ennfremur haldið námskeið í skapandi skrifum í samvinnu við Borgarbókasafn Reykjavíkur og haldið svipuð námskeið í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi. Margrét Lóa ritstýrði og gaf út listatímaritið Andblæ um tveggja ára skeið.

Margrét Lóa býr í Reykjavík. Hún hefur starfað mikið við kennslu undanfarin ár og einnig unnið töluvert hjá Listasafni Reykjavíkur. Hún hefur meðal annars kennt kvikmyndarýni og spænsku á barna- og fjölskyldunámskeiðum í samvinnu við Íþrótta og tómstundaráð Reykjavíkur. Um þessar mundir vinnur hún við ritstörf og leggur stund á fjarnám til kennsluréttinda í Kennaraháskóla íslands. Hún hefur mikinn áhuga á skapandi skólastarfi og námi sem byggir á hlustun og leik.

Margrét Lóa hefur unnið sem leiðsögukona um listsýningar á Kjarvalsstöðum, ennfremur starfaði hún í Norræna húsinu sem safnvörður og kynningarfulltrúi. Hún hefur líka lesið inn á hljóðbækur í Blindrabókasafni Kópavogs. Einnig hefur Margrét Lóa starfað við þáttagerð hjá RÚV, þar sem hún fjallar meðal annars um femínisma og stöðu kynjanna.

Árið 2003 kom út geisladiskurinn Hljómorð með ljóðum hennar og tónlistarmannsins Gímaldins, Gísla Magnússonar. Haustið 2001 var þeim boðið, sem fulltrúum Norræna hússins í Reykjavík, á bókamessuna í Gautaborg til að kynna diskinn. Árið 2004 gaf Margrét Lóa út sína fyrstu skáldsögu, Laufskálafuglinn, hjá Bókaútgáfunni Sölku. Ári síðar kom ljóðabókin Tímasetningar út, einnig hjá Sölku.

Ritaskrá[breyta | breyta frumkóða]

  • Glerúlfar Ljóð. Reykjavík 1985.
  • Náttvirkið Ljóð. Flugur, Reykjavík 1986.
  • Orðafar Ljóð. Reykjavík 1989.
  • Ávextir Ljóð. Mál og menning, Reykjavík 1991.
  • Tilvistarheppni Ljóð. Mál og menning, Reykjavík 1996.
  • Ljóðaást Ljóð. Reykjavík 1997.
  • Háværasta röddin í höfði mínu Ljóð. Mál og menning, Reykjavík 2001.
  • Hljómorð Hljómorð. Merkúríus, Reykjavík 2003.
  • Laufskálafuglinn Skáldsaga. Salka, Reykjavík 2004.
  • Tímasetningar Ljóð. Salka, Reykjavík 2005.
  • Frostið inni í hauskúpunni Ljóð. Marló, Reykjavík 2015.
  • Biðröðin framundan Ljóð. Marló, Reykjavík 2017.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]