Fara í innihald

Lífhreinsun

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Lífhreinsun er líftækni þar sem örverum, sveppum, plöntum eða ensímum þeirra er beitt til að hreinsa upp umhverfismengun. Meðal lífhreinsunaraðferða má nefna hvötun á niðurbroti olíumengunar af völdum náttúrlegra jarðvegsörvera með áburðargjöf, og sértækt niðurbrot á þrávirkum mengunarefnum á borð við fjölklóruð bífenýl með sérvöldum bakteríum, erfðabreyttum eða náttúrlegum.

Lífhreinsun hefur verið notuð í marga áratugi — til dæmis skolphreinsun. Nýverið hefur lífhreinsun fengið nýja merkingu og nýjar líftæknilegar aðferðir verið notaðar. Örverurnar þurfa að vera virkar og hafa næga næringu til þess að lífhreinsun geti átt sér stað. Þetta er gert með ýmsum aðferðum,til dæmis að búa til kjöraðstæður fyrir örverurnar á þessum menguðu stöðum.

Margar aðferðir eru notaðar til þess að hreinsa umhverfi, en af hverju er lífhreinsun notuð? Aðferðir knúnar vélum eru oft mjög dýrar og afleiðingin getur verið enn meiri samsöfnun á eiturefnum. Flestar lífhreinsiaðferðir hreinsa flókin eiturefni í koltvísýring, klór, vatn og einföld lífræn efni, þ.e. mjög umhverfisvæn efni. Eftir að líftækni var notuð til lífhreinsunar þá hafa komið fram önnur svið í gegnum þessa tækni. Nefna má greiningar á mengandi efnum, endursköpun á vistkerfum og aukin þekking á sjúkdómum af völdum eiturefna[heimild vantar].

Olíuskipið Exxon Valdez

Lífhreinsun við mengunarslys var fyrst notuð árið 1989 þegar olíuskipið Exxon Valdez fórst í Alaska og fékkst þar gífurlega mikilvæg reynsla af lífhreinsun.[1]

Segja má að fræðilegur grunnur lífhreinsunar hvíli á setningum C. B. van Niels:

  • Fyrir sérhvern þátt og sérhverja afurð lifandi frumna er til í lífheiminum örvera sem nýtir hana sem kolefnis- og/eða orkugjafa.
  • Örverur eru til staðar í öllum búsvæðum lífheimsins[2].

Þannig má ætla að fyrir öll náttúrleg, lífræn mengunarefni megi finna örveru sem er fær um að brjóta þau niður og mynda úr þeim skaðlausar afurðir.

Tvær gerðir lífhreinsunar

[breyta | breyta frumkóða]

Tvær gerðir lífhreinsunar

[breyta | breyta frumkóða]
  • in situ:

Þá er mengunin brotin niður þar sem hún átti sér stað. Þetta er oftast ódýrasta lausnin en getur verið erfitt að stjórna ferlinu og oft erum við einnig að sleppa framandi lífverum í umhverfið

Dæmi um þessa aðferð er sáning baktería í mengað svæði. Þegar það er gert þá þurfa viðkomandi bakteríur að geta brotið niður eða aðskilið mengunarefnin hratt og að fullu. Einnig þurfa þær að vaxa og dafna í umhverfinu sem mengunin varð, þær mega ekki mynda sterka lykt eða eitraða gufu og þær mega ekki vera sjúkdómsvaldandi.

  • ex situ:

Þá er mengununni safnað saman og mengunarefnin eru brotin niður í gerjunartanki. Þetta getur verið erfið og dýr aðferð en með henni er hægt að hafa stjórn á bæði umhverfinu og ferlinu.

  1. Biotechnology. http://www.biotechinstitute.org
  2. J. T. Staley, R. P. Gunsalus, S. Lory og J. J. Perry (2007) Microbial Life, 2. útg. Sinauer Associates, Inc., Sunderland, Massachusetts.
  Þessi líffræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.