Lystarstol

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Lystarstol eða anorexía (lat. anorexia nervosa) er sjúkdómur sem einkennist af skorti á matarlyst en orsakir þess eru geðröskun sem leiða til brenglaðrar sjálfsmyndar á þá leið að sjúklingurinn telji sig ranglega vera of þungan eða feitan.

Lystarstol er átröskun þar sem sá sem henni er haldinn telur að hann sé of þungur þegar hann er í raun við, eða jafnvel töluvert undir kjörþyngd. Algengt viðmið fyrir lystarstol er að einstaklingurinn sé 15 kílóum undir kjörþyngd. Það eitt og sér er hins vegar ekki nægjanlegt fyrir greiningu þar sem aðrar ástæður geta verið fyrir þyngdartapi einstaklings (streita og þunglyndi hafa til dæmis einnig í för með sér breytingar á matarlyst). Lystarstolssjúklingur bregst alla jafnan við minnstu þyngdaraukningu (raunverulegri eða ímyndaðri) með mikilli hræðslu. Þessi skynjun er þekkt sem „brengluð sjálfsskynjun“ og veldur þeim sem henni er haldinn miklum kvíða og getur leitt til áráttu-þráhyggju hegðunar tengdri mat og þyngd. Hegðun viðkomandi í kjölfarið einkennist oftast af mikilli líkamsrækt, notkun hægðarlyfja og megrun með verulega skertri inntöku hitaeininga. Matarlyst lystarstolssjúklings hverfur ekki heldur yfirvinnur hræðslan við þyngdaraukningu einfaldlega lystina. Þau svæði sem lystarstolssjúklingar beina vanalega athygli sinni að eru rass, mjaðmir, læri og brjóst og þeir telja þau vera stór. Stundum hefur átröskunin í för með sér að tíðir stöðvast. Sumir lystarstolssjúklingar sýna einnig hegðun sem er einkennandi fyrir lotugræðgi, þar sem þeir taka átköst og kasta svo öllu upp á ákveðnu tímabili. Þyngd sumra lystarstolssjúklinga er svo lítil að leggja þarf þá inn á sjúkrahús og jafnvel að mata þá með valdi svo þeir svelti sig ekki í hel.

Skilgreining lystarstols samkvæmt DSM-IV[breyta | breyta frumkóða]

Einstaklingar með þessa átröskun halda þyngd sinni fyrir neðan meðalþyngd með æfingum, með því að stjórna inntöku matar og með öðrum aðferðum.

Greiningarviðmið fyrir lystarstol[breyta | breyta frumkóða]

 • A. Að neita að viðhalda líkamsþyngd við eða yfir lágmarksskilgreiningu meðalþyngdar miðað við aldur, kyn og hæð (það er þyndartap sem leiðir til líkamsþyngdar undir 85% þess sem vænst er; eða að ná ekki viðmiðsþyngd á tímabili vaxtar og sem leiðir til undir 85% meðalþyndar miðað við það sem búist er við.
 • B. Mikil hræðsla við þyngdaraukingu eða að verða feitur, jafnvel þegar líkamsþyngd er undir meðalþyngd.
 • C. Truflun á því hvernig líkamsþyngd eða lögun er upplifuð, óeðlileg áhrif líkamsþyngdar eða lögunar á sjálfsmat eða neitun á alvarleika þyngdar sem er undir eðlilegri þyngd.
 • D. Að missa úr að minnsta kosti þrjá samfellda tíðarhringi.

Gerðir lystarstols[breyta | breyta frumkóða]

Restricting Type: Á meðan á tímabili lystarstols stendur hefur viðkomandi ekki sýnt einkenni lotugræðgi eða uppkasta (svo sem að hjálpa sér við uppköst eða notkun hægðarlyfja, diuretics eða stólpía). Binge-Eating/Purging Type: Á meðan á tímabili lystarstols stendur hefur viðkomandi reglulega sýnt einkenni lotugræðgi eða uppkasta (svo sem að hjálpa sér við uppköst eða notkun hægðarlyfja, diuretics eða stólpía).

Lystarstol er dæmi um röskun sem algengast er að finna hjá ákveðnum hópi. Lystarstolssjúklingar eru oft hvítar stúlkur á aldrinum 13 til 20 ára af ágætum heimilum. Stúlkurnar eru yfirleitt greindar og haldnar fullkomnunaráráttu sem lýsir sér í miklum kröfum til sjálfs síns. Karlar eru aðeins um 5 – 10% lystarstolssjúklinga.[heimild vantar] Tíðni röskunarinnar er talin vera um 1%. Það er mikilvægt að hafa í huga að lystarstol finnst hjá yngri hópi, hjá körlum sem og öðrum kynþáttum en einskoðrast ekki við hvítar stúlkur á aldrinum 13 til 20 ára. Rannsóknir benda til þess að röskunin geri æ meira vart við sig hjá börnum og sé að verða algengari hjá körlum.[heimild vantar]

Lítil þyngd hjá lystarstolssjúklingum getur meðal annarra haft eftirfarandi afleiðingar:

 • Hæg blóðrás
 • Lágur blóðþrýstingur
 • Stökk og brothætt bein
 • Aukin andlitshár
 • Breyttar tíðir
 • Ófrjósemi
 • Svimi og yfirlið
 • Hárlos
 • Ofþornun
 • Nýrnabilun
 • Lágur líkamshiti

Sum þessara einkenna geta lagast ef einstaklingur jafnar sig á sjúkdómnum. Önnur, sérstaklega beinvandamál, geta verið viðvarandi.

