Fara í innihald

Lúson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lúson er nyrsta stóra eyja Filippseyja

Lúson er stærst Filippseyja og er með 108 þúsund km2 lítið eitt stærri en Ísland. Jafnframt er hún 17. stærsta eyja heims. Á Lúson er höfuðborgarsvæðið Metro Manila, sem er með rúmlega 11 milljón íbúa. Íbúar eyjunnar alls eru rúmlega 46 milljónir en þar með er Lúson fimmta fjölmennasta eyja heims.

Lega og lýsing

[breyta | breyta frumkóða]

Lúson er nyrsta stóra eyja Filippseyja. Aðeins nokkrar minni eyjar eru norðar. Fyrir sunnan eru aðrar stórar eyjar, svo sem Samar og Mindóró. Hafsvæðin í kringum eyjuna er Kyrrahafið að austan og Austur-Kínahaf að vestan. Fyrir sunnan er filíppínska eyjahafið. Fyrir norðan skilur Lúsonsund eyjuna frá Taívan. Lúson er ákaflega ólögulaga. Meginhluti eyjarinnar er í norður-suður stefnu. Í suðaustri gengur langur skagi nær alla leið til eyjarinnar Samar. Vegalengdin frá norðri til suðurs eru um 700 km. Mesta breiddin er hins vegar ekki nema rétt um 200 km en sums staðar ekki nema 20 km. Á Lúson eru fjölmörg eldfjöll, svo sem Púlag, Mayon og Pínatúbó.

Lúson (filippínó: Luzon) er samsett úr kínversku orðunum lu og son, sem merkir litla song eða syðra song. Heitið er dregið af gamla ríkinu Lüsongguo (Lúsonríkið) sem var við lýði á Lúson áður en Spánverjar komu til eyjarinnar. Spánverjar sjálfir nefndu eyjuna Nueva Castilla (Nýja Kastilía), áður en heitið Lúson var notað.

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]
Stórgosið í Pínatúbó 1991

Fyrsta ríkið á Lúson var stofnað síðla á 13. öld af Kínverjum sem flúðu frá meginlandi Asíu. Ríki þetta er oft kallað Lúsonríkið (Lüsongguo á kínversku). Höfuðborg þess var borgin Tondo, sem í dag er hluti af Maníla. Bolkiah, soldáninn í Brúnei, réðist á Lúsonríkið árið 1500 og hertók það. Tondo fékk að vera lítið ríki enn um sinn, enda stofnaði Bolkiah nýja höfuðborg fyrir sig sem hlaut nafnið Maynilad (Maníla í dag). Þriðja ríkið á eyjunni hét Namayan. Það var Spánverjinn Miguel Lopez de Legazpi sem byrjaði að herja á ríki þessi um miðja 16. öld. 1570 brenndi hann Tondo og Maynilad til kaldra kola og stofnaði spænska nýlendu. Maynilad var endurreist en hlaut nafnið Maníla. Borgin varð brátt höfuðstaður spænsku nýlendunnar og fór spænska að breiðast út sem tungumál á eyjunni. 1896 gerðu innfæddir íbúar á Lúson uppreisn gegn Spánverjum, sem brátt varð að hálfgerðu frelsisstríði. Þegar Bandaríkjamenn tóku þátt í aðgerðum heimamanna urðu Spánverjar undan að láta. 1901 tóku Bandaríkjamenn við sem stjórnendur eyjarinnar (og landsins alls). 1942 réðust Japanir inn í Lúson og hertóku eyjuna í einni svipan. Douglas McArthur, sem var yfirmaður herja Bandaríkjanna á Filippseyjum, hörfaði með hluta hers síns til Ástralíu. Hinn hlutinn hörfaði til Bataan-skagans, þar sem hann gafst upp fyrir Japönum. Japanir stjórnuðu með mikilli grimmd og voru ekki hraktir úr landi fyrr en við allsherjar uppgjöf Japana í september 1945. Árið 1948 urðu Filippseyjar að sjálfstæðu ríki. Maníla varð þá að ríkishöfuðborg. 1991 varð gríðarmikið eldgos í Pínatúbó, sem olli miklum skemmdum á gróðurfari eyjarinnar. 875 manns biðu bana.