Mæðradagurinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita

Mæðradagurinn er alþjóðlegur dagur mæðra og er hugsaður til að heiðra starf þeirra. Dagurinn á sér þó ekki einn alþjóðlegan mánaðardag eða mánuð en oftast er haldið upp á hann í mars, apríl eða maí. Algengast er að þjóðir láti hann bera upp á annan sunnudag maímánaðar (8 – 14. maí) ár hvert. Þannig er það til dæmis á Íslandi og í Bandaríkjunum.

Það er þó ekki algilt. Í Noregi er mæðradagurinn til dæmis haldinn annan sunnudag í febrúar, á Bretlandi og Írlandi er hann fjórði sunnudagur í lönguföstu, í Arabalöndum er hann haldinn á jafndægri á vori (21. mars), á Spáni og í Portúgal er hann fyrsti sunnudagur í maí og í Frakklandi, Svíþjóð og víðar síðasti sunnudagur í maí.

Dagar helgaðir mæðrum og dýrkun mæðragyðja eru þekktir frá fornöld og mæðradýrkun tíðkaðist í Litlu-Asíu fyrir þúsundum ára. Þaðan barst hún til Grikklands og þaðan til Rómaveldis. Með kristninni þróaðist mæðradýrkunin yfir í dag til dýrðar Maríu guðsmóður og öðrum mæðrum og var sá dagur fjórði sunnudagur í lönguföstu. Víða komst á sá siður að börn gæfu mæðrum sínum blóm eða gjöf þennan dag. Smátt og smátt dró þó úr því að þessi dagur væri haldinn en hann viðhélst þó að einhverju leyti á Englandi og Írlandi og var svo endurvakinn á 20. öld og rann þá saman við mæðradaginn sem þá hafði komist á í Bandaríkjunum og breiðst út þaðan en Bretar og Írar halda gömlu tímasetningunni á deginum.

Dagurinn í nútíðarmynd er upprunninn í Bandaríkjunum árið 1907. Það var Anna Jarvis sem átti hugmyndina og árið 1914 tókst henni að fá opinbera viðurkenningu á deginum. Hann en var fyrst haldinn á Íslandi 1934 á vegum mæðrastyrksnefndar. Fyrst var mæðradagurinn fjórða sunnudag í maí en svo einhvern sunnudag í maí. Að endingu var hann festur við annan sunnudag í maí árið 1980.

Heimildir[breyta]

Tenglar[breyta]


Wiki letter w.svg  Þessi grein er stubbur sem ekki hefur verið settur í undirflokk. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina, eða með því að flokka hana betur.