Cornelis B. van Niel

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lífvísindi
20. öld
Nafn: Cornelis B. van Niel
Fæddur: 4. nóvember 1897
Látinn 10. mars 1985
Svið: Örverufræði, lífefnafræði
Helstu
viðfangsefni:
Ljóstillífun baktería
Markverðar
uppgötvanir:
Lýsti hvarfaferli ljóstillífunar
Alma mater: Tækniháskólinn í Delft
Helstu
vinnustaðir:
Stanford háskóli
Verðlaun og
nafnbætur:
Vísindaorða bandaríkjaforseta, Leeuwenhoek-orðan

Cornelis Bernardus van Niel (4. nóvember 1897 í Haarlem í Hollandi10. mars 1985 í Carmel í Kaliforníu) var hollenskur örverufræðingur sem lengst af starfaði í Bandaríkjunum. Hans er minnst meðal annars fyrir að hafa útskýrt lífefnafræðilegt hvarfaferli ljóstillífunar, og einnig að hafa borið Delft-skólann svonefnda í örverufræði inn í bandarískt fræðasamfélag.

Að loknu námi í efnaverkfræði við Tækniháskólann í Delft 1923 gerðist hann rannsóknamaður hjá Albert Jan Kluyver sem þá hafði nýlega tekið við prófessorsstöðu í örverufræði við þann sama skóla. Kluyver stundaði samanburðarrannsóknir á lífefnafræði örvera og var frumkvöðull á því sviði. Meðal verkefna van Niels var að halda utan um stofnasafn Kluyvers og auka við það bakteríutegundum einangruðum úr ýmiss konar umhverfi. Við þá vinnu einangraði hann própíóniksýrumyndandi bakteríur úr svissneskum osti og hóf vinnu við doktorsverkefni sitt sem snerist um greiningu bakteríanna og lífefnafræði þeirra og hann lauk 1928.

Að loknu doktorsnáminu hélt van Niel til Bandaríkjanna og þáði rannsóknastöðu við Hopkins Marine Station rannsóknastofnunina við Stanford háskóla þar sem hann tók til við rannsóknir á ljóstillífun í grænum og fjólubláum brennisteinsbakteríum. Við þessar rannsóknir sýndi hann fram á að ljóstillífun er ljósháð oxunar-afoxunarhvarf þar sem koldíoxíð er afoxað með aðstoð róteindar frá oxanlegu efnasambandi, en hvarfið má almennt rita svona:

2 H2A + CO2 → 2A + CH2O + H2O

Hann ályktaði að í ljóstillífun grænna plantna væri róteindargjafinn H2O og myndefni oxunarinnar væri O2. Robert Hill staðfesti þessa ályktun síðar með tilraunum.

Framlag van Niels í lífefnafræði og örverufræði var umtals vert, bæði í gegn um eigin rannsóknir, en ekki síður fyrir þau áhrif sem hann hafði á samferðamenn sína og nemendur. Hann þótti afar góður fyrirlesari og var eftirsóttur sem slíkur. Hann hlaut vísindaorðu Bandaríkjaforseta 1963 og Leeuwenhoek-orðu hollensku vísindaakademíunnar 1970.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]