Ástæður lystarstols[breyta | breyta frumkóða]

Oft er sjálfsmynd lystarstolssjúklinga brothætt og telja sumir hana ástæðu fyrir því að þeir beini athygli sinni að líkama sínum. Oft er um að ræða tilfinningalegar þarfir sem ekki eru uppfylltar, fjölskyldubönd eru veik, þeir eiga í erfiðleikum með að umgangast aðra og eru vinafáir eða þeir eru í kynferðislegum samböndum sem þeir eru ekki ánægðir í. Athyglisvert er að margir lystarstolssjúklingar hafa verið misnotaðar sem börn og þjást af öðrum röskunum til viðbótar við lystarstolið.[heimild vantar] Þar sem margir lystarstolssjúklingar gera miklar kröfur til sín eru margir þeirra einnig á því að þeir uppfylli ekki þær kröfur. Oftast er þessi sjálfsmynd þeirra röng þar sem þeim gengur vel í vinnu eða skóla.[heimild vantar] Þessar miklu og óraunhæfu kröfur og sú tilfinning að þeir sýni ekki nægjanlega getu geta þó haft einhver áhrif á röskunina. Hún gefur þeim þá jafnvel færi til að beina athygli sinni annað, að líkamanum og því hvernig þeir geta sýnt fram á framúrskarandi árangur á því sviði. Verið getur að þeir líti á það sem sérstakan hæfileika sem þeir geta haft stjórn á þegar allt annað hefur brugðist.[heimild vantar] Oft greinast þeir með milt þunglyndi en líklegt er að það sé fremur afleiðing röskunarinnar er orsök hennar. Streita er talin geta „kveikt“ lystarstol en nauðsynlegt er talið að aðrir þættir séu þegar til staðar hjá einstaklingnum (svo sem skert sjálfsmynd). Líkt og ávallt má ekki gleyma því að ofantalið gildir ekki um alla lystarstolssjúklinga, margir þeirra eiga góða fjölskyldu, eru í samböndum sem þeir eru ánægðir í og hafa ekki verið misnotaðir.

Áhrif fjölmiðla[breyta | breyta frumkóða]

Sú kenning hefur lengi verið uppi að fjölmiðlar eigi sinn þátt í lystarröskunum unglingsstúlkna.[heimild vantar] Kenningin byggir á því að fjölmiðlar haldi að unglingum óraunhæfum hugmyndum um útlit. Bent er á til stuðnings kenningunni að kvenkyns fyrirsætur séu yfirleitt nokkuð fyrir neðan kjörþyngd. Það kemur kannski ekki á óvart að margar fyrirsætur greinast með átraskanir.[heimild vantar] Ef kenningin er rétt er einnig ljóst að fjölmiðlar leika stórt hlutverk í því að viðhalda lystarstoli. Rétt eins og það er erfitt fyrir reykingarmann að hætta þegar allir reykja í kringum hann ætti það að vera erfitt fyrir þann sem haldinn er lystarstoli að breyta hegðun sinni þegar að honum er stöðugt haldið ímyndinni um grannt fólk. Nýverið hafa þó komið fram kenningar um að lystarstol eigi sér erfðafræðilegar orsakir.[heimild vantar]

Tölvuvæðingin hefur haft alvarleg áhrif meðal lystarstolssjúklinga. Æ algengara er að lystarstolssjúklingar komi sér upp vefsíðum með spjallrásum þar sem þeir styrkja hver annan í viðhorfum sínum og hegðun.[heimild vantar]

Meðferð[breyta | breyta frumkóða]

Lystarstol er hægt að lækna en meðferð er bæði erfið og tekur langan tíma. Því fyrr sem tekið er á röskuninni, því líklegra er að hægt sé að lækna hana. Ein ástæða þess að erfitt er að lækna lystarstol er að sjúklingarnir eru oft í mikilli afneitun, þeir neita oft annaðhvort að eitthvað sé að eða þá að þeir viðurkenna það og fullyrða að nákvæmlega ekkert sé að þeim „lífsstíl“ sem þeir hafa valið sér. Vandinn er að margir lystarstolssjúklingar trúa þessu. Fyrir þeim er ekkert til sem heitir að vera of léttur og þeir útiloka allar vísbendingar um að eitthvað sé að. Yfir 10% allra lystarstolssjúklinga deyja af völdum sjúkdómsins, vanalega vegna hjartabilunar eða lágs kalíummagns líkamans.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

 • „Hvers vegna fær maður anorexíu og er hún hættuleg?“. Vísindavefurinn.
 • „Hvað eru átröskunarsjúkdómar?“. Vísindavefurinn.
 • „Þegar maður er í megrun eða með lystarstol hvort ræðst líkaminn á fituna eða vöðvana í líkamanum?“. Vísindavefurinn.
 • Lystarstol; grein í Þjóðviljanum 1986