Maríanaeyjar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kort sem sýnir Maríanaeyjar.

Maríanaeyjar eru eyjaklasi í Norður-Kyrrahafi á milli 12. og 21. gráðu norðlægrar breiddar og á 145. gráðu austlægrar lengdar, suðsuðaustur af Japan og vestsuðvestur af Hawaii. Eyjarnar eru tindar neðansjávarfjallgarðs sem liggur frá Gvam til Japan. Margar eyjanna eru virk eldfjöll. Norður-Maríanaeyjar eru í samveldissambandi við Bandaríkin (ásamt Púertó Ríkó) en Gvam er bandarískt yfirráðasvæði.

Langflestir íbúar eyjanna búa á Gvam (um 160.000) en um 50.000 búa á Saípan og nokkur þúsund á Tinian og Rota. Aðrar eyjar eru óbyggðar.

Frumbyggjar eyjanna eru Tsjamorrar sem tala ástrónesískt mál. Ferdinand Magellan kom fyrstur Evrópubúa til eyjanna 1521. Skipverjar hans nefndu eyjarnar Islas de los Ladrones („Þjófaeyjar“) því frumbyggjarnir stálu öllu sem þeir gátu úr skipum þeirra. Antonio Pigafetta sem ferðaðist með Magellan ritaði að bátar innfæddra væru búnir þríhyrndum latínseglum. Þær fengu því líka nafnið Islas de las Velas Latinas („Latínseglaeyjar“). Spánverjar gerðu formlegt tilkall til eyjanna árið 1667. Þeir stofnuðu þar nýlendu og nefndu eyjarnar Maríanaeyjar eftir ekkjudrottningu Spánar, Maríu Önnu af Austurríki. Eyjarnar (sérstaklega Gvam) voru mikilvægur áfangastaður á leiðinni frá Akapúlkó í Mexíkó til Manila á Filippseyjum.

Eftir ósigur í stríði Spánar og Bandaríkjanna 1898 fengu Bandaríkin Gvam í sinn hlut. Spánverjar seldu Þýskalandi hinar eyjarnar, ásamt fleiri Kyrrahafseyjum, árið eftir. Japanar hernámu eyjarnar í fyrri heimsstyrjöld. Í síðari heimsstyrjöld var hart barist á mörgum eyjanna. Japanir lögðu Gvam undir sig daginn eftir árásina á Perluhöfn eða 8. desember 1941. Bandaríkjamenn náðu eynni aftur á sitt vald sumarið 1944. Eftir stríð urðu Norður-Maríanaeyjar hluti af yfirráðasvæði Bandaríkjanna.

Í Maríanadjúpálnum, sem liggur við eyjarnar og dregur nafn sitt af þeim, er mesta hafdýpi sem mælst hefur og þar er því lægsti þekkti punktur jarðskorpunnar.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.