Limburg (Holland)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fáni Skjaldarmerki
Fáni
Fáni
Skjaldarmerki
Upplýsingar
Höfuðborg: Maastricht
Flatarmál: 2.209 km²
Mannfjöldi: 1.121.904
Þéttleiki byggðar: 522/km²
Vefsíða: [1][óvirkur tengill]
Lega

Limburg er fylki í Hollandi. Það er næstyngsta fylki landsins (aðeins Flevoland er yngra) og myndar syðsta hluta Hollands. Sökum þess að Limburg kom svo seint til Hollands og sökum þess að íbúar svæðisins tala eigið tungumál (limburgísku), líta margir Hollendingar á svæðið sem ekki-hollenskt. Auk þess eru flestir íbúarnir kaþólskir, ólíkt langflestum Hollendingum. Stjórnmálaflokkurinn Limburg Belang hefur það á stefnuskrá sinni að lýsa yfir sjálfstæði fyrir Limburg og kljúfa sig frá Hollandi (ásamt belgíska Limburg).

Lega og lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Limburg er langsyðsti hluti Hollands og á löng landamæri að Þýskalandi og Belgíu. Auk þess á fylkið landamæri að Norður-Brabant og nyrsti hlutinn nemur við Gelderland. Limburg er aðeins 2.167 km2 að stærð og er því fjórða minnsta fylki Hollands. Áin Maas rennur í gegnum allt fylkið frá suðri til norðurs og myndar mesta náttúrulega einkenni fylkisins. Íbúar eru 1,1 milljón talsins. Höfuðborgin heitir Maastricht.

Fáni og skjaldarmerki[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Limburg er með fimm minni skildi. Allir sýna þeir ljón, tvö rauð, eitt gult og eitt svart. Fimmti skjöldurinn sýnir þrjú pósthorn. Uppi til vinstri er merki Valkenburg (nálægt Maastricht). Uppi til hægri er merki Gulik-ættarinnar. Hornin eru tákn greifadæmisins Horn (fyrir norðan Maastricht). Niðri til hægri er merki hertogadæmisins Gelre (Gelderland). Fyrir miðju er merki hertogadæmisins Limburg. Allt voru þetta helstu yfirráðasvæði Limburg þar til Frakkar hertóku landið 1794. Fáninn samanstendur af þremur láréttum röndum, hvítri, blárri (mjórri en hinar) og gulri. Til vinstri er rautt ljón, sem er tákn Limburg. Bláa röndin táknar fljótið Maas sem rennur gegnum endilangt fylkið. Fáninn var formlega tekinn í notkun 27. desember 1886.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Fylkið Limburg heitir eftir kastalavirkið Limbourgh, sem áður fyrr var aðsetur greifanna á þessu svæði. Limbourgh er í Belgíu í dag, en fylkið Limburg var bæði í Hollandi og Belgíu allt til 1830 er Belgía splittaði sig frá Hollandi. Talið er að orðið Lim- merkir lind eða lindardreka, samkvæmt þjóðsögum.

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

Limburg var öldum saman greifadæmi og miklu stærra en í dag. Eftir að Frakkar yfirgáfu Niðurlönd 1814 myndaðist Limburg sem fylki sameinaðra Niðurlanda. Talað var um að nefna fylkið Maastricht eða Maasdal eða Opper Gelder. En Vilhjálmur I konungur ákvað að kalla fylkið Limburg. 1830 klauf Belgía sig hins vegar frá Hollandi og stofnaði eigið konungsríki. Því voru héruð eins og Brabant og Limburg skipt. Meginhlutinn tilheyrði þýska sambandinu sem greifadæmið Limburg (reyndar undir hollenskri konungsstjórn) en suðurhlutinn tilheyrði Belgíu (og gerir enn í dag). Þegar Bismarck hóf kröfu þess efnis 1867 að innlima Limburg algjörlega í prússneska ríkið, mótmæltu íbúarnir kröftuglega. Úr varð að Limburg sagði sig úr þýska sambandinu og fékk fullgilda inngöngu í konungsríkið Holland. Það er þar með yngsta fylkið í landinu (fyrir utan Flevoland). Þrátt fyrir það eru íbúar Limburg nokkuð frábrugðnir öðrum íbúum Hollands. Flestir eru til dæmis kaþólskir og flestir tala eigið tungumál, limburgísku (skylt flæmsku eða hollensku).

Borgir[breyta | breyta frumkóða]

Röð Borg Íbúar Ath.
1 Maastricht 119 þúsund Höfuðborg fylkisins
2 Venlo 99 þúsund
3 Sittard-Geleen 94 þúsund
4 Heerlen 89 þúsund
5 Roermond 55 þúsund
6 Weert 48 þúsund
7 Kerkrade 47 þúsund

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]